Morgunblaðið - 05.02.2009, Side 23
23
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. FEBRÚAR 2009
Staðfastur Einn mótmælandi tók sér hógvær stöðu þegar Alþingi kom saman í gær. Þótt stjórnin sé frá er ekki þar með sagt að öll baráttumál séu í höfn.
Árni Sæberg
Gunnar Axel Axelsson | 4. febrúar
Hvað gerir Steingrímur
í málefnum
sparisjóðanna?
Lítið hefur borið á fréttum
af fyrirhugaðri sameiningu
BYRS, SPRON og SPKef
síðan fyrir jól, þegar fréttir
bárust af sameining-
arviðræðum þessara aðila.
Skrifaði ég þá um málið.
Treysti ég því að núverandi fjár-
málaráðherra skoði þessi mál af kost-
gæfni og endurmeti ákvarðanir fyrirrenn-
ara síns í embætti. Þær reglur sem
samþykktar voru af fjármálaráðherra fyrir
jól gera ráð fyrir stórfelldum fjármagns-
flutningum úr sjóðum skattgreiðenda til
nokkurra fjármálafyrirtækja, þó aðallega
til eins fyrirtækis, hins sameinaða BYR,
SPkef og SPRON. Þegar núverandi fjár-
málaráðherra tekur ákvörðun um hvernig
hann ætlar að haga þessum málum er
mikilvægt að hann kynni sér vel allar for-
sendur málsins. .
Það er mikilvægt að hann hafi í huga
þann aðdraganda sem málið hefur, s.s. að
það liggi alveg skýrt fyrir að þessi fjárhæð
sem um er að ræða er um það bil sú
sama og núverandi valdhafar (skrifa vald-
hafar vegna þess að lögum samkvæmt
eru þeir ekki eigendur sjóðsins) í BYR
greiddu sjálfum sér í arð á síðasta ári, vit-
andi vits að fjármálamarkaðir voru allir að
lokast og lausafjárskortur vofði yfir.
. . Það er hægt að gera margt fyrir 20
milljarða – annað en að „gefa“ þá til útval-
inna stofnfjáreigenda sem hafa nú þegar
gengið mjög vasklega fram í þeirri við-
leitni sinni að hreinsa fjármuni úr áður vel
stæðum og vel reknum sparisjóðum í al-
mannaeigu.
Þetta verður fjármálaráðherra að taka
upp strax – á morgun gæti það orðið of
seint!
Hann á næsta leik.
Meira: gunnaraxel.blog.is
Sigríður Laufey Einarsdóttir | 4. febrúar
„Ísland ekki á
útsölu til ESB“
Nú geta ESB-sinnar slak-
að á fyrst um sinn ekkert
í sjónmáli að Ísland geti
gengið í ESB, eflaust mikil
vonbrigði. Kaldhæðni ör-
laganna að forseti Evr-
ópuþingsins skuli hafa
lýst yfir að innganga þjóðarinnar yrði
ekki í bráð. Samfylkingin getur nú ein-
beitt sér að raunhæfum aðgerðum í erf-
iðleikum þjóðarinnar án þess að setja Ís-
land á „útsölu“ til ESB.
Meira: logos.blog.is
Sigurbjörn Sveinsson | 4. febrúar
Sjúkraliða úr prísund
hjúkrunarfræðinga
Nú á dögum vill ungt fólk
ekki leggja fyrir sig fag,
sem er öðrum stéttum
háð um atvinnuréttindi
og ekki hægt að nýta á
eigin ábyrgð nema að
breitt sé yfir starfsheitið.
Þessu þurfa sjúkraliðar að una. Er því
engin furða, að fólk forðist að leggja fyrir
sig þetta nám, þó margir séu vafalítið til-
búnir til að starfa við heilbrigðisþjónustu
með einhverri þekkingu án þess að
leggja fyrir sig langt háskólanám. . . .
Sjúkraliðar eru löggiltir heilbrigð-
isstarfsmenn en mega ekki starfa með
sínu starfsheiti við þau störf, sem þeir
eru þjálfaðir til nema á ábyrgð hjúkr-
unarfræðinga. Þetta er lögbundið.
