Fréttablaðið - 30.10.2010, Blaðsíða 70
38 30. október 2010 LAUGARDAGUR
Í ÞÁ TÍÐ...
Kaffi, pósthús og Big Lebowski
MYNDBROT ÚR DEGI | Miðvikudaginn 27. október | Tekið á Canon IXUS60
Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson gaf nýlega út aðra plötu sína, Allt er eitthvað, ásamt hljómsveitinni Ritvélar framtíðarinnar
og hefur skífan hlotið frábærar viðtökur. Jónas brallaði ýmislegt á miðvikudaginn eins og ljósmyndirnar sýna.
1 Fullkominn morgunn byrjar á afslöppuðum morgunskrif-um með kaffibolla og teppi fyrir framan fartölvuna. Það
er siður sem ég byrjaði á í Danmörku og hef reynt að halda
í síðan þótt það gangi upp og niður.
2 Heimsókn í Stúdíó Sýrland til þeirra Benzín-bræðra Barkar og Daða. Þeir eru búnir að taka stúdíóið alveg
í gegn og það er hrein unun að kíkja í heimsókn til þeirra í
kaffi og spjalla um lífsins gögn og nauðsynjar.
3 Næsta stopp pósthúsið að senda tónlistaráhugamönnum, vinum og velvildaraðilum nýja diskinn. Í þetta sinn voru
eintök að fara til Svartfjallalands, Englands, Danmerkur,
Djúpavogs, Frakklands og víðar.
4 Heima beið lítil sæt frænka sem er í
miklum metum á heim-
ilinu og var nú komin í
heimsókn. Meðal ann-
ars til að kitla frænda
sinn.
5 Elliðaárdalur er uppáhalds hlaupasvæðið. Góð leið til að rífa sig upp seinni part dags er að hlaupa góðan hring um
dalinn. Þarna er ég á leiðinni niður aftur, Árbæjarmegin.
6 Eftir góðan dag og kvöldmat með fjölskyldunni fer dóttirin út á Skrekkæfingu og við Matti sonur minn
tökum til við að horfa á The Big Lebowski sem við höfum
verið að horfa á saman síðustu kvöld. Skemmtum okkur
konunglega yfir henni og skríðum svo í háttinn.
Fyrir réttum 50 árum hófst einn farsælasti atvinnumannaferill sög-unnar þegar ungur hnefaleikakappi frá Kentucky, Cassius Clay að
nafni, sigraði í sínum fyrsta bardaga sem atvinnumaður.
Eftir magnaðan feril sem áhugamaður þar sem hann vann 100
viðureignir á móti 5 töpum kom hann, sá og sigraði á Ólympíuleik-
unum í Róm árið 1960 þar sem hann hlaut gullverðlaun í léttþunga-
vigt.
Clay, sem síðar tók nafnið Muhammad Ali, steig fyrst inn í hring-
inn sem 18 ára atvinnumaður 29. október 1960 og mætti þar Tunney
nokkrum Hunsaker.
Hunsaker, sem var lögreglustjóri í smábænum Fayetteville í Vestur-
Virginíuríki, mátti sín lítils, en stóð þó af sér orrahríðina og úrskurð-
uðu dómarar að Clay væri sigurvegarinn eftir sex lotur.
Augu Hunsakers voru svo bólgin eftir bardagann að hann sá ekki út
úr þeim. Eftir á sagðist hann aldrei hafa séð annan eins hraða, hann
hefði reynt öll trikkin sem hann kunni en til lítils.
Hunsaker var þó enginn aukvisi því að Ali sagði sjálfur í ævisögu
sinni að í þessum slag hefði hann fengið eitt þyngsta skrokkhögg sem
hann hefði nokkru sinni upplifað, en ágætur kunningsskapur upphófst
milli þeirra tveggja í framhaldinu.
Ekki þarf að fjölyrða um feril Ali, sem varð einn mesti og
umdeildasti íþróttamaður næstu tuttugu ára. Hann varð fyrst heims-
meistari árið 1964 þegar hann sigraði Sonny Liston, en missti titilinn
í síðasta sinn árið 1978.
Ali er almennt álitinn besti hnefaleikakappi allra tíma. - þj
Byrjaði með sigri
Muhammad Ali lagði lögreglustjóra í fyrsta atvinnubardaganum.
1900ÁR 2010200019501960
INNTAKA NÝNEMA
Í LÖGREGLUSKÓLA RÍKISINS
Auglýst er eftir hæfum umsækjendum til að stunda almennt lögreglunám við
grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins.
Umsóknarfrestur er til 15. nóvember 2010.
NÁMIÐ
Skiptist í bóknám og starfsnám og hefst þann 1. febrúar 2011. Það stendur yfir í
a.m.k. tólf mánuði og þar af verður starfsnám a.m.k. fjórir mánuðir.
RÉTTINDI SEM NÁMIÐ VEITIR
Hver sá sem lýkur almennu lögreglunámi með fullnægjandi árangri er hæfur til
að sækja um laus störf lögreglumanna í lögreglu ríkisins. Hann þarf að uppfylla
skilyrði lögreglulaga til að geta hlotið skipun til slíkra starfa til fimm ára í senn.
AÐ HVERJUM ER LEITAÐ
Lögreglustarfið er um margt spennandi og krefjandi vettvangur fyrir dugandi fólk
enda eru líklega ekki gerðar jafn fjölþættar kröfur til umsækjenda um mörg önnur
störf. Gerð er krafa um lágmarks menntun en líka gott andlegt og líkamlegt atgervi
því í lögreglustarfinu reynir á ýmsa ólíka eiginleika þeirra sem því sinna. Reyndin
er sú að umsækjendur hafa fjölbreyttan bakgrunn og lögreglan hefur gegnum
tíðina fengið til liðs við sig afbragðs starfsfólk með t.d. iðnmenntun og aðra
fagmenntun auk þess sem háskólamenntuðum hefur fjölgað á síðustu árum. Þá er
góður kostur að hafa fjölþjóðlega reynslu.
Leitað er að skynsömum, jákvæðum, hraustum og reglusömum konum og
körlum sem eiga auðvelt með mannleg samskipti.
NÁNARI UPPLÝSINGAR
Upplýsingar um inntökuskilyrðin, námið, feril umsókna, inntökuprófin, umsóknar-
eyðublöð, læknisvottorð og handbók valnefndar er að finna á lögregluvefnum,
www.logreglan.is undir Lögregluskóli ríkisins - Inntaka nýnema.
Nánari upplýsingar veitir Gunnlaugur V. Snævarr, yfirlögregluþjónn hjá
Lögregluskóla ríkisins og formaður valnefndar Lögregluskóla ríkisins,
í síma 577 2200.
27. október 2010
RÍKISLÖGREGLUSTJÓRINN
G
ra
fik
a
10