Morgunblaðið - 24.09.2009, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 24.09.2009, Blaðsíða 30
30 Umræðan BRÉF TIL BLAÐSINS MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. SEPTEMBER 2009 GÓÐAN dag. Ég heiti Róbert og er 11 ára. Mig langar að skrifa meira um það sem er að gerast á landinu okkar í dag. Ég er mjög mikið á móti Ísseif (Icesave) og því að við Íslendingar þurfum að borga eitthvað í sameig- inlegan reikning sem við komum samt ekkert nálægt. Til dæmis keyptu ríku mennirnir fyrirtæki í út- löndum og sum þeirra fóru á hausinn og þeir töpuðu þá fullt af peningum. Síðan þarf íslenska þjóðin að borga þetta allt saman með eigin pen- ingum en sumir ríku mannanna lifa bara góðu lífi á einhverri eyju. Ég vil ekki að mamma og pabbi, ömmur og afar, frænkur og frændur þurfi að borga reikninga fyrir einhverja aðra, því það er nóg fyrir þau að borga sína. Ekki vil ég heldur sjálfur þurfa að borga fyrir þetta þegar ég verð fullorðinn. Af hverju borga þeir sem komu okkur í þessi vandræði ekki bara fullt af sínum peningum til baka? Það væri nú flott hjá þeim. Það er alltaf verið að kenna börnum að axla ábyrgð. En hvað með full- orðið fólk? RÓBERT ORRI LAXDAL, nemi. Hvað með ábyrgð fullorðinna? Frá Róberti Orra Laxdal „NÚ MÁ ekki virkja í Gjástykki. Af hverju? Það skilur enginn.“ Þessi orð Halldórs Blöndals í Morgunblaðsgrein eru lýsandi um rökræðu virkjanatrúarmanna. Ekki örlar á málefnalegri umræðu hjá hon- um um ástæðurnar fyrir því að rétt- ast væri að friða Leirhnjúk, Vítismó og Gjástykki. Því lýsti ég í Morg- unblaðsgrein nýlega og þessi rök eiga að vera aðgengileg fyrir Halldór. Mikið væri nú þægilegt og einfalt ef Halldór væri einvaldur yfir Íslandi og ákvæði hvað allir skilja eða skilja ekki og þar með væri hægt að losna við alla rökræðu. Bjarni Már Júlíusson ritar grein í blaðið um grein mína og vinnur það afrek að minnast aldrei á svæðið, sem ég tala um, „heimsundrið Leirhnjúk, Vítismó og Gjástykki“, heldur notar alltaf orðið „Kröflusvæðið“ og segir í ofanálag að ég noti það orð. Það geri ég aldrei í greininni en minnist einu sinni á „svæðið fyrir norðan Kröflu“ og á þá auðvitað við, Leirhnjúk, Vít- ismó og Gjástykki. Með þessu ruglar hann umræðuna og gefur í skyn að ég sé á móti Kröfluvirkjun, sem ég er ekki. „Bæði má nýta og njóta þeirra náttúruundra, sem finnast á Íslandi“ segir Bjarni Már og kemur þar að kjarna málflutnings virkjanatrúar- manna. Þeir geta ekki hugsað sér að nota orðið að „nýta“ öðruvísi en um að gera náttúruundrasvæðin að iðn- aðar- og virkjanasvæðum. Þeir skilja bara gildi kílóvattstunda, ekki gildi unaðsstunda eða tekna af annars kon- ar nýtingu ósnortinnar náttúru. Þessari röksemd Bjarna Más fyrir virkjunum hefur verið haldið fram og verður haldið fram þangað til búið verður að virkja allt sem virkjanlegt er. Þessir menn virðast ekki skilja neitt annað, – vera óskiljanlegt hvers vegna Bandaríkjamenn láta hina gríðarlegu jarðvarma- og vatnsorku Yellowstone ósnortna þótt það svæði standist ekki samanburð sem nátt- úruundur við hinn eldvirka hluta Ís- lands. Þess vegna er umræðan hér á sama plani og hún var í Bandaríkj- unum fyrir hálfri til heilli öld. Bjarni Már notar hlutfallareikning til stuðn- ings máli sínu og margfaldar íslensk- ar tölur með þúsund í samanburði viðYellowstone í Bandaríkjunum í stað þess að eðlilegra væri að bera saman Ísland og Wyomingríki, þar sem Yellowstone er. Þessi tvö ríki eru mjög sambærileg um stærð, fólks- fjölda og landshætti. Með því að margfalda með þúsund eins og Bjarni Már gerir má komast að nánast hverju sem