Sjúkraliðar háðu harða baráttu fyrir að
fá þessu breytt fyrir rúmum áratug eða
svo og tengdu þá baráttu við átök við
ríkisvaldið um önnur kjör. Við lausn
þeirrar deilu lofaði þáverandi forsætis-
ráðherra og núverandi seðlabankastjóri
að leggja fram frumvarp í þinginu sem
lagaði stöðu sjúkraliða að þessu leyti.
Við þetta loforð var staðið en frumvarpið
kom aldrei til afgreiðslu þar sem því
hafði ekki verið lofað, að það kæmi til
umræðu (sic!). Síðan hefur ekkert gerst.
Tímarnir eru breyttir og sjúkraliðar
eiga annað og betra skilið en að búa við
þessa „átthagafjötra“. Þeir eiga að geta
tekið að sér viðeigandi störf með sínu
starfsheiti án íhlutunar hjúkrunarfræð-
inga.
Meira: sigurbjorns.blog.is
NÚ ÞEGAR Sjálfstæðisflokk-
urinn hefur yfirgefið stjórnarráðið
eftir 18 ára slímusetu hefur hann um
leið kollvarpað þrálátum goðsögnum
um hlutverk flokksins í íslenskum
stjórnmálum.
Sú fyrsta er að Sjálfstæðisflokk-
urinn sé forystuflokkur íslenskra
stjórnmála. Það ber ekki vott um
mikla forystuhæfileika að geta ekki á
14 árum gert upp hug sinn til stærsta
viðfangsefnis samtímans, sem er að-
ild Íslands að Evrópusambandinu.
Óttinn við klofning flokksins hefur
lamað flokksforystuna og gert hana óstjórnhæfa.
Önnur goðsögnin er sú að Sjálfstæðisflokknum
sé einum treystandi fyrir stjórn efnahagsmála. Við-
skilnaður flokksins eftir 18 ár segir allt sem segja
þarf um það. Hagkerfið er í rúst og þjóðin er
hneppt í skuldafjötra. Forystumenn Sjálfstæð-
isflokksins, sem gegnt hafa embættum forsætis- og
fjármálaráðherra og Seðlabankastjóra í aðdrag-
anda hrunsins, hafa brugðist þjóðinni. Samt hafa
þeir enn ekki sýnt þann manndóm að biðjast afsök-
unar. Það segir meira en mörg orð um valdhrok-
ann.
Ein goðsögnin er sú að Sjálfstæðismönnum ein-
um sé treystandi til að gæta hagsmuna atvinnuveg-
anna. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum at-
vinnulífsins teljast um 70% fyrirtækja í landinu
tæknilega gjaldþrota þegar Sjálfstæðisflokkurinn
skilur við.
Allt fjármálakerfi þjóðarinnar er komið í rík-
iseigu. Hugmyndafræðin hefur beðið algert skip-
brot.
Enn ein goðsögnin er sú að Sjálfstæðismönnum
sé treystandi til að sýna ráðdeild í ríkisfjármálum
og hafa hemil á skattbyrði almennings. Meira að
segja í góðærinu þegar fölsk lífskjör voru fjár-
mögnuð með erlendum lánum og peningarnir
streymdu þindarlaust inn í ríkissjóð setti fjár-
málaráðherra Sjálfstæðisflokksins heimsmet í út-
þenslu ríkisbáknsins. Hann greiddi niður erlendar
skuldir en láðist að safna í sjóði til mögru áranna.
Skuldafangelsið
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn skilur við teljast
skuldir ríkisins vera um 2400 milljarðar króna. Þá
eru ekki öll kurl komin til grafar því að vantaldar
eru gríðarlegar skuldir ríkisstofnana, einkum í
orkugeiranum. Erlendar skuldir fyrirtækja, ekki
síst sjávarútvegsins vegna kvótabrasksins, og
skuldir heimilanna, eru orðnar óbærilegar. Í heild
er skuldabyrði þjóðarbúsins sligandi, þ.e. hún er
meiri en greiðslugeta skattgreiðenda í landinu fær
undir risið. Það bíður nú annarra að hreinsa upp
óreiðuna í ríkisfjármálum eftir Sjálfstæðisflokkinn.
Þjóðarinnar bíður það að borga skuldirnar. Reynsl-
an sýnir að forystumönnum flokksins er hvorki
treystandi fyrir fjármálastjórn í góðæri né harðæri.
