Búnaðarrit - 01.01.1980, Page 259
LANDBÚNAÐURINN
245
fullu verði. Ég hef á undanförnum árum hér í ritinu og víðar
bent á og rætt flesta þá möguleika, sem bændur geta notfært
sér, aðra en þá að bregða búi. Skal ekki fjölyrt um þau
úrræði, en aðeins geta þeirra helztu, sem ég hef bent á, enda
hafa margir talið þau fánýt. Og þau eru vissulega fánýt á
meðan bændur fá fullt verð fyrir allt, sem þeir framleiða, án
nokkurra takmarkana. En því er því miður ekki lengur til að
dreifa. Það er komið að því að leysa þann vanda, sem við
hefur blasað og við hefur verið glímt síðustu árin. Nú er
öllum ljóst, að framleiðslusamdráttur með kvótakerfinu
hlýtur að skapa dulið atvinnuleysi hjá mörgum bændum. Því
má mæta með ýmsu móti, en aðalleiðirnar eru tvær:
A) sú, sem fæstir vilja fara, þ. e. að hverfa frá þeirri
hugsjón að halda Iandinu að mestu leyti í byggð, láta þá, sem
standa lakar að vígi hætta búskap nauðuga viljuga, en fáa og
stóra bændur jafnvel aðallega verksmiðjubú framleiða
nauðþurftir þjóðarinnar af mjólk, kjöti og garðávöxtum.
B) sú, að halda meiri hluta býla, sem nú er búið á,
framvegis í byggð, þótt margir bændur verði að stunda ein-
hverja vinnu auk hefðbundins búskapar. Þá yrðu búin eins
og hingað til yfirleitt fjölskyldubú, hæfilega vélvædd miðað
við eðlilega og hagkvæma tækniþróun, svo að íslenzk bú-
menning fái að þrífast landi og lýð til farsældar. Þorri þjóð-
arinnar mun fylgjandi síðari stefnunni. Fyrri aðferðin er ekki
glæsileg miðað við núverandi aðstæður. Hún myndi valda
fólksstraumi frá sveitum til þéttbýlis í atvinnuleit. Þar þyrfti
að byggja yfir þetta fólk og útvega því atvinnu. Þótt næg
atvinna hafi verið hér á landi um árabil, þá er nú vá fyrir
dyrum í því efni.
Sé talað af fullri einurð um íslenzka atvinnuvegi, þá er það
staðreynd, að efnahagsleg velmegun þjóðarinnar hefur
byggst fyrst og fremst á sjávarútveginum, þótt landbúnaður
hafi átt sinn mikilvæga þátt í velgengninni og iðnaður haft
sitt að segja, einkum þjónustuiðnaður hvers konar. Eftir
sigur íslendinga í þorskastríðinu og auknar fiskigöngur síð-
17