Fréttablaðið - 16.12.2011, Blaðsíða 60
16. desember 2011 FÖSTUDAGUR40
AUKAEFNI: LÆRIÐ HELLISBÚAMÁL
AUÐVELT! GAMAN! PIRRAR FULLORÐNA!
Tónlist ★★★★★
Jólatónleikar Ríkisútvarpsins
Kammerhópurinn Carmina undir
stjórn Árna Heimis Ingólfssonar
Kristskirkja
Það var gaman í Kristskirkju á
mánudagskvöldið. Þar voru jóla-
tónleikar Ríkisútvarpsins haldn-
ir. Á efnisskránni voru trúarleg
lög úr íslenskum sönghandritum
frá 15., 16. og 17. öld. Kammerhóp-
urinn Carmina, undir stjórn Árna
Heimis Ingólfssonar, söng en einn-
ig lék Karl Nyhlin á bassalútu. Ég
hef sjaldan heyrt jafn sjarmerandi
tónlistarflutning.
Söngurinn var tær og í full-
komnu jafnvægi. Túlkunin var
þrungin tilfinningu, kraftmikill
kórsöngurinn kom einstaklega vel
út í endurómun kirkjunnar. Hver
tónn var mótaður af fagmennsku
og smekkvísi.
Nokkrir kórmeðlimir sungu
einsöng, oftast við lútuleik. Það
var afar fallegt. Lútan skapaði
tímalausa stemningu og lög með
einum eða tveimur söngvurum
voru skemmtileg tilbreyting frá
kórsöngnum. Eitt magnaðasta lagið
var úr stærsta íslenska tónlistar-
handritinu frá 17. öld. Handritið
heitir Melódía, en lagið var „Eilíft
lof með elsku hátt“ og var sungið
af Kristínu Ernu Blöndal.
Í Melódíu eru mörg hundruð lög,
sum þeirra þjóðlög en önnur hafa
jafnframt fundist í handritum í
Evrópu. Lögin eru skemmtilega
ólík, allt frá gregoríönskum messu-
söng til lagsins Vera mátt góður,
sem margir kannast sjálfsagt við
frá því Þursaflokkurinn söng það
fyrir tæpum þrjátíu árum.
Á tónleikunum voru einnig
útsetningar núlifandi tónskálda
á fornum lögum. Þetta voru þau
Hildigunnur Rúnarsdóttir, Anna
Þorvaldsdóttir og Hugi Guðmunds-
son. Útsetningarnar voru allar
prýðilegar og engin þeirra virtist
langt frá upprunalegri mynd lag-
anna. Samt voru verkin skemmti-
lega ólík. Það var falleg einlægni í
útsetningum Hildigunnar, þjóðleg
heiðríkja í þeirri sem Hugi gerði
og hrífandi dulúð í verki Önnu, ef
svo má að orði komast.
Dagskránni lauk með hinu
sígilda jólalagi Sigvalda Kalda-
lóns, Nóttin var sú ágæt ein.
Flutningurinn var hástemmdur
og magnaður. Það var fullkominn
endir á frábærum tónleikum.
Jónas Sen
Niðurstaða: Glæsilegir tónleikar með
dásamlegri tónlist.
40
menning@frettabladid.is
Tímalaus stemning
Bækur ★★
Stórlaxar
Þór Jónsson og Gunnar Bender
Tindur
Ágætar veiðisögur
Bókin Stórlaxar eftir þá Þór Jónsson og Gunnar Bender er ein fjölmargra
bóka um veiði sem komið hefur í bókaverslanir fyrir þessi jól. Bókin er
viðtalsbók, þar sem rætt er við sjö veiðimenn. Hún er sjálfstætt framhald
bókar sem kom út árið 1986 og nefndist einnig Stórlaxar. Höfundar þeirrar
bókar voru Gunnar Bender og Eggert Skúlason.
Í nýju bókinni er rætt við Kristin Sigmundsson
óperusöngvara, Ragnheiði Thorsteinsson dag-
skrárgerðarmann, Njörð P. Njarðvík, prófessor og
rithöfund, Björn Kristin Rúnarsson leiðsögumann,
Ólaf Rögnvaldsson framkvæmdastjóra, Guðmund
Þ. Guðmundsson handboltaþjálfara og Árna
Baldursson, sem oftast er kenndur við Lax-á.
