SunnudagsMogginn - 08.08.2010, Page 16

SunnudagsMogginn - 08.08.2010, Page 16
F yrsti staðurinn sem kemur í hugann til að hitta engla á förnum vegi er ekki Vellirnir í Hafnarfirði. Eftir að hafa tekið vitlausa beygju og endað við endurvinnslustöð Sorpu fer umhverfið að minna meira á sögusvið í norrænni sakamálasögu en á tökustað hjá hinum heimsfræga heimildamyndaljósmyndara Mary Ellen Mark. Stórir trukkar og eyðileg bílastæði blasa við en eftir stuttan akstur til viðbótar koma hvítklæddar verur í ljós í hrauninu. Bjargvættir bílstjórans eru leikarar úr leikhópnum Perlunni, íklæddir skjannahvítum englabúningum en Mark kom hingað til lands til þess að mynda þá og hitta íslenska vini en hún hefur myndað sterk tengsl við landið eftir margar heimsóknir. Hugmyndin að þessari myndatöku er hins vegar komin úr verð- launamyndbandi Ágústs Jakobssonar við lag Sigur Rósar, „Svefn-G-Englar“ þar sem leikarar úr Perl- unni voru í aðalhlutverkum. Mikil einbeiting ríkir á tökustað bæði hjá ljós- myndara, viðfangsefnum og hjálparhellum. Vindinn lægir og birtan er svo ævintýraleg að það hefði ekki verið hægt að panta hana. „Það ríkir himnesk stemning hérna,“ segir Þor- varður Karl Þorvarðarson, sem er einn nýliðanna í hópnum en hann hefur starfað með Perlunni í tvö ár. Við hlið hans stendur reynsluboltinn Sigfús Svan- bergsson, kallaður Fúsi, en hann er búinn að vera í leikhópnum öll árin 27 sem hann hefur starfað. Sigríður Eyþórsdóttir hefur leitt starfið frá upphafi og stýrir sínu fólki í gegnum myndatökuna. „Hvort eru englar með bleikan eða rauðan varalit?“ kallar hún. Niðurstaðan er bleikur þó stuttu síðar hlæi hún og bæti við að það skipti kannski ekki miklu máli því myndirnar verða svarthvítar. Elskar föt og verslunarferðir Mark gengur hreint til verks klædd brúnum leður- jakka, svörtum buxum og svörtum mótorhjólastíg- vélum, sem eru hentugur fótabúnaður fyrir úfið um- hverfið. Hún ber stóra hringa og er með pena svarta prjónahúfu á höfði sem síðar svartar flétturnar, ein- kennismerki hennar, flæða undan. Það er ekki að sjá á henni að hún hafi fagnað sjötugsafmæli sínu í vor. Hún hefur líka greinilega verslað á Íslandi því hún er með glænýjan hálsklút frá Farmer’s Market, keyptan í Kisunni, verslun sem hún þekkir líka frá heima- borginni New York. Síðar afhjúpar eiginmaður henn- ar sem er einnig staddur á tökustaðnum, heim- ildamyndaleikstjórinn Martin Bell, að uppáhaldsafþreyingariðja hennar sé að versla.„ Ég elska föt, það er veikleiki minn,“ staðfestir Mark. Þorvarður er hvítklæddur en ber ekki vængi þegar blaðamaður kemur fyrst á staðinn. Aðspurður hvort hann sé ekki engill gantast hann með að hann bíði bara við hliðið og stjórni umferðinni. Hann fær þó vængi á endanum og er kallaður til Mark ásamt Fúsa. Sigga, eins Sigríður Perlustjóri er jafnan kölluð, fylgist með öllu og kallar kankvíst til Þorvarðar: „Geturðu verið aðeins léttari? Það er eins og þér sé illt í maganum.“ „Það er eitt að hafa hugmynd í höfðinu og annað að koma henni til skila,“ segir Þorvarður almennt um leiklistina og notar ýmsar tilvísanir í kristin- og goðafræði í máli sínu. Hann tekur til við að útskýra nánar þá upplifun að sitja fyrir hjá heimsþekktum ljósmyndara. „Þetta var sérstök lífsreynsla. Það þarf að hugsa út í svipbrigði og líkamstjáninguna og vera í karakter,“ segir hann og nefnir sem dæmi að hon- um þyki Loki Laufeyjarson skemmtilegur karakter. Hefur fengið meira frelsi í gegnum leiklistina Alls eru ellefu leikarar virkir í starfi leikhópsins, sem æfir í Borgarleikhúsinu einu sinni í viku yfir vetrar- tímann. Þó eru ekki allir á staðnum þennan daginn enda hásumarleyfistími. Yfirleitt sitja fyrir tveir eða þrír í einu. „Þú ert englastrákurinn minn,“ segir Mark endurtekið við Birgi Jónsson, ungliða í hópn- um, að fyrirsætustörfunum loknum. Hann fer og hlýjar sér undir jakkanum hjá Siggu sem tekur geislabauginn af honum. Aðrir þurfa að nota hann nú. Spöngin meiðir aðeins og það er ekki sárs- aukalaust að láta taka geislabauginn af. Gleraugun koma á í staðinn en englasvipurinn hverfur ekki. „Hann fer alveg inn í hlutverkið,“ staðfestir Sigga. Sigrún Árnadóttir er vanur leikari og sker sig úr hópnum í þetta sinn en hún er klædd sem sól en ekki engill. Hún segir leiklistina hafa gert mikið fyrir sig og gert sér auðveldara að tjá sig. „Ég var feimin en hef opnast. Ég hef miklu meira frelsi,“ segir hún. Sjálf segir Sigga það vera „eigingirni“ að hafa starfað svona lengi með Perlunni, eitthvað sem hún segist að sjálfsögðu hafa gaman af enda styttist í 30 ára starfsafmælið. „Ég hugsa nú að ég hafi gefið þeim eitthvað en meira hafa þau gefið mér. Þau hafa hjálpað mér til þroska og maður lítur öðrum augum á lífið. Þau hafa kennt mér margt,“ segir hún. Þorvarður Karl Þorvarðarson og Sigfús Svanbergsson nota leikreynsluna sér til góða í fyrirsætustarfinu. Morgunblaðið/RAX Sólin og englarnir eru með bleikan varalit. Perlustjórinn Sigríður Eyþórsdóttir farðar Sigrúnu Árnadóttur.

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.