Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1951, Síða 12
10
Með þessum atburðum var bundinn endi á deilur þær, sem
staðið höfðu um hríð, milli kaþólsks og lúthersks siðar á Is-
landi. Leiðtogar annarrar fylkingarinnar voru á einum gráum
haustmorgni numdir úr leiknum með fáeinum höggum af öxi
böðulsins, og sigurvegararnir stóðu eftir. Allt landið hafði
leikið á reiðiskjálfi af átökunum; nú kom friðurinn, en það
var raunar friður kirkjugarðsins. Hann var endanlega stað-
festur með Oddeyrardómi vorið eftir; þá var víg þeirra feðga
löghelgað.
öxarhöggin í Skálholti mörkuðu ekki aðeins endalok deilu
út af trúfræðilegum efnum, heldur þáttaskil í lífi heillar þjóð-
ar, veigamikla breytingu á öllum högum hennar og háttum.
öll þáttaskil í sögu Islendinga hafa orðið, þegar rákust á eða
mættust einhver útlend, stundum alþjóðleg áhrif, og hin eðli-
lega lífshvöt og frelsisþrá þessarar litlu þjóðar. Þetta mætti
rekja frá upphafi og fram til þessa, en hér eru aðeins til um-
ræðu þáttaskilin 1550. Hin kaþólska miðaldakirkja var alþjóð-
leg, með miðdepli sínum suður í Róm. Áhrif hennar á menn-
ingu Islendinga urðu mikil og djúptæk, og margvíslegir árekstr-
ar urðu milli kirkjuvalds og innlends valds. En þegar hér var
komið sögu, var komin á nokkuð föst skipun og jafnvægi. Það
er merkast í þessu máli, að þó að kirkjan yrði hin mesta
stóreignastofnun, hélzt þó það fé innan lands og kom lands-
mönnum sjálfum að gagni.
Siðaskiptahreyfingu Lúthers kynnumst við Islendingar frá
hinni verstu hlið. Rán kirkna og klaustra ruglast hér saman
við sáluhjálp manna á mjög óskemmtilegan hátt, og kóngur
vor kemur út úr siðaskiptunum sem eigandi vel svo fimmtungs
jarðeigna landsins, og allur arður af þeim fer út úr landinu.
Sundurleitui’ var sá flokkur, sem fylgdi konungi að málum;
sumir voru það, sem leituðu sér þar trausts eða frama, hvað
sem nú föðurlandi þeirra liði; hins vegar voru hinir lúthersku
trúmenn, sem flestir hverjir sáu ekkert nema hina hreinu kenn-
ingu; sumir þeirra kunna þó að hafa séð missmíði á hinni nýju
skipan, síðar, of seint.
Það, sem gefur andstöðimni við lútherskuna hér á landi sér-