Viðtalsformið er skemmtilegt í veiðibókum. Hver
kafli er sjálfstæð frásögn, um fimmtán til tuttugu
síðna löng, og því þægilegt að hafa bókina á nátt-
borðinu og lesa einn kafla fyrir svefninn. Bókin
er ágætlega skrifuð þó að textinn hefði sums
staðar mátt flæða betur. Maður fær það stundum
á tilfinninguna að spurningar hafi verið sendar til
viðmælenda og þeim svarað skriflega. Þó veit ég
ekkert hvort það er reyndin. Þetta á þó ekki við um alla kafla bókarinnar.
Frásagnir þeirra Kristins, Njarðar og Árna standa upp úr. Árni Baldursson
segir ekki bara veiðisögur heldur segir einnig frá því hvernig hann byggði
upp fyrirtækið sitt Lax-á og er það einkar fróðleg lesning.
Útlit bókarinnar verður seint talið fallegt og dregur það bókina niður.
Kápan er illa hönnuð og í besta falli klaufalegt hvernig sporður og haus
laxanna eru skornir af á forsíðumyndinni. Annars eru fjölmargar myndir í
bókinni, margar hverjar mjög skemmtilegar. Myndakaflinn hefði þó orðið
betri ef myndirnar hefðu verið grisjaðar og lögð áhersla á að hafa færri en
stærri myndir. Trausti Hafliðason
Niðurstaða: Bók sem veiðimenn munu vafalítið hafa gaman af því að lesa.
Nauðsynlegt hefði verið að leggja meiri vinnu í útlit og nostra eilítið meira
við textann.
Bókaforlagið Omdúrman
hefur gefið út Mennt er
máttur, kafla úr endur-
minningum Þórðar Sig-
tryggsonar sem Elías Mar
skráði fyrir hálfri öld og
hefur fengið á sig goðsagna-
kenndan blæ.
Mennt er máttur – Tilraunir
með dramb og hroka nefnist ný
bók, sem kemur út hjá forlaginu
Omdúrman, byggð á gömlu hand-
riti með sama nafni. Þar skráir
Elías Mar endurminningar Þórðar
Sigtryggssonar vinar síns og org-
anista.
Þórður var „hómósexúalisti“
á tímum sem farið var með sam-
kynhneigð eins og mannsmorð. Í
endurminningum sínum slepp-
ir hann hins vegar fram af sér
beislinu, bókin er stútfull af
húmor, guðlasti, berorðum kynór-
um og heift út í íslenskt samfélag
fyrir hræsni, hneykslunargirni og
tepruskap.
Elías Mar hóf að skrifa endur-
minningar Þórðar 1961. Fjórum
árum síðar var Þórður allur en
Elías Mar gengur frá handriti
1972. Það lá óbætt hjá garði þar til
2007, þegar Elías andast, og ratar
þá til Hjálmars Sveinssonar hjá
Omdúrman, sem hafði skrifað um
Elías og verk hans.
„Mér barst þetta handrit úr
dánar búi Elíasar á sínum tíma,“
segir Hjálmar sem jafnframt
skrifar eftirmála að verkinu.
„Það hafði fengið á sig goð-
sagnakenndan blæ í gegnum
árin. Ég hafði sjálfur heyrt óljós-
ar sögur um hvað stæði í þessu
handriti, mikið guðlast og kynór-
ar og að menn hafi lengi spáð í að
gefa þetta út en enginn þorað. Ég
fékk strax mikinn áhuga á að gefa
þetta út hjá mínu forlagi og kom
því loksins að núna.“
Þórður fæddist 1890, hlaut litla
skólagöngu en var engu að síður
mikill menntamaður og fagurkeri
og talaði til dæmis fjögur tungu-
mál. Hann framfleytti sér með
orgelleik og bjó lengst af ævinni
við kröpp kjör. Hjálmar telur fáa
hafa vitað að Þórður hafi verið
samkynhneigður á sínum tíma,
enda fóru menn leynt með slíkt á
þeim tíma.
