SunnudagsMogginn - 11.04.2010, Síða 34
34 11. apríl 2010
R
eist hefur verið skjaldborg um
heilsuna. Þrjár konur standa að
Heilsuborg, þar sem brúað er
bilið á milli líkamsræktar og
heilbrigðisþjónustu. Þær hafa ólíkan bak-
grunn, Anna Borg er framkvæmdastjóri
þjálfunarsviðs, en hún er í grunninn
sjúkraþjálfari og einkaþjálfari, Hildur
Kristjánsdóttir er markaðsstjóri og Erla
Gerður Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri
lækninga- og fræðslusviðs en hún hefur
starfað sem heimilislæknir.
„Þetta snýst um að bjóða upp á með-
ferð, fræðslu og líkamsrækt á einum stað,
þannig að horft sé í heild á málefni hvers
einstaklings,“ segir Hildur.
„Nálgunin er sú að við viljum hjálpa
fólki að njóta lífsins betur,“ bætir Anna
við, „að bæta heilsuna, auka hreyfinguna
og hugsa um mataræðið. Allt kemur þetta
inn á andlega líðan fólks. Við reynum
jafnframt að meta þarfir hvers og eins og
vísa þeim til sérfræðinga sem þeir þurfa
helst á að halda, ekki síst upp á fræðslu og
ráðgjöf.“
Hildur hristir höfuðið er hún rifjar upp
nýlega frétt í fjölmiðlum. „Fólk er farið að
taka klemma, hjartalyf fyrir hross, til að
auka brennsluna, sem sýnir að það er
langt leitt í skyndilausnum.“
Þverfaglegt samstarf
Það er langt síðan hugmyndin kviknaði
að Heilsuborg. „Erla er læknir og hefur
talað mikið um að það skorti samvinnu á
milli þeirra fagaðila sem sinna heilsu
fólks,“ segir Anna.
„Við erum með mikið af færu fagfólki,
en það vinnur hver í sínu horni. Útkoman
væri miklu betri ef þeir fagaðilar sem
hugsa um sama einstaklinginn gætu borið
saman bækur sínar. Erla vísar fólki
kannski til næringarráðgjafa eða annarra
sérfræðinga sem heimilislæknir en fær
ekkert í hendur um afraksturinn af því
nema sjúklingurinn hafi sjálfur frum-
kvæði að því og getur því ekkert unnið úr
því.“
Anna hefur unnið að forvörnum sem
einkaþjálfari á líkamsræktarstöðvum en
fundist vanta tengingu á milli líkams-
ræktar og heilbrigðisþjónustu. „Ég get
nefnt sem dæmi að sjúkraþjálfarar eru
kannski með fólk í endurhæfingu en svo
er ekki byggt áfram á þeirri reynslu og
þekkingu sem skapast til að stuðla að
heilbrigðari lífsstíl.
Það má segja að hugmyndin að því að
stofna Heilsuborg, þar sem sérfræðingar á
öllum sviðum koma saman, hafi kviknað
hjá okkur Erlu í fjölskylduboðum því við
erum mágkonur. Það var kveikjan að því
að við hrintum þessu átaki í framkvæmd.
Annars vegar að tengja líkamsræktina við
heilbrigðisþjónustuna og hins vegar að
byggja upp þverfaglegt samstarf.“
Anna lítur á Hildi.
„Útskýri ég þetta nógu vel?“
„Þér tókst að segja þverfaglega,“ svarar
Hildur og hlær.
Áhersla á forvarnir
Viðbrögðin hafa verið góð, að sögn Hild-
ar, en þó segir hún að of fáir viti af þeirri
þjónustu sem í boði er á Heilsuborg. „Þeir
sem hafa komið á námskeið hjá okkur eru
ánægðir og við finnum að þörf er fyrir
þessa þjónustu, enda er hún ekki í boði
annars staðar. Við leggjum okkur líka
fram um að vera öðruvísi, erum ekki með
hávaðatónlist, eins og á sumum líkams-
ræktarstöðvum, heldur reynum að skapa
notalega stemningu.“
En það er óneitanlega erfitt að hefja
rekstur í miðri kreppu, að sögn Önnu.
„Við leggjum mesta áherslu á forvarnir og
lífsstílstengda sjúkdóma, en reynum að
halda kostnaði niðri eins og hægt er. Við
erum í raun að selja okkar þjónustu ódýr-
ara en við stöndum undir, þannig að við
þurfum að vaxa hratt til að ná endum
saman.“
Hildur skýtur inn í:
„Það hjálpar ekki til að viðhorfið hjá
stjórnvöldum virðist vera þannig að fólk á
biðlistum kosti ekkert og forvarnir eru
því einskis metnar.“
„Sparnaðaraðgerðirnar í heilbrigð-
iskerfinu fela í sér að dregið er úr fjárveit-
ingum til forvarna en þá verður bara til
meiri kostnaður annars staðar,“ segir
Anna. „Það er ekki sparnaður til lengri
tíma litið. En reyndar hafa aldrei neinir
fjármunir verið settir í forvarnir, að heitið
getur.“
Og ástandið er miklu verra en fólk gerir
sér grein fyrir, að sögn Hildar. „Mér
finnst þróunin ógnvekjandi. Offita er ört
vaxandi vandamál, ekki síst offita barna,
en það er nokkuð sem við höfum áhuga á
að vinna gegn. Hreyfingarleysið er miklu
meira en fólk gerir sér grein fyrir. Við er-
um að fá til okkar fólk sem hefur aldrei
stigið fæti inn í líkamsræktarstöð. Hér
líður því vel – því finnst í lagi að vera hér í
jogginggallanum að hreyfa sig.“
Offitan er alvarlegt vandamál, að sögn
Önnu. „Þá skapast hætta á því að fólk fái
þessa lífsstílstengdu sjúkdóma og margir
sem leita til okkar eru jafnvel með þá alla,
en offitu fylgir til dæmis hætta á syk-
ursýki, hærri blóðþrýstingi og hjarta- og
æðasjúkdómum.“
En fjölmargt annað er í boði í Heilsu-
borg fyrir fólk með ólík áhugasvið, til
dæmis jóganámskeið og golfnámskeið.
„Við viljum fyrst og fremst stuðla að
heilbrigðari lífsstíl hjá fólki og koma
þannig í veg fyrir sjúkdóma, ekki bara
slökkva elda,“ segir Anna. „Þegar búið er
að gera heilsufarsmælingar og meta
ástandið bjóðum við upp á mismunandi
leiðir og oft er aðalatriðið að koma hreyf-
ingunni í lag.“
Hildur Kristjánsdóttir, Anna Borg og Erla Gerður Sveinsdóttir í Heilsuborg.
Snýst ekki
bara um að
slökkva elda
Það lýsir mikilli bjartsýni að stofna til
rekstrar í miðri kreppunni. En markmiðið er
göfugt hjá þremur konum sem vilja sameina
forvarnir, líkamsrækt og heilbrigðisþjón-
ustu undir einu þaki. Í Heilsuborg er opið
hús í dag, laugardag, með hreyfingu, ráð-
gjöf, fyrirlestrum og ýmsum glaðningi.
Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Morgunblaðið/Ernir
Tekið á því í tækjasalnum, þó
án hávaðatónlistar.
Heilsa