SunnudagsMogginn - 08.08.2010, Síða 17
8. ágúst 2010 17
M
ary Ellen Mark hyggst standa fyrir
námskeiði fyrir ljósmyndara hér á
landi næsta sumar. Námskeiðið verður
haldið í Myndlistaskólanum í Reykja-
vík í ágústbyrjun. „Bækistöðvarnar verða í Mynd-
listaskólanum en nemendurnir fara út að mynda á
hverjum degi,“ segir Mark en námskeiðið stendur
yfir í tólf daga. Hún útskýrir að þessi tími hafi verið
valinn því að mikið sé um að vera, bæði versl-
unarmannahelgin og Gay pride og því nóg mynd-
efni.
„Ég held að þetta verði frábært námskeið. Þarna
gefst gott tækifæri fyrir ljósmyndara hvaðanæva úr
heiminum til að koma til þessa ótrúlega fallega
lands,“ segir hún og bætir við að þó landslagið sé
fallegt sé svo miklu meira að mynda hér en það.
„Fólkið er líka magnað. Ísland er einstakt á marga
vegu og ég kann vel við menninguna hérna,“ segir
hún og er innt eftir nánari skýringum. „Mér finnst
Ísland hafa ákveðinn hreinleika yfir sér, sakleysi en
þó ekki einfeldni. Það er einhver tilfinning fyrir því
að ákveðin gömul gildi séu í hávegum höfð,“ segir
hún og bætir við: „Kannski fyrir utan bankamenn-
ina!“
Hún segir að nemendurnir eigi eftir að fá tækifæri
til að sjá Ísland á mjög mannlegan hátt. „Flestir sem
sækja námskeiðin mín hafa áhuga á að mynda
fólk,“ segir hún og ítrekar að þó hún taki á filmu
megi nemendurnir að sjálfsögðu taka stafrænar
myndir. „Ég skipti mér ekki af því.“
Mark er einn allra þekktasti og virtasti heimilda-
myndaljósmyndari samtímans og hefur hreppt allar
helstu viðurkenningar sem ljósmyndara á þessu
sviði getur hlotnast. Hún var um aldamótin valin
mikilvægasti kvenljósmyndari samtímans af les-
endum American Photo, stærsta bandaríska ljós-
myndatímaritsins. Hún hefur sent frá sér hátt í 20
bækur með eigin myndum og myndröðum og verk
hennar hafa verið sýnd í sýningarsölum um allan
heim. Hún hefur starfað mikið fyrir mörg heims-
kunn tímarit á borð við Life, Rolling Stone, The
New Yorker og Vanity Fair á merkilegum ferli sem
spannar rúmlega 40 ár.
Námskeiðið er mikill fengur fyrir listalíf landsins
en þetta er í fyrsta skipti sem Mark heldur nám-
skeið af þessu tagi hérlendis en ljósmyndarinn Einar
Falur Ingólfsson mun kenna með Mark. Námskeiðið
verður ekki aðeins fyrir ljósmyndara því eig-
inmaður Mark, heimildamyndaleikstjórinn Martin
Bell, kennir þar einnig. Bell hefur verið tilnefndur
til Óskarsverðlauna en hann gerði jafnframt mynd-
ina Alexander, um líf Alexanders Pálssonar, nem-
anda í Öskjuhlíðarskóla.
Alls komast 20 manns að og þar af munu fjórir
vinna að kvikmyndum með Bell. Einar Falur býst
við mikilli ásókn í námskeiðið og því hafa 4-5 pláss
verið sérstaklega tekin frá fyrir Íslendinga. Vafalaust
verður mikil ásókn í þau en hópur Íslendinga hefur
lagt löng ferðalög á sig til að sækja námskeið Mark á
síðustu árum. Hún á stóran aðdáendahóp hérlendis
bæði meðal fagfólks og almennings, sem end-
urspeglast m.a. í hlutfallslega mörgum heimsóknum
frá Íslandi á heimasíðu hennar.
Einar Falur segir hana hafa kennt víða en síðustu
árin hafi hún einbeitt sér að námskeiðshaldi í Oax-
aca í Mexíkó tvisvar á ári. „Námskeiðin hennar hafa
notið mikilla vinsælda. Þau sækja jafnt áhuga-
ljósmyndarar sem atvinnumenn, sem eiga það sam-
eiginlegt að hafa áhuga á því að skrásetja mannlífið í
myndum,“ segir hann og ítrekar að Mark sé einn
fremsti félagslegi heimildaljósmyndari samtímans.
Einar Falur segir hana vera færan kennara. „Hún
er góð í að beina fólki á rétta braut og finna hvar
styrkleikar og veikleikar þess liggja.“ Sjálfur sótti
hann áhrifaríkt námskeið hjá henni árið 1988. „Hún
hefur verið mikilvægur mentor í mínu lífi sem ljós-
myndari. Ég fór síðar í framhaldsnám til Bandaríkj-
anna fyrir hennar tilstilli og hef unnið mikið með
henni síðan.“
Einar Falur segir að Mark hafi gert það að köllun
sinni að sýna heiminum hvernig hlutirnir eru í
raun. „Það er oft sagt um hana að hún sé mann-
eskjan sem lítur aldrei undan og að hún fegri ekki
hlutina. Hún sýnir oft hliðar mannlífsins sem fólk í
sumum tilvikum vill ekki vita af en eru engu að síð-
ur staðreynd. Hún varpar ljósi á raunveruleg kjör
fólks, sem lifir á jaðri samfélagsins, hvort sem það
er í fátækrahverfum eða fólk sem glímir við ein-
hvers konar fötlun.“
Þetta er þó ekki eina hlið hennar. „Á sama tíma
er hún virt og vinsæl sem portrettljósmyndari fræga
fólksins. Hún er jafnvíg í báðum heimum,“ segir
hann en nýjasta bókin hennar heitir Behind the
Scenes og sýnir myndir, sem Mark hefur tekið á
tökustöðum kvikmynda á síðustu fjórum áratugum.
