Búnaðarrit - 01.01.1980, Page 246
232
BÚNAÐARRIT
kaldur, en fannalög víða ekki mikil, svo að frost gekk djúpt í
jörðu. Vorið, bæði maí og júní, var með afbrigðum kalt, svo
að sauðfé varð að gefa fram um miðjan júní og kúm var
óvíða beitt til gagns fyrr en komið var fram í júlí. Það mátti
furðu gegna, hve bændur stóðust harðindin á þessu Ianga og
kalda vori. Kom tvennt til, að heyforði var því nær alls staðar
með mesta móti og kjarnfóður fékkst að vild á fremur hag-
stæðu verði, nema á Norðausturlandi, þar sem hafís truflaði
siglingu á sumar hafnir og olli erfiðleikum, ekki sízt með
flutninga á heyi, kjarnfóðri og áburði, en eins og búast mátti
við, þrutu hey hjá stöku bónda.
Ríkisstjórnin lét þessi harðindamál til sín taka. Félags-
málaráðherra skipaði svokallaða hafísnefnd á útmánuðum
1979, til þess að gera tillögur um aðstoð vegna tjóns, sem
ísinn olli, einkum á Norðausturlandi. Verður ekki fjölyrt um
starf þessarar nefndar, en það snerti alla aðalatvinnuvegi
viðkomandi landshluta, sjávarútveg, verzlun og landbúnað.
En fyrir tilstuðlan þessarar nefndar veitti Bjargráðasjóður
bætur vegna aukaflutningskostnaðar á fóðri og áburði á þær
hafnir, sem ísinn lokaði til tjóns í skemmri eða lengri tíma,
þ. e. Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörð og Neskaupstað.
Eins og skýrt er frá í starfsskýrslu búnaðarmálastjóra, bls.
16—17 hér í ritinu, skipaði landbúnaðarráðherra í júní 1979
6 manna nefnd, sem kölluð hefur verið harðærisnefndin fyrri
1979. Þar er greint frá tvíþættu verkefni hennar, en meðal
annars lagði hún til, að Bjargráðasjóði yrði útvegað
fjármagn, allt að 300 milljónum króna, til að lána bændum
vegna fóðurkaupa, sem óskuðu þess, en lán þessi áttu að
vera full verðtryggð. Raunin var sú, að bændur óskuðu að-
eins eftir kr. 70 milljónum að láni með þessum kjörum. Þetta
sýndi, að flestir bændur treystu sér til þess að standa óstuddir
undir hinum gífurlega aukafóðurkostnaði, sem vetrar- og
vorharðindin 1979 ullu þeim. Að sjálfsögðu munu bændur
þá hafa vonazt eftir venjulegu sumri, er vorharðindunum
lyki. En svo reyndist ekki. Allt snerist bændum öndvert,