Morgunblaðið - 24.09.2009, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 24.09.2009, Blaðsíða 23
23 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. SEPTEMBER 2009 Þröngt mega sáttir sitja Af fúsum og frjálsum vilja ætlar þetta unga fólk að dúsa í þrjá sólarhringa í fangaklefa í Kringlunni en hann mun vera hluti leikmyndar í Fangavaktinni. Golli ÞEGAR rætt er um að opinber starfsemi þurfi að vera gagn- særri en nú er, þá er átt við að störf og starfsafurðir, mál og málsferli eigi að birta með aðferðum upplýs- ingatækni. Það er í sjálfu sér hægt að opna stjórnsýslu með verulega aukinni út- gáfu blaða og bæklinga og annars útgáfuefnis, það má líka hugsa sér að ríkissjónvarpið sé vettvangur aukins gagnsæis, en hagkvæmast er að nota upplýsingatæknina. Tvennt virðist þurfa til: ákveðna innri gerð í upplýsingatækni- málum og breytingu á starfs- hefðum opinberra starfsmanna. Útgáfuform opinberra upplýs- inga með upplýsingatækni Upplýsingagjöf ríkisvalds á Vesturlöndum hefur á síðasta ára- tug tekið á sig fast form sem er tvenns konar: annars vegar upp- lýsingagjöf einstakra stofnana og sveitarfélaga eins og við þekkjum hér á landi og hins vegar sam- ræmd upplýsingagjöf um nokkurs konar þjóðargátt. Á Íslandi heitir hún www.island.is. Á bak við þjóðargáttir standa ríkisgagnagrunnar þar sem út- gáfuefni einstakra stofnana og sveitarfélaga er samræmt bæði að formi og innihaldi og meðal annars gefin efnisorð (t.d. samræmd efn- isorð ESB) og leitarorð. Það er allur gangur á því hvernig skipu- lag þessara ríkisgagnagrunna er, en yfirleitt eru þeir undir stjórn ráðuneyta og bundnir við málefni ráðuneytis, þ.e. málefnabundnir gagnagrunnar. Mikilvægi þessa skipulags felst í því að samþættir gagnagrunnar veita aukið gagnsæi. Þar er hægt að skoða feril máls sem fer milli stjórnvalda, skyld málefni og þar geta einstaklingar séð málefni sem þá varða og eru hjá fleiri en einu stjórn- valdi. Þetta skipulag er helsta formið sem notað er í okkar heimshluta til að veita almenningi innsýn í opinber mál. Hér á landi vantar þessa grunna að mestu leyti. Þannig er aukið gagnsæi í opinberum störf- um ekki mögulegt um sinn á Ís- landi af tæknilegum orsökum. Mikið hefur verið rætt og ritað síðustu 10 árin um samþætta gagnagrunna og eru þeir nú óum- deildir. Á síðustu fimm árum hafa flest eða öll ríki Vesturlanda byggt upp svona gagnagrunna, nema Ísland. Sú staðreynd hefur smám saman orsakað það að Ís- land er nú í einu af neðstu sætum Evrópuríkja á alþjóðlegum mæli- kvörðum Sameinuðu þjóðanna um þróunarstig rafrænnar stjórnsýslu. Hér á landi snerist umræðan um gagnagrunna á heilbrigðissviði einmitt um þessa uppbyggingu op- inberra gagna. Henni var ekki fyrr lokið hér með fullnaðarsigri þeirra lækna sem vildu ekki sam- ræmda gagnagrunna en heimurinn komst að andstæðri niðurstöðu á forsendum gagnsæis. Íslenska ríkið þjófstartaði raun- ar í samræmingunni með því að hafa alla vefi ráðuneyta eins. Það er að jafnaði ekki gert í öðrum ríkjum. Það eru slæm mistök að binda vefi ráðuneyta við ákveðið útlit og ákveðið kerfi, því áhuga- samir ráðherrar skilja af þeim sökum ekki eftir sig þróaða og góða ráðuneytisvefi, eins og ger- ist í nágrannaríkjunum. Bara þetta eitt og út af fyrir sig veldur því að Ísland mælist neðarlega í alþjóðlegum mælingum á raf- rænni stjórnsýslu, því vefir ráðu- neytanna eru komnir til ára sinna. Röð mistaka var þessi: að um- ræðan um gagnagrunna á heil- brigðissviði endaði í blindgötu, að vefir ráðuneytanna voru sam- ræmdir og að ekki voru myndaðir málefnabundnir ríkisgagna- grunnar undir stjórn ráðuneyt- anna. Þessi mistök hafa ekki verið leiðrétt. Það er mjög hættulegt, því þróun upplýsingatækninnar er hröð og munurinn í rafrænni þjónustu íslenska ríkisins og ná- grannalandanna getur orðið mikill á fáeinum árum. Það gæti verið verulega brýnt að leiðrétta þessi mistök. Það þarf ekki að búa til nýtt SKÝRR eða Reiknistofu