SunnudagsMogginn - 28.11.2010, Blaðsíða 51
28. nóvember 2010 51
hlýrra og hún var nær fólkinu sínu, sem sýnir góðan
hug. En þegar einhver situr í svona kistu í litlum bæ og
hljóðar nótt og dag, hrópar, kallar, leiðist, vill komast
út, langar þetta, langar hitt, syngur, þá er hægt að verða
veikur af tilhugsuninni um að heyra síbyljuna. Þess
vegna voru margir hafðir í útihúsum, fjósum, hlöðum,
skemmum, jafnvel bundnir á bás með dýrunum, þannig
að þeir kæmust ekki burtu.
Ég sá óskaplega fína mynd í bók Óttars Guðmunds-
sonar, frá því Kleppur var 100 ára, af dárakistu sem var
fín og dönsk. Hún var svo fín að hún minnti næstum því
á snotra líkkistu, en það kom ekki heim og saman við
lýsinguna sem ég fékk á dárakistum. Þeim var slegið upp
í snatri, þegar þurfti að koma einhverjum í öruggt skjól,
þar sem hann varð hvorki sjálfum sér né öðrum að fjör-
tjóni. Það var ekki gert fyrr en í harðbakkann sló. Og svo
þegar betur gekk fengu menn að koma út, ef bráði af
þeim, en ef þeir sýndu merki um að eitthvað væri að
byrja aftur, þá voru þeir settir inn og fengu að dúsa þar.
Ég talaði við fólk sem hefur verið með geðhvarfasýki og
sagði mér af líðan sinni. Ég get nærri að líðanin hefur
ekki verið góð þegar fólk fór í króna.“
– Hún er áhrifamikil lýsingin á því þegar Ljósa reynir
að passa sig, svo hún verði ekki lokuð inni.
„Svo henni verði ekki stungið inn. Ég hef oft heyrt um
hvernig sveiflurnar eru. Ljósa liggur með breitt upp yfir
höfuð dögum saman og grætur yfir því hvað hún er vond
móðir og húsmóðir og misheppnuð á alla lund, en svo
bráir af henni, henni líður betur og betur, hún kemst
upp úr depurðinni, kemst á fætur, svo grípur hana
gleðin – og þannig gengur þetta í hring.
Þetta er samt mjög ólíkt frá einum til annars, en ég
reyndi að kortleggja það og kannski er eitthvert sam-
ræmi á milli manna. Þetta er ákveðin sveifla, þar sem þú
ferð hærra og hærra, ert svo ótrúlega klár og næmur, allt
leikur í höndunum á þér, lífið er bara sólskin og bros. Þú
hleypur út og faðmar heiminn, syngur og trallar, en
dettur svo niður aftur. Þetta er síendurtekin saga. Því
fylgir ofboðslega mikið líkamlegt álag að vera í maníu og
fólk verður svo þreytt að það liggur eftir. Ég skal alveg
viðurkenna, að það var ekki auðvelt að skrifa þetta, því
ég hef ekki lent í þessu, og þurfti því að láta segja mér
aftur og aftur, og upplifa sjálf á fólki sem ég þekki. Nú
höfum við reyndar lyf sem jafna sveiflurnar – þannig að
þær eru ekkert hjá því sem var. En ég fór eins langt og ég
gat.“
– Og það hefur ekki auðveldað málið að hafa frásögn-
ina í fyrstu persónu!
„Ég hef skrifað þessa bók ansi oft, gert margar atlög-
ur. Ég byrjaði á hefðbundinni skáldsögu í þriðju persónu
og það var ómögulegt. Ég prófaði fram og aftur, vildi
alltaf komast nær henni, þurfti að komast alveg að
henni, og það gerist ekki nema með því að skrifa í fyrstu
persónu. Þá valdi ég það. En mér lætur vel að skrifa í
myndum, eins og í Sólin sest að morgni, það voru stutt-
ar myndir, þannig að ég ákvað að gera eins. Svo þegar
hún er orðin mjög veik, þá getur hún ekki sagt lengur
frá, og þá varð að koma hjálp. Ég hugsaði mikið um það,
hver hjálparinn væri, hvernig ég ætti að kynna hann, og
ákvað að hafa hann í annarri persónu, sem er lítið notuð
aðferð og gamaldags. Mér fannst það passa inn í þessa
bók, var svolitla stund að venjast við það, en svo varð ég
leikin í því fyrir rest. Það varð að koma rödd að utan sem
sá hana, svo kemur litla barnabarnið síðast og segir frá,
líka í fyrstu persónu. Þannig að þetta er allt útpælt – það
er ekki eins og ég skrifi bara eitthvað!“
Fólk varð bara að hafa í sig og á
– Þú nefnir að engin frávik hafi verið leyfð. Má ekki
skrifa það á harða lífsbaráttu í þá daga, þar sem lítið
svigrúm var fyrir frávik af neinum toga?
„Jú, en ég vil undirstrika það, að þó að ég sé að skrifa
sögu konu, þá er ég ekkert að halda því fram að karl-
arnir hafi haft meira val eða haft það betra. Ég held að
Vigfús í sögunni eigi til dæmis mjög erfitt. Og hvern
langaði til að verða sjómaður, bóndi eða vinnumaður?
Það var ekkert spurt að því. Fólk varð bara að hafa í sig
og á. Það var einstaka gáfumenni eða fólk sem var betur
sett sem gekk menntaveginn, en það voru bara örfáir –
hinir voru ekkert spurðir. Þannig var lífsbaráttan.“
– Lífsskilyrðin höfðu nánast ekkert breyst á Íslandi
svo öldum skiptir!
„Þetta var óskaplega hart. Fólk var í torfbæjum, þarna
í Suðursveit höfðu menn fjósbaðstofur, það gerðu menn
upp á hlýindin, enda söknuðu þeir fjósbaðstofunnar
þegar höllin var byggð úr timbri – en hún var óskaplega
flott með gardínum!
Ef maður skoðar gamlar myndir, þá var verið að bera
inn vatnið og elda við mjög frumstæðar aðstæður, það
var þvegið úti í læk og það sem gerir það að verkum, að
það er svona gaman að þessum afturábakpælingum, er
að það er svo stutt síðan þetta var, en samt er það mörg
ljósár frá okkur. Ef þú leiðir hugann að því, þá deyr þessi
kona sem ég hef til hliðsjónar árið 1938. Þá er byrjað að
byggja steinhús, en margir eru ennþá í moldarkofunum.
Við látum nefnilega oft eins og lífsskilyrðin hafi alltaf
verið eins og núna, en okkur er hollt að líta til baka og
sjá hversu ótrúlega margt hefur breyst á skömmum tíma
hjá einni þjóð.“
Hún hallar sér fram.
„Kannski fórum við of hratt út úr moldarkofunum –
kannski er það hluti af okkar óhamingju að við koll-
sigldum okkur í ósköpunum?“
Morgunblaðið/Kristinn
Kristín byggði skáldsöguna Ljósu á minningum um alvar-
lega konu sem hékk í ramma á vegg inni í stofu.