Saga - 1972, Síða 18
16
GUNNAR KARLSSON
sem sérgrein og hafa aðgang að dómstólum forréttindi
höfðingja. Er ekki eitthvað af formfestu dóma þjóðveldis-
aldar sprottið af viðleitni goða til að hafa tangarhald á
þingmönnum sínum?
Að vísu gátu menn leitað til annarra en goða sinna um
málflutning. Prestar virðast hafa átt það til að leggja fyrir
sig málfærslustörf í hjáverkum og taka fé fyrir. Er þeim
bannað það í erkibiskupsbréfi á áttunda tug 12. aldar.30
1 Prestssögu Guðmundar góða segir frá því, að Guðmund-
ur tók að sér málsókn, meðan hann var djákn að vígslu.
Hefur það átt að verða honum til fjár, því hann tók það
ráð, er óvænlega horfði, að gefa guði allt, sem hann hefði
upp úr málinu.31
Það virðist því ljóst, að klerkar hafi stundað málfærslu
fyrir borgun, en í þeirri heimildakönnun, sem liggur til
grundvallar þessari grein, hafa ekki fundizt örugg dæmi
þess, að goðar tækju fé fyrir að veita þingmönnum sínum
að málum, hvorki til sætta, dóms né hefnda. Þess eru dæmi,
að veraldlegum höfðingjum sé boðið fé til liðveizlu og að
þeir þiggi það. En þar er, að minnsta kosti stundum og
ef til vill alltaf, um að ræða liðveizlu við menn utan þeirra
eigin þingmannahóps.32 Af þessu er einfaldast að draga
þá ályktun, að goðar hafi þótt skyldir til að veita þing-
mönnum sínum vernd endurgjaldslaust, en vildu menn
leita liðs annað en til goða síns, hafi þeir þurft að greiða
þá hjálp. Þetta hefur gert mönnum nærtækast að leita til
goðans.
Hér skiptir þó annað miklu meira máli. Það virðist
hreint ekki hafa verið neitt aðalatriði í málaferlum að
hafa góðan málstað og geta flutt mál sitt á réttan hátt fyrir
dómi. 1 fyrsta lagi er það alþekkt, að skipulega stofnun
vantaði til að sjá um, að dómum væri framfylgt. Mál voru
því engan veginn útkljáð, þótt dómur væri fallinn. Til þess
að framfylgja honum þurfti liðsafla, og hann hefur margur
þurft að sækja til goða síns. 1 öðru lagi er það afar fátítt
í 12. aldar sögum Sturlungu, að gert sé út um mál fyrir