Saga - 1996, Side 20
18
ÞÓR WHITEHEAD
sonar (1990) og Óskars Halldórssonar (1994). Þótt Ásgeiri tækist að
mínu viti ekki alltaf jafnvel að sameina einstaklingssögu og þjóðar-
sögu og frágangur hans á heimildum væri ekki eftir aðferðafræði-
reglum háskólasagnfræðinga, eru rit hans mikill og góður skerfur
til íslenskrar sjávarútvegssögu. Þegar yfir lauk, hafði Ásgeir spann-
að sögu sjósóknar og útgerðar í landinu frá upphafi til okkar daga.
Vönduðustu ævisögur hans eru tvímælalaust í flokki bestu ævisagna,
sem ritaðar hafa verið á síðustu áratugum. Skemmtilegust aflestrar
finnst mér Óskars saga Halldórssonar. Hún sameinar margt það besta
í ritum Ásgeirs og ólgar af lífi, þótt höfundur sjálfur væri fársjúkur
maður, þegar bókin kom út. Þótt Ásgeir botnaði ekki fyllilega í „ís-
landsbersa" frekar en aðrir samtíðarmenn, var einhver dulinn skiln-
ingur þar á milli, og mikið hefði Óskar mátt gleðjast yfir því,
hvernig Ásgeir greiddi honum fimmtíukallinn, sem útgerðarmað-
urinn lánaði honum í Ingólfsstræti forðum daga.
Afköst Ásgeirs voru að sönnu mikil. Eftir hann liggur 21 frum-
samið rit (þar á meðal tvær skáldsögur og eitt smásagnasafn) á
þrjátíu ára tímabili auk bóka, sem hann íslenskaði. Sumir halda að
vestfirskur sagnamaður eins og Ásgeir hafi áreynslulaust getað
mælt fram sögur sínar af munni fram og fært nánast óbreyttar til
bókar. Þetta er mesti misskilningur. Á bak við hina léttu og lifandi
frásögn Ásgeirs lá taumlaus og reglubundin vinna. Hann lagði
mikla alúð við heimildaöflun sína og handrit og samdi af þeim
margar gerðir. Stoð hans og stytta í þessu starfi eins og í lífi hans
öllu var kona hans, Bergrós Jóhannesdóttir. Með hjálp Jakobs sonar
síns tókst Ásgeiri líka að ljúka við síðustu bók sína, Pétur sjómann,
sem út kom á jólum 1995.
Upphaf að kynnum okkar Ásgeirs var á þann veg að ég leitaði til
hans eins og fleiri starfsbræður um upplýsingar um veiðar og
sjómennsku á fyrri tíð. Veitti hann mér ævinlega góða úrlausn, svo
margfróður sem hann var í sjávarútvegssögu fomri og nýrri. Ás-
geir gat stundum virst bæði hrjúfur og ódæll, einkum í skrifum
sínum. En undir niðri bærðist hlýtt hjarta, og sjálfur minnist ég
hans sem eins svipmesta manns, sem ég hef kynnst. Þegar mér
verður nú hugsað til þessa látna vinar míns, geri ég mér grein fyrir
því, að ég mun trauðla hitta annan mann honum líkan. Hann ólst
upp við óblíð kjör, basl, veikindi, dauða og hættur. Hann bar með
sér ótalmargt úr þessum harða heimi æskuáranna, en sá heimur er
löngu horfinn, og ýmis þau gildi, sem fyrrum vom í hávegum höfð
og mótuðu kynslóð Ásgeirs, eiga nú undir högg að sækja. Þrátt