SunnudagsMogginn - 26.09.2010, Side 25
26. september 2010 25
setja fram sjónarmið sín hafa aukist gífurlega. Um
leið gerist það að í skjóli nafnleysis er mönnum
leyft að ausa geðvonsku sinni yfir almenning og
níða manorðið af fólki. Þetta held ég að sé fyrst og
fremst vegna þess að fólk er óvant því að móta
skoðanir sínar og setja þær fram, óvant því að taka
þátt í rökræðu. Ég reiknaði út fyrir konu á fésbók-
inni um daginn að dómur Hæstaréttar væri henni í
hag. Hún sagði að þetta væri ekki rétt og að dæmi
um það að þetta væri röng skoðun hjá mér væri
hvað ég væri ógeðslega feitur og æti mikið. Þetta
voru hennar rök.
Smám saman munu menn átta sig á því að svona
framkoma gengur ekki, þeir dæma sjálfa sig með
henni. En af þessu má samt hafa nokkuð gaman,
fésbók er oft skemmtileg og í gegnum hana hef ég
rifjað upp vinskap sem hefur stundum legið niðri í
áratugi.“
Hvernig líður þér í þessu ástandi?
„Ég hef það bara þokkalegt. Við sem eigum ekk-
ert of mikið þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur.
Við eigum ekki mikla möguleika á að tapa neinu að
ráði. Ég held bara áfram að lifa mínu venjulega lífi.
Ég er búinn að stunda kennslu í fjörutíu ár og nem-
endur hafa yfirleitt verið mér heldur góðir og vel-
viljaðir. Þeir eru meira að segja með allra besta móti
núna. Ég held að æskan batni að mörgu leyti. Fólk
sem er erlendis í námi hefur oft samband og ég veit
að það hefur fengið gott veganesti hjá mér, það
gleður mig.“
Ótti við mælikvarða
Hvernig finnst þér íslenska menntakerfið?
„Framhaldsskólum og háskólum hefur fjölgað
mikið og manni býður í grun að þar séu ekki alltaf
jafnmikil gæði á ferðinni. Ég hef stundum látið
nemendur sem eru á undirbúningsnámskeiðum
segja mér frá hvaða skólum þeir koma. Ég ber síðan
saman hvernig þeim gengur hjá mér og hvaða ein-
kunn þeir höfðu á stúdentsprófi. Þá kemur í ljós
mikill munur á frammistöðu nemenda. Það sem er
merkilegast er að í sumum skólum virðast ein-
kunnir ekki vera í neinu samræmi við getuna. Þetta
verður að laga.
Nemendur verða að fá góða menntun, þar verður
að hafa gæðamat og það er ekki hægt öðruvísi en að
nota eftirlitspróf. Menn eru stöðugt að tala um gæði
menntunar en þora ekki að setja upp mælikvarða.
Nemendur hafa ekki enn áttað sig á því að eina
leiðin til að þeir öðlist góða menntun er að mælt
verði hvað þeir geta og að það sé innistæða á bak
við prófin sem þeir taka. Verst er þetta fyrir hina
efnaminni sem ekki geta keypt sér aukakennslu eða
aðgang að góðum skólum. Góðir opinberir skólar
eru lykilatriði fyrir samfélagið, þeir eru mikilvæg-
astir fyrir þá sem ekki eiga annarra kosta völ.“
Hvernig var þín menntun?
„Mín menntun var þannig að Jónas frá Hriflu
sendi mig norður á Akureyri í menntaskólann þar.
Forsagan er sú að móðir mín var vinkona dætra
Jónasar og þegar ég var fimm ára fékk móðir mín
lánaðan Systrastapa, sumarbústað sem dætur Jón-
asar áttu fyrir ofan sumarbústað Jónasar í Hvera-
gerði. Sumarbústaður Jónasar hét að sjálfsögðu Fíf-
ilbrekka. Á hverjum morgni fór ég yfir til Jónasar
og Guðrúnar, konu hans, og var hjá þeim alla daga.
Eftir þetta fylgdist Jónas með mér án þess að ég
vissi af. Þegar ég hafði aldur til fór ég í Mennta-
skólann í Reykjavík en hætti námi um jól. Kristinn
Ármannsson rektor sagði við mig: „Þér eigið að
halda áfram námi.“ „Ég er með núll í mörgum
greinum,“ sagði ég. „Já,“ sagði hann, „en þú ert
með tíu í tveimur.“ Það voru stærðfræði og efna-
fræði. Ég sagði að ég héldi að þetta væri fullreynt í
bili.