„En í ákveðnum kreðsum, ekki
síst tengdum Unuhúsi, var hann
svo að segja opinber „hómósex-
úalisti“ eins og það hét. Í Unu-
húsi komst hann í kynni við Hall-
dór Laxness, sem heillaðist svo af
honum að hann skrifaði upphaf-
lega persónu organistans í Atóm-
stöðinni með hann í huga.
„Í Húsi skáldsins eftir Peter
Hallberg kemur fram að í fyrstu
drögum sögunnar var organist-
inn miklu grófari manngerð en
í endanlegu gerðinni; stóryrtari
og augljóslega „kynvilltur“. Hall-
berg nefnir Þórð hvergi á nafn en
Elías var ekki í nokkrum vafa um
að Þórður væri fyrirmyndin. En
þegar Laxness er að skrifa bókina
andast Erlendur í Unuhúsi. Hall-
dór vill heiðra minningu vinar
síns og ljær organistanum skýrari
drætti frá Erlendi svo hann verður
þessi hálf kynlausi taóisti.“
Útgáfa handritsins er mikilvæg
viðbót við sögu samkynhneigðra á
Íslandi enda segist Hjálmar leggja
á það áherslu að Þórði sé ekki hægt
að ýta út í horn kynlegra kvista,
eins og tilhneiging sé til.
„Þetta handrit er algjörlega
meðvituð yfirlýsing. Þarna er
haldið á lofti mjög sterkri fagur-
fræði sem á sér hliðstæðu annars
staðar. Ég vísa til dæmis í skrif
Susan Sontag frá 1963, þar sem
hún lýsir þeirri menningu sem
lifir hjá þessum jaðarhópi; ást á
óperum, kitsi, Oscar Wilde – í dag
er það Eurovision og því um líkt.
Þetta er ekki eitthvert rugl út í blá-
inn heldur ákveðin stemning sem
þessir hópar rækta. Þessi bók sýnir
að þessi stemning var líka til hér
á Íslandi á þessum tíma, en bara í
mjög litlum kreðsum.“
Hjálmar er sannfærður um að
Elías Mar hafi ætlað handritið til
útgáfu í þeirri mynd sem hann
gekk frá því. Handritið var til í
örfáum fjölrituðum eintökum,
meðal annars átti Halldór Lax-
ness eitt og segir Hjálmar hann
hafa lesið upp úr því fyrir gesti til
skemmtunar. Þá hafði Sigfús Daða-
son eintak undir höndum sem hann
hafði hug á að gefa út fyrir um tutt-
ugu árum en ekkert varð úr.
„Ég hugsa að því hafi ekki aðeins
ráðið þessar pornógrafísku lýs-
ingar, heldur ræðst Þórður líka á
nafngreinda menntamenn. En sé
þessi bók lesin af sanngirni held
ég að fólk sjái að það er ekki meint
bókstaflega. Þórður er ekki mjög
áreiðanlegur sögumaður; undir-
titillinn, Tilraunir með dramb og
hroka, bendir til að þetta sé líka
írónía, Þórður er líka að hlæja að
sjálfum sér. Síðast en ekki síst veit
maður ekki að hve miklu leyti þetta
er sköpunarverk Elíasar Mar. Og
mér finnst það bara fínt.“
bergsteinn@frettabladid.is
Gegn hræsni og tepruskap
HJÁLMAR SVEINSSON Fékk handritið að endurminningum Þórðar Sigtryggssonar úr
dánarbúi Elíasar Mar, sem skráði þær snemma á 7. áratugnum. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
FYRIRLESTUR UM JÓLASIÐI Laugardaginn 17. desember klukkan 13 heldur dr. Terry Gunn-
ell erindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands um íslenska jólasiði í aldanna rás, frá heiðnum goðum
til hrekkjóttra íslenskra jólasveina. Fyrirlesturinn er á ensku. Eftir fyrirlesturinn verða léttar veitingar í
boði The English-Speaking Union á Íslandi. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.
Þetta handrit er al-
gjörlega meðvituð yfir-
lýsing. Þarna er haldið á lofti
mjög sterkri fagurfræði sem á
sér hliðstæðu annars staðar.
HJÁLMAR SVEINSSON