Saga - 1982, Blaðsíða 282
280
SVANUR KRISTJÁNSSON
fram, að hann eigi hugmyndina að ríkisstjórninni og hafi fengið
aðra í lið með sér, jafnvel meðan aðrir höfðu formlegt umboð til
stjórnarmyndunar. Gunnar segir aftur á móti, að menn úr öðrum
flokki hafi átt upptökin, en hann síðan talið það skyldu sína að
koma saman þingræðislegri stjórn, enda hafi enginn haft formlegt
umboð til stjórnarmyndunar og engar viðræður verið í gangi-
Hver er sannleikurinn í þessu máli — eða er kannski engan ,,sann-
leik“ að finna?
í viðtali við Edgar Guðmundsson sem birtist í Dagblaðinu/Vísi
(5. des 1981) segir hann m.a. um stjórnarmyndun Gunnars Thor-
oddsens:
,,Það eru nú liðin tvö ár síðan þetta gerðist þannig að það gæti
reynzt erfiðleikum bundið að greina frá þessu þannig að þetta
komi örugglega rétt. Ég kom inn í þetta um helgi, líklegast sunnu-
daginn 27. janúar, held ég örugglega. Þá var málið ekkert komið í
fjölmiðla en Vísir kom með frétt um þetta nokkrum dögum síðar,
á þeim fimmtudegi held ég (31. janúar 1980). Þegar ég kom inn í
þetta var þetta búið að vera í gangi í nokkra daga, ég hef grun um
að þetta hafi staðið yfir frá miðvikudegi (23. janúar).
Mitt fyrsta verk var að fara með drög að stjórnarsáttmála frá
Gunnari til Svavars Gestssonar. Það gerðist mánudaginn 28. jan-
úar, að mig minnir.“
Þessi frásögn gengur þvert á ummæli Gunnars Thoroddsens,
sem áður er vikið að. Hver fer rangt með, hver segir satt? Ég
hygg, að þessari spurningu verði ekki svarað einvörðungu á
grundvelli viðtala við þátttakendur í atburðunum. Raunar stafa
vandkvæði viðtalsaðferðarinnar, sem virðist eitt megineinkenni
,,blaðamennskusagnfræðinnar“, sennilega sjaldnast af því, að
einhverjir viðmælendur fari vísvitandi með rangfærslur — heldur
þurfi að huga að öðrum þáttum, sem meira máli skipta.
í fyrsta lagi er minni manna óglöggt, eins og raunar allir kann-
ast við, einkum um löngu liðna atburði. (Við kölkun snýst þetta
víst við). Dæmið um stjórnarmyndunarviðræður Gunnars sýnir
okkur einnig, að tvö ár eru nægur tími til að fallvalt sé að treysta
upprifjun manna. Fleiri dæmi um mismunandi útgáfur af sama