Faxi


Faxi - 01.03.1986, Blaðsíða 35

Faxi - 01.03.1986, Blaðsíða 35
nokkuð legið á glámbekk áður," svaraði hann. ,,Það má margt gera sér til gamans, en svona á bara að skrifa í sandinn". Svo var það ekki nefnt meir; má því vera að það sé ekki nákvæmlega haft eftir, en nærri þó. Ein er sú, sem alltaf vinnur enga hvíld sér finnur. Ævi okkar spinnur híalín þetta er kæra konan mín. Seint líður mér úr minni þegar þau kvöddust hinsta sinni, og hann þakkaði henni blíðlega alla hennar elsku og umhyggju alla þeirra tíð, — ,,og svo einn koss enn". Enda lærð- ist mér mikið um ástina og kærleik- ann, manndóm og heilindi, hismi og kjarna, að hafa samskipti þeirra fyrir augum langa tíð. Yndæl er hún líka litla barnagæl- an, sem faðir minn eignar mér, — minnugur þess hve ég sótti til hans barnung. Ég gerði mér að vana að kúra hjá honum, sótti mér snert- ingu og hlýju, strauk handlegg hans og lét það heita , ,að fá mér mjúk- inn". Það var nú í þá góðu daga! Elsku litla lambið mitt langar oft að fá sér , .mjúkinn" alltaf fær hún áfram sitt og ég faðma litla búkinn. Síðan bæði sofnum vært, sætt og rótt í Drottins friði. Milli okkar er svo kært einkanlega á þessu sviði. Og víst var að hann gaf mér tíma og tóm og hug sinn alla ævi. Það er föðurleg hlýja og viska í eftirfarandi versum; þar sem hann reynir að svara vangaveltum mínum á ungl- ingsaldri. Þar sem góðir menn ganga eru Guðs vegir. Dóttir spyr: Hvernig er Guð? Hvar er Guð? Reynt að svara: Guð er í þér og Guð er í mér og Guð er í öllu sem lifir. Og hvar sem þú dvelur og hvert sem þig ber er himnesk náðin í fylgd með þér og vakir þér ávallt yfir. l'ví guðlegur neisti er í sérhverri sál sendur af heilögum anda. Af neistanum kviknar hið bjarta bál, sem byggir upp vitið og gefur þér mál og menntun til hugar og handa. Að lokum er svo minningar- og huggunarljóð, sem ég veit að var föður mínum einkar kært. Rétt af tvítugsaldri hafði hann fylgst með dauðastríði 16 ára stúlku, sem lést úr berklum er hann dvaldi hjá for- eldrum hennar. Móðir hennar lét lftt huggast og hann hafði hug á að lána henni lið. Orti hann þá minn- ingar- og huggunarljóð það sem hér fer, en þegar til kom hafði hann sig ekki í að gefa henni það. Sjálfsagt grunaði föður minn ekki af þetta yrði hans eigið minningar- ljóð, sem út yfir gröf hans og dauða huggar nú mig. Veit ég þó með vissu að gjöf sú hefði honum hugnast vel. Sagt er að dauðinn sé fylling lífs- ins, lögmál þess alla vega. En oft er hann þjáning þeim dauðvona og harmþrunginn eftirlifendum, jafn- vel svo að treglega verður um hugs- að hvað þá haft á orði. Jákvæð trú- arvissa lánar vissulega lfkn í nauð. Þín ævi líktist við lítið blóm, sem lifhar á morgunstund, er vorblærinn ljúfi með unaðsóm svo ylríkur fer um grund. Þú söngst um gæfu með glöðum róm og glaðværa áttir lund. Þó hlaustu að líða hinn harða dóm, og helkalda dauðans mund. Þig langaði heitt til að lifa og sjá hvað lífið þér færði 1 skaut. Þú áttir svo heita og einlæga þrá um yndæla lífsins braut. Þú trúðir vordrauma æskunnar á en Alfaðir ráða hlaut. Nú dvelur þú yndælum englum hjá að endaðri lífsins braut. Þitt ævisumar leið furðu fljótt þú íölnaðir eins og rós er haustsins stormar og helköld nótt þig hröktu að dauðans ós. Og veikindin lömuðu þrek og þrótt og þrautum yfir þig jós uns allt varð að eilífu hægt og hljótt þú hvarfst eins og slokknað ljós. Við stöndum þögul og þerrum tár því þungur er missirinn. í hjörtunum blæða sorgarsár og saknaðarminningin. Við vitum að Drottins himinn hár er heimilisstaður þinn þó líkami þinn sé liðinn nár og lagður í grafreitinn. Við lyftum hug til hæða í trú að hásæti Skaparans því milli heima er hulin brú að hjarta hvers einasta manns. Við trúum, vonum og treystum nú á tilveru kærleikans. Við vitum að blessað barnið þú ert boðsgestur Frelsarans. Og Drottinn, sem annast öll sín blóm með ástríkri föðurlund mun gefa þér yndæfan englaróm og umvefja þig sinni mund. Þó okkur finnist nú ævin tóm við eigum í vændum þá stund að hittast í sælunnar helgidóm í himneskum endurfund. Og nú hefur faðir minn lokið sinni jarðlífsglímu. Hann var nánasti vin- ur minn og velgerðarmaður alla tíð og fyrir hann langaði mig alltaf að vanda mig að vera til. Síðasta kvöldið sem hann lifði og ég hafði reynt að lána lið, þakkaði hann mér að hans sögn alla mína umhyggju. Hann strauk hendur um vanga mér og bað mér blessunar alla mína ævidaga. Ég taldi það synd að segja að umhyggjan væri ekki gagnkvæm og að mér væri ekki þakkað. Þá brosti hann góðlátlega, hnikaði höfði, vinkaði mér glaðlega og sagði „O, það er létt í mal". „Þyngst af öllu", svaraði ég sann- færð að bragði. Og nú þegar hann er allur og ég sakna vinar í stað, þá ber ég þó vissulega þakklátum huga minn þunga mal. Minning hans lifir, orð hans auðvelda það Guðlaug Tbrfadóttir. Veitingahúsið Vesturbraut 17 Sjávargullið FAXI 111

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.