er. Þegar menn stóðu til dæmis frammi fyrir því að drepa síð- ustu geirfuglana 1844 hefðu þeir get- að réttlætt að drepa alla fuglana nema einn, því feikinóg væri að skilja einn geirfugl eftir með því að segja að hann samsvaraði þúsund geirfuglum í Bandaríkjunum. ÓMAR RAGNARSSON, vinnur að heimildarkvikmynd um þetta mál. Skilningsleysi fyrir hönd okkar allra Frá Ómari Ragnarssyni OECD er merkilegur álitsgjafi. Hér verður nýlegt álit hans um íslensk mál athugað, atriði, sem kynnt voru al- menningi. OECD-álit eru eins konar æðsti dómur valdahagfræðinganna, líklega frumsamin af innlendum mönnum. Fyrst er að nefna, að OECD telur, að efnahagslegum stöðugleika verði að ná með yfirráðum Evrópusambands- ins hér á landi og með evru að gjald- miðli. Nú er það svo margskýrt í um- ræðu hér undanfarnar vikur, að vísasta leiðin til efnahagslegrar stöðn- unar er að hafa gjaldmiðil, sem hefur gengi, sem er óviðkomandi efnahag Ís- lands, og æ fleiri lýsa því, hvernig eig- in gjaldmiðill, íslensk króna, er það stjórntæki, sem nú lyftir efnahags- starfseminni, og þarf þó að láta hann gera enn betur. OECD hirðir ekki um forræði Ís- lands yfir auðlindum. Það er reyndar lítið að sækja til valdahagfræðinga eða háskólahagfræðinga um gildi slíks for- ræðis. Annars sér það hver maður, hversu mikilvægt það er hér á landi. Áhugi Evrópusambandsins á yfirráð- um yfir Íslandi beinist að auðlindum landsins og hafsins í kringum það og norður af því, það er ekkert leynd- armál. OECD bendir á, að kennarar á Ís- landi hafa færri nemendur að með- altali en gerist í öðrum löndum. Nú er ekki sýnt fram á, að nemendafjöldi á kennara í öðrum löndum sé hæfilegur. Gæti verið, að þar væri til heilla að hafa líka tölu og hér? Líta verður á, hvaða hlutverki vist barna og unglinga í skóla gegnir og hverjar heim- ilisástæður eru og þátttaka í atvinnu utan heimilis. Það er dæmigert fyrir skýrslugerðarhagfræðinga að setja upp svona samanburðartöflur, án þess að fram komi skýring á því, sem veld- ur mismuninum. Annar samanburður var nefndur í álitinu, að Ísland raðaðist meðal efstu ríkja með fjárframlög til landbúnaðar, og það er talið ófært. Nú er það svo með slíkar samanburðartöflur, að ein- hverjir verða efstir. Ef álit OECD á að vera einhvers virði um þetta efni þarf að færa rök að því, að ekki séu góðar ástæður til þess, að Ísland raðist hér ofarlega. Margir vita, að til þess eru góðar ástæður, en það er eins konar atvinnukækur valdahagfræðinga og háskólahagfræðinga að láta sem þeir skilji hvorki upp né niður í landbúnaði. Ekki er vitað til, að OECD hafi gefið sig að slíkum málum. BJÖRN S. STEFÁNSSON, dr. scient. Álitsgjafi athugaður Frá Birni S. Stefánssyni „OG HVAÐ nú, þjóð mín góð?“, allt virðist fallið í ljúfa löð, eftir að Alþingi Íslendinga samþykkti Icesave samninginn með áorðnum fyr- irvörum þingsins fyr- ir samþykktinni. Allir fyrirvararnir eru af hinu góða, og ekkert hefur breyst hvað varðar þörf okkar til að samþykkja Icesave samninginn og senda þann- ig skilaboð til heimsbyggðarinnar að við séum ábyrg þjóð sem viljum borga þær skuldir sem okkur ber, og ganga upprétt meðal annarra þjóða. Og við biðum þess, að Bretar og Hollendingar sættu sig við fyr- irvarana og aðrar Evrópuþjóðir og AGS teldu málið leyst og óhætt væri að lána okkur fé sem við svo sannanlega höfum mikla þörf fyrir. En hinn 18. september var vonin slökkt og ljóst að Bretar og Hol- lendingar fallast ekki á fyrirvara Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni, og ríkisstjórnin mun þurfa að leita til þingsins að nýju til að lappa upp á þann handónýta