SunnudagsMogginn - 28.11.2010, Side 30

SunnudagsMogginn - 28.11.2010, Side 30
30 28. nóvember 2010 Þ að er fimbulkuldi og rok í Reykjavík þegar ég smeygi mér inn í Listaháskóla Íslands við Sölvhólsgötu og inn á skrifstofu Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar. Ég á stefnumót við forsprakka hljómsveit- arinnar Melchior og á meðan gestgjafinn hleypur til að sækja kaffi fyrir hópinn gera Hilmar Oddsson og Karl Roth úttekt á stólamálunum í þröngu herberginu. Þeir komast loks að þeirri niðurstöðu að skrif- borðsstóllinn sé mýkstur og vilja ólmir setja hann undir blaðamann. „Þú verður að fá besta stólinn,“ segja þeir glottandi. „Þá skrifarðu fallega um okkur!“ Melchior var stofnuð 1973, sumarið eftir landspróf, en þeir frændur, Hilmar og Karl, höfðu þá spilað saman í nokkur ár. „Við byrjuðum markvisst að semja saman í grunnskóla eftir að það kviknaði í heima hjá mér og ég þurfti að búa heima hjá Karli í mánuð,“ segir Hilmar. „Fyrsti textinn okkar var Addis Abeba og ég samdi lag við hann, þriggja hljóma byrjendaverk sem er ógleymanlegt þeim sem til heyrðu. Það fengum við staðfest á skólaendurfundum á dögunum.“ Hróðmar kom til liðs við Melchior ári síðar, 1974, eftir að einn stofnendanna, Björgúlfur Egilsson oft kenndur við Kam- arorghesta, fór til Kaupmannahafnar. „Ég ólst upp í Hveragerði, þar sem ég byrjaði minn feril í hljómsveitinni Síberíu, en fluttist svo til Reykjavíkur þegar ég var þrettán ára,“ segir hann. „Ég spilaði að- eins með hinum og þessum skólahljóm- sveitum í Hagaskóla en kynntist Hilmari og Kalla í partíum og við náðum strax mjög vel saman í gegn um tónlistina.“ Hilmar tekur undir þetta. „Ég man alltaf eftir því þegar Hróðmar og spilafélagi hans komu og sungu raddað í stereó í eyrun á mér. Mér fannst það rosalega flott.“ Auk ofangreindra voru lengst af í hljómsveitinni þau Arnþór Jónsson selló- og hljómborðsleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari, Kristín Jóhannsdóttir söng- kona og Ólafur Flosason óbóleikari og er greinilegt að unga fólkið hefur verið sér- lega iðið við tónlistina. „Maður hafði ekki mikið annað við að vera, það voru engir tölvuleikir eða neitt slíkt,“ útskýrir Karl og Hilmar kinkar kolli. „Þegar við vorum ungir var bara tvennt sem ungir menn höfðu áhuga á – fótbolti og popptónlist.“ „Við héldum því lengi fram að við værum besta fótboltahljómsveit á landinu,“ held- ur Karl áfram. „Ég veit ekki hvort það gildir ennþá. En við erum fyrir ofan miðju!“ Mest gefna plata á Íslandi Tónlist var þó aðalviðfangsefni Melchior og eftir velheppnaða tónleika í Tónabæ í ágúst 1974 var ráðist í upptökur á tveggja laga hljómplötu, á þeim tíma sem útgáfa hljómplötu töluvert var dýrari og tíma- frekari en í dag. „Þetta var allt of seint því platan kom ekki út fyrr en á Þorláks- messu, kl. hálfellefu um kvöldið. Við komum henni í eina eða tvær búðir áður en þeim var lokað,“ rifjar Karl upp og Hilmar tekur við. „Hljómsveitin átti svo lítinn pening að við settum bara eina aug- lýsingu í útvarpið. Hún var svona: „Melchior, Melchior, Melchior, Melchior er komin.“ Þetta var mælt í orðum svo hún gat ekki verið lengri.“ Sennilega hafa þeir félagar ekki hugsað út í þessa hlið mála þegar þeir ákváðu titil plötunnar. Karl dregur djúpt andann áður en hann ryður honum upp úr sér: „Björgúlfur Ben- óný Grímúlfur Melkjör Emanúel Egilsson Leir Fæt Bíleigandi Bergrisi Hermaníus Þengill Trefill,“ en í ljós kemur að þetta undarlega langa nafn var vísun í „stofn- andann sem stakk af“, Björgúlf Egilsson sem hafði tekið sér öll þessi nöfn á mis- munandi tímapunktum. „Kannski vildum við heiðra hann með þessu. En aðallega fannst okkur þetta fyndið.“ Svarið er einfalt þegar þeir eru inntir eftir því hvort platan hafi náð eyrum fólks. „Nei,“ svarar Hróðmar snagg- aralega. „Hún náði engum eyrum,“ og framkallar hlátur félaga sinna. „Við höfum stundum talað um að þetta sé mest gefna plata á Íslandi,“ segir Hilmar. „Það seldust örfá eintök sem vinir og vandamenn keyptu aðallega en þar fyrir utan var hún notuð í vinninga í bingó í menntaskóla og svona. Þetta er samt mjög fín og vel unnin plata. Í þá daga var bara eitt stúdíó á Ís- landi, HB stúdíó, og þótt gæði þess hafi kannski ekki verið mikil fórum við þó þangað. Við lögðum líka mikið í þetta, hönnun og annað, og uppskárum einhver viðtöl í blöðum og athygli.