Verra getur það varla verið.
Loks er að nefna þá goðsögn að Sjálfstæð-
isflokknum einum sé treystandi til að hafa forystu
fyrir þjóðinni í samskiptum við aðrar þjóðir og al-
þjóðasamtök, jafnvel þótt það kosti (óvinsælar)
ákvarðanir. Þetta er lífseig goðsögn sem stenst
ekki dóm staðreyndanna. Sjálfstæðismenn klúðr-
uðu varnarsamstarfinu við Bandarík-
in undir lokin og urðu í þeim sam-
skiptum uppvísir að óskhyggju og
óraunsæi. Sjálfstæðismenn höfðu
hvorki forystu um inngönguna í
EFTA né samningana um Evrópska
efnahagssvæðið. Í hvorugu tilvikinu
þorðu þeir að láta brjóta á sér af ótta
við óvinsældir og klofning. Og nú hef-
ur getuleysi flokksforystunnar til að
móta skýra stefnu í Evrópumálum –
stærsta máli samtímans – dæmt
flokkinn úr leik. Sjálfstæðisflokkurinn
er einfaldlega óstjórnhæfur. Viðskiln-
aður Sjálfstæðisflokksins eftir 18 ára
valdaferil er satt að segja svo skelfi-
legur að leitun er að öðru eins nema í þeim tilvikum
þegar þjóðfélög hafa verið lögð í rúst í styrjaldar-
átökum.
Í ljósi ofangreindra staðreynda er það flestum
Íslendingum léttir að sjá á bak Sjálfstæð-
isflokknum úr Stjórnarráðinu. Samt sem áður mun
minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna
með hlutleysi Framsóknar njóta fárra hveiti-
brauðsdaga. Hún hefur 80 daga til að bæta fyrir
vanrækslusyndir fv. ríkisstjórnar og til að undirbúa
kosningar. Það fer eftir því hvernig til tekst hvort
litið verður á hana annað hvort sem neyðarbrauð til
skamms tíma eða sem vegvísi til framtíðar. Þrátt
fyrir ólýsanlega erfiðleika eiga forystumenn Sam-
fylkingar og Vinstri grænna nú tækifæri til að
marka tímamót í sögu þjóðarinnar. Það er mikið í
húfi.
Hér áður fyrr kom hugmyndafræðilegur ágrein-
ingur um grundvallaratriði í veg fyrir að Alþýðu-
flokkur (jafnaðarmenn) og Alþýðubandalagið (sósí-
alistar) gætu starfað saman af heilindum í
ríkisstjórn, þrátt fyrir sameiginlegan uppruna í
mannréttindahreyfingu fólksins (verkalýðshreyf-
ingunni). „Ísland úr NATO og herinn burt“ lýsti
grundvallarsjónarmiðum sósíalista, auk þess sem
þeir höfðu takmarkaðan skilning á gildi markaðs-
búskapar fyrir verðmætasköpun í þjóðfélaginu.
Jafnaðarmönnum í Evrópu stóð ógn af Sovétríkj-
unum og vildu verja lýðræðið í samvinnu við
Bandaríkin. Þessar hreyfingar tóku því ólíka af-
stöðu til NATO, EFTA, EES og síðar til Evrópu-
sambandsins. Þessar skammstafanir lýstu ágrein-
ingsefnum, sem sundruðu vinstrimönnum og færðu
þar með Sjálfstæðisflokknum pólitískt frumkvæði á
lýðveldistímanum.
Tímamót
Þessi tímabili er nú lokið. Hugmyndafræðin sem
réð för í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðis- og
Framsóknarflokks á 12 ára tímabili frá árinu 1995
hefur nú beðið varanlegt skipbrot. Þessi hug-
myndafræði er ættuð frá Ameríku og kennd við ný-
frjálshyggju. Þessi hugmyndafræði boðaði blinda
trú á markaðslausnir. Lögmál markaðarins áttu að
ráða án íhlutunar lýðræðislegs ríkisvalds, sem var
ævinlega talin af hinu illa.
