Saga - 1972, Side 130
128
EIRlKUR ÞORMÓÐSSON
Aukið hreinlæti og betri læknaskipan var á seinni hluta
19. aldar mikilvægt fyrir heilbrigði og mannfjölgun.
Áður hefur verið getið, hvern þátt sala stólsjarða ásamt
afnámi einokunarverzlunar átti í viðreisn landsins.
Þegar á allt er litið, má segja, að hagur landsins í heild
hafi verið mun betri á 19. öld en nokkru sinni áður. Hag-
stætt árferði lengi framan af öldinni, bættir verzlunar-
hættir, sala konungs- og stólsjarða, bætt heilbrigðisþjón-
usta, aukið hreinlæti, stórum minni plágur, aukin menn-
ing, framfarir á flestum sviðum, þótt víða væru hægar,
allt olli þetta almennt bættum hag og auknum fólksfjölda,
og allt fram undir lok aldarinnar voru þorp og kaupstaðir
enn ekki komnir á það stig, að þeir tækju við fólksfjölgun-
inni að neinu marki. Þess vegna hafa menn ekki átt annars
kost en taka að nýju til ábúðar eyðibýli eða nema ný land-
svæði. Segja má, að höfuðástæðan til „landnámsins" hafi
verið landþrengsli, sú byggð, sem fyrir var, var orðin full-
setin. Hins vegar munu nýbýlalögin svonefndu frá 1776,
ekki hafa ýtt mikið undir þessa þróun í byggðarmálum.
Það hlýtur einnig að vekja athygli, hve byggðin hefur
dregizt ört saman á árunum 1885—95, einkum þó 1885—■
90. Þá mætti sömuleiðis spyrja, hvað hafi valdið þessum
mikla samdrætti. Svarið verður fyrst og fremst harðn-
andi árferði, en það jók m. a. Ameríkuferðir, og þar sem
þær réðu geysimiklu um fækkun byggðra jarða og býla í
Þistilfirði, er rétt að ræða áhrif þeirra nokkru nánar.
Fólksflutningar frá íslandi til Norður-Ameríku, hinar
eiginlegu Vesturheims- eða Ameríkuferðir, hófust um eða
upp úr 1870. Orsakir þessara flutninga eru vafalaust fleiri
en ein. Langmestu hefur sjálfsagt valdið illt árferði, enda
fóru mestu útf lutningarnir nokkurn veginn saman við mestu
harðæriskaflana, og þeir voru mestir frá þeim svæðum,
sem harðindin komu verst niður á, þ. e. Norður- og Austur-
landi. Fram hefur komið sú skoðun, að um 1870 hafi sveit-
ir landsins verið orðnar það setnar, að ekki hafi að óbreyttu