„Það er enginn munur á persónunni Mary Ellen
Mark og ljósmyndararnum Mary Ellen Mark því
fyrir hana er ljósmyndun lífið. Það er ekki til neitt
hjá henni sem heitir frí. Þetta er hennar líf og hún
er frábær ljósmyndari og kennari af köllun.“
Kennari af köllun
og ljósmyndari sem
lítur aldrei undan
Ljósmynd/Mary Ellen Mark
Úr myndröðinni Undrabörnum sem sýnd var í Þjóðminjasafni Íslands. Hér eru vinirnir Páll og Bragi á ljósmynd sem
Mary Ellen Mark tók á Lyngási við Safamýrarskóla árið 2006.
Ljósmyndarinn sá leikhópinn á Youtube
Að tökum loknum gefst tækifæri til að ræða við ljós-
myndarann sjálfan nánar um hvernig þetta hafi
komið til. „Ég sá Sigur Rósar-myndbandið á Youtube
og heillaðist alveg. Mér fannst þau svo falleg og
sjarmerandi,“ segir Mark og hafði í kjölfarið samband
við Siggu sem tók vel í samstarfið. „Mér fannst leið-
inlegt að hafa ekki myndað leikhópinn í síðasta
verkefni mínu hér,“ segir hún um sýninguna Undra-
börn, sem var sett upp í Þjóðminjasafni Íslands vet-
urinn 2007-8. Mark fylgdist með lífi fatlaðra barna á
Íslandi og ljósmyndaði í Öskjuhlíðarskóla, Safamýr-
arskóla og Lyngási. Sýningin Undrabörn hefur
ferðast um heiminn og var nýlega sett upp hjá Duke-
háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Mark
hefur hug á því að bæta myndum úr þessari töku við
sýninguna í framtíðinni.
Mark var ánægð með allar fyrirsæturnar og
myndatökuna en hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma
til að fylgjast með Perlunni. „Ég fékk tækifæri til að
taka portrett en ég hefði viljað vinna með þeim í
nokkra daga, fylgjast með þeim dansa en það var því
miður ekki hægt. Það var ekki tími til þess.“
Mark tekur allar sínar myndir á filmu. „Ég vil ekki
taka á stafræna vél og ætla aldrei að gera það. Filma
er annar miðill og það á að líta þannig á filmu-
ljósmyndun. Ljósmyndaiðnaðurinn er breyttur og
ekki lengur eins mikil áhersla á heimildaljósmyndun.
Svo er allt fótósjoppað í dag. Það er ekki ekta. Mikið
snýst um auglýsingar,“ segir hún og bætir við að
markaðsfólk ráði almennt mikið til förinni.
Ævintýraför Perlunnar á listahátíð í Bandaríkjunum
Perlan er nýkomin úr leikferð til Bandaríkjanna þar
sem hún var valin til að sýna á listahátíð á vegum
VSA, alþjóðlegra samtaka um listir og fötlun, áður
þekkt undir nafninu Very Special Arts. Þetta var í
þriðja sinn sem hópurinn tók þátt í listahátíð á veg-
um VSA. Sýningarstaðurinn var sjálft Smithsonian-
safnið í höfuðborginni Washington en Sigga segir
safnið hafa verið töfrandi stað. „Það er mikill heiður
og viðurkenning að hafa verið valin til þátttöku,“
segir hún en Perlan sýndi ævintýraleikinn Ljón og
mýs í leikgerð og leikstjórn Siggu. Tónlistina samdi
„hirðtónskáldið okkar“ eins og Sigga kemst að orði,
Máni Svavarsson. „Við fáum alltaf atvinnumenn með
okkur.“
Fúsi var með í för og var ánægður með förina fyrir
utan smávegis uppákomu. „Ég var tvisvar stoppaður
í tollinum,“ segir hann með leikrænum tilburðum og
ítrekar: „Tvisvar!“ Sigga er líka alveg steinhissa á því
að tollurinn skuli hafa haft slíkan augastað á Fúsa.
„Hann sem er algjör engill!“
Við myndatökuna kemur leikreynslan sér vel því
það er þolinmæðisvinna að sitja fyrir .„Guð gaf okk-
ur þolinmæði,“ heyrist Sigga segja við hópinn sem
bíður hjá ljósmyndarabílnum og útskýrir nánar í
samtali: „Ég hef stundum sagt að Guð hafi gefið mér
þolinmæði en þau hafa kennt mér hana. Þau eru af-
skaplega þolinmóð og það er ekki hægt að vinna
saman leikhúsvinnu nema búa yfir þolinmæði. Það er
gott að vera þolinmóður. Allt þarf sinn tíma.“
’
Ég hef stundum sagt að Guð hafi
gefið mér þolinmæði en þau
hafa kennt mér hana. Þau eru
afskaplega þolinmóð og það er ekki
hægt að vinna saman leikhúsvinnu
nema búa yfir þolinmæði. Það er gott
að vera þolinmóður. Allt þarf sinn
tíma.