Saga - 1972, Side 48
46
GUNNAR KARLSSON
bændur. Það voru kirkjugoðarnir, sem Björn Þorsteins-
son kallar svo, en hann hefur manna rækilegast dregið
fram gildi kirkjuteknanna í þjóðfélagsþróun þjóðveldis-
aldar.141 Á síðari hluta 13. aldar á þetta líklega einkum
við um Haukdæli og Oddaverja, enda tókst engum að
hrófla varanlega við veldi þeirra í héruðum sínum, fyrr en
í tíð Árna biskups Þorlákssonar.
Spyrja mætti, á hvern hátt auður stórbænda gat aflað
þeim slíkra áhrifa, en um það verða lítil svör sótt í heim-
ildir. Auðvitað hafa sumir þeirra haft tök á landsetum
kirkna sinna, sumir hafa átt leigujarðir sjálfir. Það gat
verið byrjunin, nóg til að koma því af stað, að þessir menn
völdust til að uppfylla þá þörf, sem verið hefur á fyrir-
liðum meðal bænda. Annars er það alþekkt, að auður færir
mönnum völd, og það var líka þekkt á Sturlungaöld. Um
Snorra Sturluson segir í Islendinga sögu:142 „Gerðist
hann þá höfðingi mikill, því at eigi skorti fé.“
Þessir nýju oddvitar bænda virðast yfirleitt ekki hafa
seilzt eftir formlegum mannaforráðum. Þó má benda á
nokkra menn úr bændastétt, sem vefjast inn í valdabar-
áttu goðaættanna. Þegar Þórður kakali varð að fara utan
árið 1250, setti hann Eyjólf Þorsteinsson ofsa og Hrana
Koðránsson yfir ríki sitt norðanlands. Eyjólfur var
tengdasonur Sturlu Sighvatssonar, en ekki goðaættar sjálf-
ur. Hann var frá Hvammi í Vatnsdal, sem var kirkju-
staður,143 og varð staðarhaldari á Möðruvöllum í Hörgár-
dal. Um uppruna Hrana er ekki fullvíst, en hann bjó á
ekki minni stað en Grund í Eyjafirði. Árið 1252 kom hing-
að út með konungsbréf fyrir mannaforráðum í Þingeyjar-
þingi Finnbjörn Helgason, sonur staðarhaldarans í Kirkju-
bæ á Síðu, en tengdasonur Orms Svínfellings.144 Hér má
sjá merki þess, að kirkjubændur sæki upp í raðir goðorðs-
manna, stundum með hjálp tengda við goðorðsmanna-
ættir. Skemmtilegur vitnisburður um muninn á þessum
mönnum og goðorðsmönnum er í ræðu, sem Finnbjörn
Helgason hélt yfir Heinreki Hólabiskupi á Munkaþverá