SunnudagsMogginn - 30.01.2011, Síða 29

SunnudagsMogginn - 30.01.2011, Síða 29
30. janúar 2011 29 Kalt mat er að í raun sé ekki hægt að gera bíó- myndir á Íslandi. Við bara gerum það samt. Það kostar jafnmikið að gera mynd hér í 320.000 manna samfélagi og til dæmis í Danmörku þar sem búa fimm milljónir. Við höfum auðvitað neyðst til að gerast sérfræðingar í hagkvæmum lausnum. Hér er reynt að draga úr kostnaði með því að fólk leggur á sig mikla vinnu og er tilbúið að sætta sig við skert kjör. Þetta gengur af því að fólk hefur brennandi ástríðu fyrir því sem það er að gera. Það getur vissulega fleytt manni langt en fórnarkostnaðurinn getur stundum farið úr böndum, fjárhagslega, til- finningalega og félagslega. Þetta hljómar kannski dálítið dramatískt, auðvitað kemur ýmislegt á móti enda snýst þetta starf um drauma, vonir og þrár. Samt er mikið starf óunnið við að bæta aðstæður í þessum bransa. Við mættum líka vanda okkur að- eins meira svona almennt, sérstaklega í að ná valdi á kvikmyndafrásögninni.“ Íslensk kvikmyndagerð er þá fyrst og fremst hugsjónastarf? „Þetta er dýrt hobbí, eins og einn vinur minn lýsti því einu sinni. Ég er ekki viss um að hann hafi verið að spauga.“ Ábyggilega nörd Þú gerðir þína fyrstu mynd þrettán ára, varstu nörd? „Ábyggilega. Ég var alltaf staðráðinn í að verða kvikmyndagerðarmaður frá því ég man eftir mér. Pabbi minn, Sverrir Kr. Bjarnason tæknimaður, var sendur út á sínum tíma til Danmarks Radio til að læra að búa til sjónvarp ásamt hópi annarra Íslend- inga. Þeir komu síðan heim og settu Sjónvarpið á fót 1966. Ég fékk stundum að koma upp í sjónvarp sem strákur og heillaðist af þessu umhverfi. Alveg fram til 1980 eða svo var Sjónvarpshúsið á Lauga- vegi í raun miðstöð íslenskrar kvikmyndagerðar. Þar stigu margir sín fyrstu spor og hlutu dýrmæta reynslu. Þegar ég var að alast upp gerði ég engan sérstakan mun á bíói og sjónvarpi. Þetta var bara kvikmyndagerð fyrir mér. Ég byrjaði að gera kvikmyndir árið 1978, þrettán ára gamall, ásamt félögum mínum í Hafnarfirði. Þetta voru myndir um krakka á okkar reki og lýstu samskiptum kynjanna, leit að sjálfsmynd og stöðu í lífinu. Þetta voru ýmist raunsæislegar myndir eða kómedíur. Árið 1979 gerði ég ásamt nokkrum fé- lögum mínum í Flensborg mynd sem heitir Fyrsta ástin. Þetta var svona rómantísk kómedía um sam- skipti unglinga. Með mér voru meðal annarra Helgi Már Jónsson sem nú er látinn, Hallur Helgason síð- ar leikhúsfrömuður og kvikmyndagerðarmaður og Stefán Hjörleifsson gítarleikari. Davíð Þór Jónsson lék aðalhlutverkið í myndinni, Steinn Ármann var einnig þarna. Þessi mynd sló hressilega í gegn, við fengum fyrir kostnaði fyrsta sýningarkvöldið eftir að hafa sýnt hana í Flensborg. Svo sýndum við hana í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu og ná- grenni og þar gerði hún einnig mikla lukku. Það var ekki dónalegt að kynnast þeirri tilfinningu að gera mynd sem slær í gegn! Myndin var síðan notuð sem nokkurs konar prufumynd fyrir Punktur punktur komma strik sem Þorsteinn Jónsson tók upp sum- arið 1980, flestir leikarar úr Fyrstu ástinni eru þar í stórum hlutverkum. Ég var líka byrjaður að skrifa um kvikmyndir á þessum árum. Ég held að ég hafi verið um það bil tólf ára þegar tímaritið Æskan birti kvikmynda- gagnrýni eftir mig. Ég skrifaði líka í blöð sem ég gaf út sjálfur, þannig að ég hef alla tíð skrifað mikið um kvikmyndir. Hins vegar hef ekki mikið gagnrýnt íslenskar myndir, mér hefur ekki fundist það passa. Fólkið í kvikmyndabransanum eru vinir mínir og félagar og það er ekki við hæfi að ég sé að gagnrýna það opinberlega. En ég hef mikið fjallað um ís- lenska kvikmyndagerð á margs konar annan hátt í hvers kyns fjölmiðlum gegnum tíðina. Á unglingsárum mínum var íslensk kvikmynda- gerð að hrökkva í gang. Ég fylgdist auðvitað spenntur með því. Þarna var töluvert um að vera í Sjónvarpinu. Hrafn Gunnlaugsson var að gera sig breiðan og gerði sjónvarpsmyndirnar Silfurtunglið, Blóðrautt sólarlag og Vandarhögg. Dagblöðin voru full af lesendabréfum þar sem lýst var yfir vandlæt- ingu og reiði vegna þessara mynda. Blóðrautt sól- arlag var nýlega sýnd í Bíó Paradís og hefur elst stórkostlega vel, frábær mynd.“ Hvaða mynd þinni ertu stoltastur af? „Þú meinar fyrir utan Fyrstu ástina, sem er mynd sem mér þykir ennþá mjög vænt um, þótt það sé örugglega frekar skondið að horfa á hana í dag. Þetta er alltaf spurning um það hvernig manni tekst að skila á tjaldið þeirri hugmynd sem var inni í höfðinu á manni. Mér fannst ég komast nálægt því í lokamyndinni minni frá National Film School, Ferðinni að miðju jarðar, sem var tekin hér heima. Svo fannst mér heppnast ágætlega sjónvarpsmynd sem ég gerði fyrir RÚV með Friðriki Erlingssyni ár- ið 1998 og heitir Heimsókn, þar sem Hjalti Rögn- valdsson fór með aðalhlutverkið. Ég hef gert myndbönd, auglýsingar, kynning- armyndir, heimildarmyndir, sjónvarpsþætti, stuttmyndir og leiknar sjónvarpsmyndir. En ég hef ekki gert bíómynd. Hún hlýtur að koma fljótlega. Annars á maður að forðast að fjölyrða opinberlega um það sem maður ætlar að fara að gera. Það er betra að láta verkin tala.“ Morgunblaðið/Kristinn Ásgrímur Sverrisson: Á Íslandi er ennþá verið að deila um hvort kvikmynd sé listform.

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.