Saga - 1996, Side 194
192
JÓN ÓLAFUR ÍSBERG
Jón Steffensen gerði ráð fyrir að hérlendis hafi lungnapestin við-
haldist í andrúmsloftinu og húsum en þó einkum í fatnaði fólks og
borist þannig á milli, t.d. við jarðarfarir, en hann taldi að pestar-
sýklar gætu lifað mánuðum saman utan hýsils, sérstaklega í
frosti.45 Hér er um grundvallarmisskilning að ræða. Sýklarnir eru
taldir geta lifað einhvern tíma utan mannslíkamans, en að þeir geti
smitað eftir það og komið af stað faraldri er talið næstum ómögulegt.
Lungnapest smitast nær eingöngu milli lifandi manna eða af ný-
dauðum mönnum. Kenning Jóns Steffensens um lungnapestina
hefur ekki verið sönnuð vísindalega, en hún virðist sett fram til
þess að skýra útbreiðslu pestarinnar þar sem ekki voru rottur. Hann
útilokar réttilega smit með mannaflóm og þá er ekki nema lungna-
pestin eftir. Jón segir að annálar lýsi henni og svo virðist sem hann
hafi ekki þekkt blóðpestina, a.m.k. ekki það afbrigði hennar sem er
án kýla, og þess vegna túlkar hann frásagnir annálanna á þann
hátt að um lungnapest hafi verið að ræða. Þessar skýringar eiga
ekki við rök að styðjast, en upphaflega munu þær hafa komist á
kreik þegar þekking manna á sjúkdómnum var takmörkuð og of-
urtrú á sjúkdómslýsingum annála réð ferðinni.46 í Lögmannsannál,
sem lýsir plágunni í Noregi 1349, segir svo:47 „Það var kyn sóttar-
innar að menn lifðu eigi meir en eitt dægur eða tvö með hörðum
stinga. Eftir það setti að blóðspýju og fór þar öndin sinn veg".
Þetta túlkar Jón, og aðrir á undan honum, sem öruggt merki um
lungnapest (primary pneumonic plague), en hann bætir því við að
það sé „gamalt álit að pestin í Noregi 1349-1350 og plágumar á Is-
landi hafi verið sama veikin" 48 Lýsing annálsins getur hins vegar
45 Sjá nánar Benedictow, Plague, bls. 224, sem vísar í Pollitzer og Meyer, The
Ecology of Plagues, bls. 434-35, sem Jón Steffensen, Menning og meinsemdir,
vísar einnig í, bls. 322, og virðist sem þar sé upphaf þess misskilnings sem
kemur fram í skrifum Jóns um pestina.
46 Þorkell Jóhannesson, „Plágan mikla 1402-1404", bls. 76-77. - Jón Steffensen,
Menning og meinsemdir, bls. 327,338. - Sigurjón Jónsson, Sóttarfar og sjúkdóm-
ar, bls. 2, 9-10, bendir réttilega á að varasamt sé að treysta frásögn annála
hvað varðar sjúkdómsgreiningu og segir að „hóflaus trúgimi á frásögur um
óvenjuleg fyrirbrigði er einkenni þessara alda", þ.e. 15.-18. aldar. Sjá einnig
The Cambridge World History, bls. 282-83. - Benedictow, Plague, bls. 44-48. -
Slack, „Introduction", bls. 5.
47 Islandske Annaler, bls. 275-76.
48 Óvíst er hvenaer það kemur fyrst fram að þetta sé lýsing á lungnapest en
hún er hjá Þorkeli Jóhannessyni, „Plágan mikla 1402-1404", bls. 78 (greinin
birtist fyrst 1928) og Jóni Steffensen, Menning og meinsemdir, bls. 338.