samning sem gerður var til að þóknast Bretum og Hollendingum. En einu hefur ekki verið svarað, getum við staðið í skilum? Forsætis-, fjármála- og við- skiptamálaráðherra hafa ekki spar- að yfirlýsingar um getu Íslendinga í þessu máli, greiðslubyrðin sé að- eins 2-4% af vergri þjóðarfram- leiðslu? Ég persónulega sé ekki hvað þessar yfirlýsingar hafa með greiðslugetuna að gera. Aftur á móti hafa þessir sömu aðilar forðast að bera saman ríkisfjármálin (ríkissjóð) við þá skuldabyrði sem við nú tökum á okkur. Það er væntanlega afkoma ríkissjóðs sem ræður því hvort yfirhöfuð er geta fyr- ir hendi til greiðslu á þeim skuldum sem við höfum gengist undir og okkur ber að greiða, eða hvort skuldirnar eru meiri en svo að við ráðum við þær, og ríkissjóður stefni í greiðsluþrot. Þetta er sama staða og mörg heimili í landinu horfast nú í augu við og horfa til stjórnvalda um lausn sinna mála, aðgerða sem losa þau úr snöru greiðsluþrots og gjaldþrota meðferða. Hér ræður öllu hvernig fram- vindan verður í rekstri þjóðarbús- ins á komandi áratug, en eins og Storm P. sagði um árið, „Það er erfitt að spá, og þá sérstaklega um framtíðina“. Hér vekur ugg sú þróun sem er á heildarskuldastöðu þjóðarinnar, þar sem skuldin hefur vaxið úr 1000 milljörðum í 3000 milljarða á skömmum tíma, og læðist að manni sá grunur að þeir sem um þessi mál halda, valdi ekki verk- efni sínu, eða ríkistjórnin hafi kerfisbundið reynt að fela þessar upplýsingar meðan náð var í öll þau lán sem okkur býðst, frá ASG, og vinaþjóðum. Ljótt ef satt reynist, því „sann- leikurinn er sagna bestur“, og eins og góður maður sagði fyrir bráðum 2000 árum, „sannleik- urinn gerir yður frjálsa“. Ég hef þrisvar sinnum (hér í Morgunblaðinu) bent á lausn Ice- save-málsins, sem byggist á því að ÍL (íslensku lífeyrissjóðirnir) yfirtaki Icesave-skuldina og greiði hana út gegn geng- istryggðu ríkisskuldabréfi með sömu kjörum og Bretar og Hol- lendingar bjóða, og væri þá hægt að leita til t.d. norska olíu- sjóðsins um kaup á þriðjungi verðmæta ÍL (heildareign í dag ca. 1800 milljarðar). Þannig yrði tryggt, að vextir af Icesave (200- 300 milljarðar) færu ekki úr landi heldur yrðu í eigu þjóð- arinnar í vörslu ÍL. Þessi tillaga hefur fengið frek- ar jákvæð viðbrögð, en þó eru margir sem segjast ekki treysta stjórnvöldum fyrir slíkum fjár- munum, enda sé það eins og að biðja alkóhólista að passa brennivínsflösku fyrir sig. Á þessi rök er létt að fallast, en þrátt fyrir það er of mikið í húfi fyrir okkur öll, nú á þessum örlagatíma, þar sem lítið þarf til að glutra niður fjöreggi þessa unga lýðveldis, sem Ísland er. Fyrir höndum er harður vetur í efnahagsmálum, niðurskurður útgjalda ríkissjóð og skattaálög- ur í óþekktum hæðum sem bitna á öllum landsmönnum og er þá hætta á, að reiði og vonleysi brjótist út í annarri og alvarlegri mynd en hin friðsama búsáhalda- bylting liðins vetrar var. Verum á varðbergi. Icesave, og hvað nú, þjóð mín góð? Eftir Björn Jóhannsson » Fyrir höndum er harður vetur í efna- hagsmálum... Björn Jóhannsson Höfundur er tæknifræðingur. ÉG BÝ á Akureyri og þar gengur alveg fram af mér og fleir- um þróun mála hvað varðar hámarkshraða á ákveðnum götum sem eru aðalgötur í hverfum og eiga að safna umferð frá ákveðnu svæði. Ef ég man rétt kallast þær safngötur. Ég var að koma heim úr fríi um daginn, sem er í sjálfu sér ekki frásögur fær- andi. En þegar ég ók inn í Skóg- arlundinn á leið minni heim, en Skógarlundurinn er aðalgatan í gegnum Lundarhverfið, komst ég ekki hjá að sjá það sem var búið að mála á götuna … Ég spurði konuna mína sem var með mér í bílnum hvort ég væri nokkuð að sjá ofsjón- ir? Heyrið þið, það var búið að mála 30 stórum stöfum á götuna! „Ég trúi þessu ekki sagði ég, ætlar þessi djöfuls vitleysa engan enda að taka?