Búnaðarrit - 01.01.1980, Page 63
SKÝRSLUR STARFSMANNA
49
Ég fylgdist með flokkun afurða í S.F.G., eftir því sem við
varð komið. Er þróun þeirra mála jákvæð og eindregið til
bóta, svo og meðferð vöru í flutningi og hjá verzlunum, þótt
ýmsu sé að vísu enn ábótavant.
Miklir erfiðleikar voru við útirækt framan af vaxtarskeiði,
vegna þrálátra kulda og næturfrosta. Lentu kálræktarmenn í
miklum erfiðleikum, þar sem hvorki var hægt að vinna garða
vegna bleytu, né planta út vegna kulda. Einkum voru þrá-
látir kuldar í maí og fyrri hluta júní, og seinkaði þetta og tafði
afar mikið fyrir öllum gróðri. Horfði afar illa á tímabili, en
segja má að síðari hluti júlí og ágúst og gott haust hafi
bjargað því, sem bjargað varð á Suðurlandi, en á Norður-
landi varð útkoma yfirleitt afar léleg.
Mjög áberandi var, hve miklu betur ræktun gekk í heitum
jarðvegi, og hefir þetta m.a. ýtt undir menn að fara í auknum
mæli út í að hita upp jarðveg, með því að draga plastpípur í
jörð og leiða heitt vatn í þær. Má heita að öryggi skapist með
þokkalega uppskeru þegar jarðvegshitun er viðhöfð. Einnig
var mjög áberandi, hve ræktun undir plasti og bogum gekk
betur en bersvæðisræktun, og fengu þeir ræktunarmenn,
sem þá aðferð nota, ágæta uppskeru.
Innflutningur grænmetis utan uppskerutíma á innlendri
framleiðslu fór vaxandi, en yfirleitt verður verð slíkrar vöru
hátt sökum mikils flutningskostnaðar o.fl. atriða. Þó eru
svokallaðar grófar grænmetistegundir frá nágrannalöndum
okkar ódýrar, en mjög áberandi er, hve mikil fjölbreytni er
orðin á þessu sviði hér á landi, og hve mikil breyting hefir
orðið á fáum árum.
Blómasala gekk heldur tregar á árinu en á undanförnum
árum. Urðu í ýmsum tilvikum mjög mikil afföll, t. d. á
Chrysanthemum. Virðist ekki annað sýnna, en að talsvert
verði að draga úr ræktun þeirrar tegundar svo jafnvægi náist.
Einnig var verulegt umframboð á Hyacintum fyrir jól og svo
rósum yfir hásumarið.