Hlutverki ríkisvaldsins við að setja hinar al-
mennu leikreglur og að fylgja þeim eftir var vísað á
bug sem eins konar samkeppnishindrun. Beiting
skattakerfis og velferðarþjónustu til tekjujöfnunar
í nafni almannahagsmuna var fordæmd afdrátt-
arlaust. Þessi einfeldningslega hugmyndafræði
varð ráðandi í háskólum og við hagstjórn í hinum
ensk-ameríska hugmyndaheimi og í alþjóðastofn-
unum, sem lutu þeirra stjórn. Kreppan sem nú
breiðist út um heimsbyggðina táknar fjörbrot þess-
arar hugmyndafræði.
Á Íslandi hafa afleiðingarnar orðið harkalegri en
víðast hvar annars staðar. Sú skrípamynd amerísks
kapítalisma sem hér varð til, á ábyrgð Sjálfstæðis-
og Framsóknarflokks, er nú í molum. Uppbygging-
arstarfið sem framundan er getur aðeins byggst á
gildum og grundvallarsjónarmiðum hins norræna
velferðarríkis, þar sem lýðræðislegt ríkisvald gegn-
ir þýðingarmiklu hlutverki í samvinnu við virk al-
mannasamtök (e. civic society). Um þetta mikla
verk eiga Samfylkingin, Vinstri-græn og hug-
myndalega endurnýjaður Framsóknarflokkur að
taka höndum saman. Grunngildin snúast um jöfn
tækifæri allra til að þroska hæfileika sína án tillits
til efnahags og um samfélagslega ábyrgð í formi
stofnana hins félagslega öryggiskerfis. Baráttan
framundan stendur því milli hugsjóna hins nor-
ræna velferðarríkis gegn óvinum þess. Óvinurinn
birtist okkur í blindri markaðshyggju, sem leiðir af
sér ójafnaðarsamfélagið og afneitun á kraftbirting-
artækjum lýðræðisins.
Framtíðarsýn
Ísland er ekki lengur á amerísku áhrifasvæði.
Þjóðin býr við millibilsástand og óráðna framtíð-
arsýn. Það má ekki dragast miklu lengur að taka af
skarið um, hvert skal stefna. Nú þarf senn að kveða
upp úr um það, hvar Ísland á heima í samfélagi
þjóðanna. Af sögulegum, menningarlegum og póli-
tískum ástæðum eigum við að skipa okkur í sveit
með frændþjóðum okkar á Norðurlöndum og vina-
þjóðum við Eystrasalt í svæðisbundnu samstarfi
innan Evrópusambandsins, sem er allsherjar sam-
tök lýðræðisríkja í Evrópu.
Stærsta lexían af hruninu, sem við þurfum að
láta okkur að kenningu verða, er sú að engin smá-
þjóð getur staðið ein og berskjölduð frammi fyrir
fellibyljum alþjóðlegra fjármagnsmarkaða. Evr-
ópusambandið er einstæð og merkileg tilraun þjóð-
ríkja álfunnar til að bregðast við gerbreyttum að-
stæðum og tryggja þar með sameiginlegt öryggi
sitt. Umheimurinn lítur svo á að hin félagslega
þjóðfélagsskipan Evrópu (e. European Social Mod-
el) sé andsvar við hinum óbeislaða ameríska kapít-
alisma, sem nú hefur hrundið heimsbyggðinni í
djúpa kreppu.
Vandamálin sem við Íslendingar stöndum nú
frammi fyrir á þessum tímamótum eru stærri en
svo að við fáum leyst þau einir á báti. Þetta gildir
um okkur líkt og um aðrar smáþjóðir. Við þurfum
að leita lausna í samstöðunni. Hvers vegna ættu
fylgismenn Samfylkingar, Vinstri-grænna og hins
hugmyndalega endurnýjaða Framsóknarflokks
ekki að geta náð samstöðu um slíka framtíðarsýn?
Af svarinu mun það ráðast hvort núverandi rík-
isstjórn verður aðeins neyðarbrauð til skamms
tíma eða vegvísir, sem markar tímamót til fram-
tíðar.
Meira: mbl.is/greinar
Eftir Jón Baldvin Hannibalsson »Hagkerfið er í rúst og þjóðin
er hneppt í skuldafjötra.
Jón Baldvin
Hannibalsson
Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984-96.
Framtíðarsýn?
BLOG.IS