Upp úr áramótum hringdi Jónas í móður mína og
sagðist hafa frétt að mér hefði gengið illa í Mennta-
skólanum í Reykjavík og spurði hvort hann ætti
ekki að reyna að koma mér inn í Menntaskólann á
Akureyri. Ég samþykkti það og fór norður. Þór-
arinn Björnsson skólameistari sagði mér seinna að
þetta hefði verið eina bónin sem Jónas frá Hriflu
hefði beðið skólann um og henni varð ekki neitað
því Jónas hafði á sínum tíma gert gagnfræðaskól-
ann að menntaskóla.
Að mínu mati var það mikið happaskref að kom-
ast í Menntaskólann á Akureyri. Margrét Björns-
dóttir, vinkona mín og bekkjarsystir, orðar þetta
þannig að ef við hefðum farið í Menntaskólann í
Reykjavík þá hefðum við örugglega endað sem
ljóðskáld. Hún varð félagsfræðingur og ég fór að
læra stærðfræði úti í Rússlandi.“
Ekkert kerfi leysir vandann
Hvernig bar það til að þú fórst til Rússlands?
„Á menntaskólaárunum var ég í leshring þar sem
kommúnísk fræði voru lesin. Ég spurði Einar Ol-
geirsson eitt sinn hvort mögulegt væri að komast í
nám til Rússlands. Hann sagði að það væri erfitt. Ég
fór í sumarvinnu við Búrfellsvirkjun og var þar í
skála með Gunnari Eyþórssyni blaðamanni, þeim
mikla hægrimanni. Eitt sinn þegar við vorum ný-
búnir á vakt og farnir í koju kom stúlka og sagði að
rússneska sendiráðið vildi hafa samband við mig.
Þá kom svipur á Gunnar. Þegar ég kom aftur í skál-
ann var Gunnar eitt spurningarmerki. Ég sagði að
flokkurinn kallaði á mig og ég yrði að mæta til Len-
íngrad eftir þrjá daga til að fara í stærðfræðinám.
Honum var brugðið og hann varaði mig sérstaklega
við. Mikill heiðursmaður, Gunnar.
Ég var kommúnisti á þessum árum. En maður
sem fer austur í Sovétið og kynnist því verður ekki
lengi kommúnisti.“
Var þetta skelfilegt?
„Ég segi það ekki. Ég var þarna á tiltölulega góð-
um tíma, 1968. Það var ekki mikið vöruval í búðum
en fólk fékk það nauðsynlegasta. Líf þess var fá-
breytt en öruggt. Merkilegast var að kynnast fólk-
inu, menningu þess og ortódox trúnni. Þetta hefur
setið eftir í huga mínum: menning þessa fólks og
skilningur á því hvað það hefur þurft að ganga í
gegnum.
Þegar ég kom austur gat ég borið saman líf ís-
lenskra verkamanna og rússneskra. Faðir minn var
verkamaður í Mjólkursamsölunni og móðir mín
skúraði þar. Ég sá að í draumalandinu, sæluríki
sósíalismans, voru kjör venjulegs verkafólks enn
verri en hjá foreldrum mínum á Íslandi og frelsi
kommúnismans var miklu minna en í kapítalism-
anum.
Bæði kapítalisminn og sósíalisminn eru hug-
mynd um að hægt sé að leysa vandamál endanlega.
En það er ekkert kerfi sem leysir vandann. Hinn
sjálfvirki kapítalismi hrundi 2008 og skilur eftir sig
milljónir manna í sárum. Þótt hrunið sé kannski
ekki eins hræðilegt og hrun kommúnismans var
fyrir austan þá varð engu að síður hrun. Þetta þýðir
að þessar tvær stjórnmálahugmyndir um það
hvernig eigi að stjórna heiminum hafa beðið skip-
brot. Stjórnmálin hljóta að breytast og afstaðan til
ríkisvaldsins og lausna í atvinnulífinu hlýtur líka að
breytast.“
Beittur kynbundnu ofbeldi
Það heyrast raddir um að atvinnuuppbyggingin
hér á landi sé ekki nægilega öflug og stjórnvöld
standi þar jafnvel í veginum. Hvað segirðu um
það?
„Þarna er víða margt einkennileg. Tökum bara
eitt dæmi, viðhorfin til umhverfismála og nýtingar
á auðlindunum. Ég hef verið mjög ósammála
mörgu því sem Tryggvi Þór Herbertsson hefur sagt
um þjóðfélagsmál. En nú bregður svo við að hann
rís upp með þennan líka fína málstað og leggur
fram klassísk rök hagfræðinnar gegn umhverfis-
blaðrinu. Ég er ákaflega ánægður með það. Það hef-
ur enginn þorað áður. Ég hef oft verið að hugsa um
að gera þetta sama en hef ekki lagt í það, því maður
getur ekki tekið á sig alltof mikið af þvargi. Ég hef
hugsað með mér: Ég nenni ekki að standa í þessu.
