Saga - 1996, Page 206
204
JÓN ÓLAFUR ÍSBERG
að þeir árgangar sem þá eru frjóastir eru fámennir vegna pestar-
innar. Þegar börn sem fæddust eftir fyrsta mannfellinn komast á
frjósemisaldur verður nýtt ris vegna þess hve þau eru mörg miðað
við aðra árganga. Síðan koll af kolli en tíminn á milli risa fer eftir
meðalævilengd, aldri við hjúskap og eflaust ýmsum öðrum samfé-
lagslegum þáttum. Vegna þess hve fæðingar hvers árgangs dreifast
á mörg ár fletjast þessar sveiflur út í tímans rás nema ný sótt, stríð
eða hallæri komi til og viðhaldi þeim. Sveiflurnar geta þó verið
mjög mismunandi þótt árgangarnir séu jafnstórir vegna ýmissa
ytri aðstæðna. Ef sótt leggst einkum á fjölmennan hóp á frjósemis-
aldri kemur það í veg fyrir að fólksfjöldinn nái sér á strik að nýju
fyrr en að lengri tíma liðnum. Niðursveiflan getur t.d. verið óvenju
djúp ef skæð sótt herjar á fámennan árgang á frjósemisaldri og þá
vantar kannski heila árganga í fólksfjöldapýramídann.98 Þetta gerð-
ist á íslandi á 17.-19. öld og hinar miklu sveiflur í fæðingar- og
dánartíðni vekja athygli þegar íslensk fólksfjöldasaga er skoðuð.
Helgi Skúli Kjartansson telur í grein frá árinu 1975, að fólksfjöldi á
17. öld hafi verið stöðugur og nefnir hallæri, versnandi árferði og
þverrandi landkosti sem ástæður þess að fólki fjölgaði ekki. Þrátt
fyrir það bendir hann á miklar sveiflur sem hægt er að rekja a.m.k.
aftur til 1650 og ljóst er að hægt er að rekja sveiflurnar lengra aftur.
Gísli Gunnarsson hefur komist að svipaðri niðurstöðu um mann-
fjöldatölur og Helgi Skúli, þótt nokkur meiningarmunur sé á milli
þeirra um einstök atriði.99
Telja má líklegt að þessar sveiflur hafi byrjað með Svarta dauða,
eða þær hafi þá a.m.k. aukist verulega, og þeim hafi síðan verið
viðhaldið með mismunandi styrk næstu aldir. Árin 1420 og 1421
getur Nýi annáll um sótt og síðara árið „deyði... margt hraust fólk,
fátt eldra en á þrítugsaldri og eigi yngra en 20 ára", þ.e. frjó-
samasta fólkið, en óvíst er hversu skæð þessi sótt var eða hvers
kyns. Sex árum síðar gekk annar faraldur af sótt eða sóttum, en
ekki er getið mannfalls.100 Árið 1431 og kannski einnig árið áður
gekk einhvers konar bólusótt, líklegast um allt land, og var kölluð
98 Livi-Bacci, A Concise History, bls. 49-50.
99 Helgi Skúli Kjartansson, „Spáð í pýramíða", bls. 131-33. - Gísli Gunnarsson
„Reconstruction of the Icelandic population before the year 1735".
100 Annálar 1400-1800 I (Nýi annáll), bls. 23. - Jón Steffensen, Menning og mein-
semdir, bls. 283-84.