“ Oft er ég búinn að hneykslast á því að þetta skuli hafa verið gert í Skarðshlíðinni (þar þekki ég fólk sem er síður en svo ánægt með þetta) og nú skal víst bæta um bet- ur, ef þær upplýsingar sem ég hef eru réttar. Því áfram skal haldið, og Þórunnarstrætið og Þingvall- astrætið tekin líka. Er ekki allt í lagi? Gengur fólk sem að þessum málum kemur, ekki heilt til skógar? Það eru kannski einhverjir sem fussa og sveia þegar þeir lesa þetta en það verða fleiri hygg ég sem taka þessum skrifum mínum fagn- andi. Því alla jafna er það svo, að fólk sem er á móti endalausum hertum reglum og hömlum á alla hluti, lætur ekki nóg í sér heyra! Alltof oft virðist það vera svo, að nördarnir sem finna að öllu, eru algjörlega veruleikafirrtir og að því er virðist óþreyt- andi í sinni sjálf- umglöðu for- sjárhyggju, nái sínu í gegn. Og þar sannast máltækið að dropinn holar steininn. En nú er mál að linni! Ein- hvers staðar verður þetta að enda. Ef við tökum Skógarlundinn fyr- ir þá er hann frekar opin gata, og fátt eða ekkert sem byrgir öku- mönnum sýn á umhverfið. Af hverju lætur fólk þá svona? Jú, sennilega vegna barnanna sem eru á leið í skólann. Þá erum við að tala um þau fáu börn sem ekki eru keyrð í skólann og sótt svo aftur er það ekki?! Þau ár sem ég hef búið í nálægð við þessa götu og farið hana bæði til og frá vinnu, hef ég ekki séð annað en gangandi vegfarendum sé sýnd full og tilhlýðileg virðing í umferðinni og stoppað samvisku- samlega fyrir þeim við gangbrautir. Hvert er þá vandamálið? Og hver eru rökin fyrir þessu? Trúlega þau að ekki viljum við að keyrt verði á börn á leið til og frá skóla. Og að sjálfsögðu vill allt vitiborið fólk forðast það. Því miður eru og verða alltaf til einhverjir sem hlíta engum reglum og haga sér eins og fífl hvort sem er í umferðinni eða ann- ars staðar. En staðreyndin er að þessir eintaklingar verða ekki stoppaðir með skiltum um 30 km hámarkshraða, það er klárt! Og þess vegna gengur ekki að mínu viti að æða yfir bæinn og negla alla umferð niður í 30 km hraða með þeim rökum að stoppa þurfi þessa örfáu ökufanta og láta alla aðra en þá líða fyrir. Maður spyr sig ef þessi þróun heldur áfram óhindruð, hvort endi þá ekki bara með því að enginn fari útúr húsi eða í það minnsta bílaumferð leggist af?! Börnunum eru kenndar umferð- areglur varðandi gangbrautir og hvernig þau skuli fara yfir götu. Þar að auki eru akandi vegfarendur mjög meðvitaðir um hvar börn eru á ferðinni og þar eru nokkrir staðir sem mest mæðir á og sem fólk veit af og tekur tillit til. Síðan eru líka gangbrautarljós sem auka öryggi gangandi. Við verðum alltaf að vera vak- andi í umferðinni og ég er ekki á móti að hraði sé minnkaður á af- mörkuðum stöðum í nálægð skóla og inni íbúagötum, en fyrr má nú aldeilis. Er þetta virkilega það sem koma skal? Ég skora á fólk að aka þessar götur sem ég hef nefnt, á 30 km hraða og vita hvað því finnst. Þetta er algjörlega út í hött, það er alltof langt gengið og ég vona virkilega að fólk þori nú að standa með mér í þessu og láti í sér heyra. Ég þakka þeim sem lásu. Hvar á þetta að enda? Eftir Ásgeir Yngvason » Þau ár sem ég hef búið í nálægð við þessa götu og farið hana bæði til og frá vinnu, hef ég ekki séð annað en gangandi vegfarendum sé sýnd full og til- hlýðileg virðing.... Ásgeir Yngvason Höfundur er atvinnubílstjóri.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.