Tryggvi Þór er að gera akkúrat það sem gera þarf.
Hann leggur fram heilbrigð rök gegn þessu inn-
antóma skvaldri. Nú held ég að Andri Snær sé
ágætur maður, sonur Magna, skólabróður míns, en
hann hefur gott af því að fá snuprur frá þjálfuðum
og vel menntuðum hagfræðingi. Og stjórnvöld hafa
gott af því að hlusta. Tryggvi Þór er hugrakkur, það
þarf hugrakka menn, þeir eru mjög mikilvægir.“
Hvar staðsetur þú þig í hinu pólitíska litrófi?
„Hvergi, ég er ekki meðlimur í neinum flokki og
hef ekki kosið í alþingiskosningum síðan 2003. Ég
var beittur kynbundnu ofbeldi og þvingaður til að
kjósa í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Konan
mín var í fjórða sæti hjá einhverjum flokki, sem ég
man ekki hvað heitir, líklega Sjálfstæðisfylkingin.
Hvað gerir maður ekki fyrir heimilisfriðinn. Ég hef
oft hugsað um að bjóða fram flokk sem ég gæti kos-
ið, fá einhverja vini mína með, fá svona 20-30 at-
kvæði. Það gæti verið gaman. Stjórnmálamennirnir
yrðu örugglega lafhræddir.
Við eigum eftir að fara í mikið uppgjör, komm-
únismi og kapítalismi eru liðin tíð. Ég vil hvorki
ríkisofbeldi né markaðsbresti. Núverandi ríkis-
stjórn er til dæmis að keyra samfélagið niður í skít-
inn með gegndarlausri skattheimtu. Það verður að
aflétta skattabölinu sem fyrst, annars fara menn
héðan líka, eins og frá Noregi á sínum tíma.“
Guð er brú milli manna
Hvernig finnst þér að eldast?
„Ég er nokkuð ánægður með það. Það var
drykkjuskapur og óstand á mér hér áður fyrr og þá
var líf mitt erfitt. En ég hef verið laus við brennivín
í 34 ár og líf mitt hefur orðið örlítið ánægjulegra
með hverju ári. Reyndar gera líkamlegir kvillar
vart við sig, slitgigt og sykursýki tvö. Séra Baldur í
Vatnsfirði segist hafa 27 sjúkdóma og kunna vel við
þá alla. Ég get ekki tekið fullkomlega undir þau orð,
en drottinn leggur líkn með þraut.
Með aldrinum fær maður aðra sýn á lífið. Það
sem voru brýn áhugamál í gamla daga skiptir ekki
svo miklu máli lengur. Svo reikna ég með að heldur
hafi dregið úr hinum holdlega losta. Þó er ég ekki
alveg viss. Áhugi minn á eignum og peningum hef-
ur vissulega minnkað en áhugi minn á fólki hefur
vaxið, sérstaklega áhugi á börnum. Þau eru dýrð-
arinnar sköpun. Ég vitna oft til orða nóbelsverð-
launahafa í hagfræði, Roberts Solovs. Hann sagði að
eina ástæðan fyrir því að eignast börn væri að það
yki líkurnar á því að eignast barnabörn.
Í lífinu er mikilvægt að feta þá slóð sem aðrir hafa
farið, slóð hefðarinnar, einhvers konar trúarlega
leið. Ég held að það hjálpi manninum mikið. Ég tek
eftir því að menn eru að skrifa bækur um það hvort
Guð sé til eða ekki. Mér finnst það fyndið. Ég hef
engar áhyggjur af því hvort Guð sé til eða ekki. Ég
lít ekki síst á Guð sem brú milli manna, leið út úr
einsemdinni. Trúarbrögð sem kerfi með hræðileg-
um Guði læt ég mig litlu varða. Trúin er allt annað.
Trúarbrögðin eru fyrir þá sem eru hræddir við að
fara til helvítis. Trúin er fyrir okkur sem höfum
verið í helvíti.“
Morgunblaðið/Kristinn
Guðmundur Ólafsson: „Í lífinu er mikilvægt að
feta þá slóð sem aðrir hafa farið, slóð hefð-
arinnar, einhvers konar trúarlega leið.“