Morgunblaðið - 20.10.2010, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 20.10.2010, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. OKTÓBER 2010 ✝ Ragnhildur Ing-ólfsdóttir fæddist í Reykjavík 12. október 1954. Hún lést á Jót- landi 13. júní síðastlið- inn. Hún var elsta barn hjónanna Ingólfs S. Ingólfssonar og Vil- helmínu S. Böðv- arsdóttur sem bæði eru látin. Systkini Ragnhildar eru Ing- ólfur, kona hans er Ragnheiður Björg Björnsdóttir, þeirra börn eru Ingólfur, Berglind og Arn- ar. Ásdís, gift Haraldi Jónssyni, börn þeirra eru Steindór og Laufey. Bergþóra, sambýlismaður hennar er Benedikt Ólafsson, börn hennar eru Kormákur Garðarsson og Iðunn Garðarsdóttir. Stefán, börn hans eru Matthías Arnalds, Stefán Lorens og skólanum í Reykjavík. Hugur hennar stóð til þess að læra húsgagnasmíði og starfaði hún til skamms tíma hjá Kristjáni Siggeirssyni en hún komst ekki á samning í iðninni og sneri sér að öðru. Átján ára gömul fékk Ragn- hildur styrk til þess að læra græn- lensku og dvaldi hún á Grænlandi í eitt ár. Er heim kom innritaðist hún í Loftskeytaskólann. Ragnhildur starfaði um árabil sem ritari m.a. hjá Brunabótafélaginu og hjá ASÍ. Hún lauk námi í klæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík og hélt til Danmerkur árið 1992 þar sem hún var nemi við búningadeild Kon- unglega leikhússins í Kaupmanna- höfn. Síðar starfaði hún hjá fyr- irtækinu Snickers og á klæðskeraverkstæði Peters Unden í Kaupmannahöfn. Árið 2004 fluttist Ragnhildur til Jótlands og bjó þar með sambýlismanni sínum Peter W. Petersen til dauðadags. Hún var jarðsungin frá kirkjunni í Veng 17. júní sl. að viðstöddu fjölmenni ætt- ingja og vina. Minningarathöfn um Ragnhildi verður haldin í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. október 2010, og hefst athöfnin kl. 13. Vaka. Hálfsystir Ragnhildar samfeðra er Inga Stefanía, börn hennar eru Heiðar Már, Brynja Eir, Ing- ólfur Þór og Ingi Ant- on. Dóttir Ragnhildar er Sædís, fædd 10. jan- úar 1975, hjúkr- unarfræðingur í Kaupmannahöfn. Sambýlismaður henn- ar er Jesper Mikkels- en og börn hennar Martina Agrillo og Lu- kas Benedikt Mikkelsen. Sambýlis- maður Ragnhildar var Peter W. Pet- ersen, bjuggu þau í Nr. Vissing á Jótlandi. Ragnhildur ólst upp í Laugarnes- inu og Safamýrinni og gekk í Lauga- lækjar- og Álftamýrarskóla. Hún lauk kvennaskólaprófi frá Kvenna- „Ég brosi af því ég er systir þín og hlæ af því þú getur ekkert gert til að breyta því.“ Þetta stendur á litlum segli sem Ragnhildur gaf mér. Stóra systir mín sem dó í sumar á afmæl- isdegi mömmu. Hún var fyrsta barnabarnið í móð- urfjölskyldunni og fékk nafnið henn- ar ömmu. Það hæfði henni ótrúlega vel því hún vildi enda stríð, vera sú sem stillti til friðar. Hún var litrík en kunni ekkert sérstaklega að meta það sjálf. Hélt að það væri betra að vera einhvern veginn öðruvísi. Hún hafði rangt fyrir sér, það var lang- best að hún væri nákvæmlega eins og hún var. Kvik og síbreytileg. Uppátækjasöm með frábæra aðlög- unarhæfni. Fjölhæf og sístarfandi. Alltaf að hjálpa fólki, stundum svo mikið að hún gleymdi sjálfri sér. Ragnhildur átti auðvelt með nám og tungumál