bankanna, slíkar stórar stofnanir með forstjórum, riturum og annarri yfirbyggingu þarf ekki til þessa verks. Það þarf ekki heldur stór útboð eða mikla einkavæðingu. Það þarf hins veg- ar að koma upp 20 manna stofnun sem verður málefnabundnir gagnagrunnar ríkisins, hún þjóni öllum ráðuneytunum og er fjöldi starfsmanna miðaður við að skrif- stofa Alþingis hefur tvo menn við umsjón og uppbyggingu gagna- grunna sinna. Breytingar á starfshefðum opinberra starfsmanna Það gæti einnig þurft viðhorfs- breytingu hjá opinberum starfs- mönnum, nýja afstöðu til þess hvernig þeir vinna og skrá störf sín í upplýsingakerfi. Þótt löggjafavaldið hafi fyrir hálfum öðrum áratug opnað alla starfsemi sína út á vefinn þá hef- ur framkvæmdavaldið farið sér hægt og ekki sýnt þess merki að það ætli að breyta starfshefðum sínum. Oft er sagt að opinberir embættismenn viti ekki í umboði hvers þeir starfa, þeir líti á mál- efnalega gagnrýni sem persónu- lega árás á sig og að þeir treysti sér ekki til þess að gagnsæi ríki um störf þeirra gagnvart almenn- ingi. Þótt ekkert af þessu sé kannski satt, þá ríkir ákveðin tor- tryggni í garð starfshefða op- inberra embættismanna hjá net- verjum og öðrum sem vilja blanda sér í þjóðmál. Helsta dæmi íslenskrar stjórn- sýslu um breytingu af þessu tagi í starfsmannamálum er hjá skrif- stofu Alþingis fyrir um 20 árum. Þá var metnaðarfull forsæt- isnefnd yfir þinginu og hún gerði breytingar sem bæði voru tækni- legar (vefur Alþingis er árangur þeirra) og í málefnum starfs- manna. Störf ómenntaðs fólks (hagyrðingar og húsverðirnir voru einkenni Alþingis á þessum tíma) sem fór á eftirlaun voru end- urnýjuð með háskólamenntuðu fólki og skipulagsbreytingar voru gerðar sem kölluðu ungt og vel menntað fólk til ábyrgðar. Þessar breytingar á skrifstofu Alþingis unnu saman. Nýjar skipulagsein- ingar og nýtt og vel menntað starfsfólk tók því vel að skrá í gagnagrunna öll störf sín og gerði Alþingi mögulegt að starfa fyrir opnum tjöldum vefsins. Ekki er ósennilegt að ríkis- stjórnin þurfi að gera eitthvað svipað ef hún ætlar að auka gagnsæi opinberra starfa veru- lega. Það sem helst virðist blasa við fyrir þrjú næstu ár, sem eru niðurskurðarár og munu meðal annars einkennast af stöðnun í mannaráðningum, er að virkja 95 ára regluna þannig að eldra starfsfólk fari fyrr á eftirlaun en ætlað var og að heimila niður- færslu millistjórnenda og stjórn- enda í sérfræðingsstörf. Þessar tvær breytingar gætu þýtt að rík- isstjórnin gæti endurnýjað hluta af millistjórnendum og stjórnendum hjá ríkinu og ef til vill einhverja sérfræðinga. Með fyrirætlunum af þessu tagi myndi ríkisstjórnin styrkja stöðu sína í yfirstandandi togstreitu við embættismannavaldið – og styrkja jafnframt þá miklu breytingu sem gagnsæi opinberra starfa er. Gagngæi opinberra starfa er ekki líklegt til þess að komast á eins og er á Íslandi. Helstu for- sendur þess eru ekki til staðar, hvorki tæknilega né í starfs- hefðum framkvæmdavaldsins. Ef ríkisstjórnin ætlar sér að efla gagnsæi þá á hún nokkurt starf fyrir höndum. Hún getur mætt mótstöðu embættismannakerfisins, en ef hún sýnir styrk og viljafestu gæti henni tekist vel til – og fátt er skemmtilegra en að vinna við aðstæður breytingastjórnunar þegar þær takast vel og sú stað- reynd gæti unnið með ríkisstjórn- inni. Þannig gæti hún fengið með sér framfarasinnaðasta hluta emb- ættismannanna og einangrað þá sem vilja halda í eldri vinnubrögð. Gagnsæi er ein af þeim erfiðu áskorunum sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og verður gaman að sjá hvernig henni tekst til við hana. Eftir Hauk Arnþórsson »Ef ríkisstjórnin ætl- ar sér að efla gagnsæi þá á hún nokk- urt starf fyrir höndum. Haukur Arnþórsson Höfundur er stjórnsýslufræðingur og var yfirmaður upplýsinga- og tækni- mála á skrifstofu Alþingis á árunum 1989-2004. Hvað hindrar gagnsæi opinberra starfa?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.