“ Platan kom út með fulltingi Dieters Roths, pabba Karls sem var „aðalvelgjörðarmaður hljóm- sveitarinnar og borgaði allt sem þurfti að borga“. Melchior lét ekki deigan síga þótt frum- raunin á útgáfusviðinu hafi notið tak- markaðrar hylli. Þeir héldu áfram að spila í MR, þar sem þeir voru allir nemendur eða sem „gestur við og við“ eins og Hróð- mar orðar það. Í MR voru tvö skólabönd á þessum tíma, Melchior og Andrew „sem var svona alvöru hljómsveit“ og að- spurður útskýrir Karl þá hógværu at- hugasemd. „Þeir voru með rafmagns- hljóðfæri og gátu dúndrað upp stuði og allir voru ofsalega hrifnir. Við höfðum aldrei efni á svoleiðis og urðum því alltaf bara að sitja og vanda okkur.“ Hilmar tek- ur undir þetta. „Við vorum hins vegar svo heppnir að þannig var tíðarandinn, þótt við hefðum örugglega viljað framleiða meiri hávaða. En af því að við áttum ekki rafmagnshljóðfæri urðum við að semja alla okkar tónlist sjálfir – það passaði ekki að spila slagara frá útlöndum.“ Kannski var það þess vegna sem Melchior var stundum líkt við Spilverkið, sem vissulega var ákveðin fyrirmynd ásamt t.d. Þokkabót, segja þeir. „Við notuðum líka klassísk hljóðfæri eins og selló, óbó, fiðlu, víólu og fleiri,“ en allir hljómsveitarmeðlimir höfðu einhverja klassíska tónlistar- menntun. Svitnar yfir ádeilutextunum Nokkur ár liðu áður en fyrsta breiðskífa Melchiors leit dagsins ljós. „Þegar við Kalli urðum stúdentar 1977 vorum við löngu búnir að ákveða að taka heilt ár í að vinna í músíkinni og gefa út alvöru plötu,“ segir Hilmar. Við þetta stóðu þeir og Silfur- grænt ilmvatn kom út sumarið 1978. Plat- an fékk prýðilega dóma og margir muna eftir laginu Alan, sem sló í gegn og fékk tíða spilun í útvarpinu. Iðunn gaf plötuna út og Melchior tróð víða upp í kjölfarið. Á þessum tíma var í tísku að vera „létt pólitískur“ í boðskapnum, eins og þeir orða það. „Maður svitnar þegar maður heyrir þessa ádeilutexta núna og enn verra er að syngja þá,“ segir Karl. „Það var ákveðinn stíll að vera heitur á þessum tíma eins og títt er hjá fólki um tvítugt. Hugsjónirnar ristu því ekkert endilega djúpt þótt maður tæki djúpt í árinni. Við höfðum hins vegar mikinn metnað í textagerðinni, ekki bara hvað varðaði boðskapinn heldur vildum við líka texta sem voru fallegir eða vel ortir.“ Hilmar er fljótur að nefna að þarna sé Karl fyrst og fremst að tala um sína eigin texta. „Mér finnst mínir textar ekkert mjög góðir – kannski einlægir, en ekki endilega góðir,“ segir hann hlæjandi. „En við vorum með ákveðna þjóðfélagsrýni, eins og í Narfa, sem er klassískur texti eftir Karl. Hann fjallar um þessa íslensku áráttu að þurfa að strita af sér heilsu, fjölskyldu og sambönd til að ná einhverjum efnis- legum standard, í stað þess að lifa lífinu, og vera svo dauður úr öllum æðum á kvöldin og geta ekki notið eins né neins! Ég tengi hann alltaf við lag hjá Spilverk- inu, sem reyndar kom síðar, og heitir Húsin mjakast upp. Þar er svipuð hugsun um þessa efnishyggju, sem virðist eiga alltaf við.“ Hróðmar bætir því við að bandið hafi endrum og eins fengið ut- anaðkomandi menn til að semja fyrir sig texta, s.s. Halldór Gunnarsson og Hall- grím Helga Helgason, sem enn gaukar að þeim textum þegar svo ber undir. Á raddæfingu á dög- unum, f.v. Karl, Hilmar, Kristín og Hróðmar. Á myndina vantar Stein- grím Guðmundsson slagverksleikara og Gunnar Hrafnsson bassaleikara. Áfram þar sem frá var horfið Eitt best geymda leyndarmál íslenskrar popp- tónlistarsögu er hljómsveitin Melchior, sem var stofnuð árið 1973 af nokkrum skólapiltum sum- arið eftir landspróf. Eftir þrjár plötur og a.m.k. einn smell fór bandið í frí – langt frí – en vaknaði til lífsins fyrir þremur árum og hefur sjaldan verið jafnsprækt og núna. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.