Saga - 1972, Qupperneq 162
160 BJÖRN TEITSSON OG MAGNÚS STEFÁNSSON
Óvíst er, hvort þessi ályktun fær staðizt. Árið 1446 voru
liðin yfir 40 ár frá plágunni, og uppbyggingu á Norður-
landi gat hafa seinkað af ýmsum ástæðum, t. d. vegna upp-
blásturs lands eða breytinga á atvinnuháttum. Einnig er
ekki vitað, hvort allar eyðijarðir í eigu Guðmundar Ara-
sonar eru taldar með á listanum yfir eignir hans.
Samt sem áður er ástæða til að ætla, að afturkippurinn,
sem plágan 1402—04 hafði valdið, hafi að verulegu leyti
verið unninn upp á ný um 1450—60. Líklega á þetta eink-
um við um Vesturland, en ástandið á Norðurlandi lagaðist
einnig smám saman, og 1461 var aðeins ein eyðijörð í lít-
illi sókn nyrðra, þar sem % jarðanna höfðu legið í eyði
1429, svo að dæmi sé nefnt. Tekið skal fram, að bezt varð-
veittu og mest rannsökuðu heimildirnar eru frá Norður-
landi. Því er í rauninni út í hött að koma með ágizkanir
varðandi ástandið í öðrum landshlutum. Mikið vantar á, að
allt þetta vandamál hafi verið nægilega rannsakað, en e.
t. v. var það á þessu tímabili, sem fólki á Norðurlandi
fækkaði mest hlutfallslega, sé borið saman við landið í
heild (sjá bls. 167—8).
Þorkell Jóhannesson taldi, að manndauði í plágunni
miklu hefði numið þriðjungi til helmingi þjóðarinnar.64
Þessi ágizkun hans er óörugg, enda m. a. reist á áætlun
J. E. Sars um manndauða í Noregi 1349—50. Ýmislegt
bendir þó til þess, að þessi plága hafi verið mjög mann-
skæð. Vinnuskylda íslenzks verkafólks var ekki lögboðin
fyrir pláguna miklu, en í alþingissamþykkt frá 1404 var
bannað, að fénaði verkafólks, sem ekki vildi vinna fyrir
bændur, væri leyfð hagabeit. Um leið var reynt að hamla
gegn kauphækkunum (sjá Dipl. Isl. III, bls. 689—96). Um
1490 var ákveðið, að allir, sem áttu undir þremur hundr-
uðum í eign, væru skyldir til vinnu hjá bændum, annars
væri fé þeirra upptækt. Svipuð ákvæði voru endurnýjuð
með dómi árið 1514. Út frá þessu virðist líklegt, að skort-
64 Þorkell Jóhannesson 1965, bls. 79—80.