lágu fyrir henni. Hún var handlagin með næmt auga. Gat gert við tæki, smíðað og málað. Sem ung stúlka vildi hún læra húsgagna- smíði en komst ekki á samning. Þá fór hún til Grænlands átján ára göm- ul og dvaldi þar í ár. Þar vann hún á heimili fyrir munaðarlaus börn og lærði grænlensku. Þegar heim kom fór hún í Loftskeytaskólann. Hún var rétt tvítug þegar dóttirin Sædís fæddist. Þá tóku við ár mik- illar vinnu samhliða uppeldinu. Hún bjó í kjallaranum hjá afa og ömmu þar til þau fóru á elliheimili. Þar bjó ég hjá þeim tímabundið. Svo fluttu þær mægður í Stigahlíð. Ragnhildur lét drauminn um nám rætast og lauk klæðskeranámi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hún var nemi við Kon- unglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Þegar heim kom var lítið um vinnu í þeirra tíma kreppu. Hún flutti því al- farin til Danmerkur þar sem hún bjó í yfir 17 ár. Þar stóð heimili hennar opið gestum og gangandi allan sólar- hringinn allan ársins hring. Í Danmörku fæddust barnabörnin, Martina og Lukas, sem hún sá ekki sólina fyrir og þar kynntist hún Pet- er. Þá sýndi hún enn og aftur þann sköpunarkraft og dugnað sem bjó í henni. Eftir erfið veikindi flutti hún til Jótlands og hóf að lagfæra hús og garð sem á engan sinn líka. Allt greri og óx hjá henni. Rauðar íslenskar og rófur, innan um perutré og rósa- runna í fagurri sinfóníu. Hún tók slátur og bauð í kjötsúpuveislur í jóskri sveit. Þar passaði hún inn í, all- ir þekktu hana og dáðu. Hún tók fjöl- skyldunni fagnandi hvenær sem okk- ur datt í hug að koma. Það var gott að alast upp með henni. Lesa ljóð undir teppi, sauma dúkkuföt, láta sig dreyma um útlönd. Hún var skvísa en mátti kannske ekki alltaf vera að því að punta sig. Hafði of mikið að gera við að sauma, planta blómum, rífa niður vegg eða leggja parket. Þegar hún klæddi sig upp á var hún flottust. Hún var fag- urkeri, hafði yndi af myndlist og heimili hennar var menningarlegt en hún mátti ekki alltaf vera að því að þurrka af. Hafði of mikið að gera við að taka slátur, undirbúa matarveislu eða baka. Hún hélt frábærar veislur. Hún veitti okkur yngri systkinun- um skjól en var jafnframt blíð og fín- gerð. Allt í senn sterk og veik. Fyrst og fremst var hún þó góð manneskja sem ég hefði viljað njóta þess að hafa hjá mér miklu lengur. Ásdís. Nú, seinnipart októbermánaðar, kveð ég systur mína Ragnhildi í hinsta sinn. Í gegnum hugann renna minningabrot bernskunnar. Fyrst man ég eftir okkur systkininum á Laugarnesveginum. Klisjukennd staðalímynd af gamaldags póstkorti. Hún yfirveguð og fín, hann yngri og óþekkari. Við vorum með hamstur sem ég tróð ofan í lítinn mjólkur- brúsa sem hún átti, hún fann að með- ferðinni á dýrinu. Enda fór þetta ekki vel. Svo fór hún með mig í sund í gömlu laugunum í Laugardal. Hún var synd, ekki ég. Hún var látin labba með bróður sínum í „tíma- kennslu“, annars skrópaði strák- urinn. Svona var bernskan, Ragn- hildur var kjölfestan, sú sem stólað var á ef þurfti að ljúka verkefnum. Margir óskyldir nýttu þennan eigin- leika hennar síðar, hún var svo mikill dugnaðarforkur. Við fluttum í Safamýrina og skipt- um um skóla, fórum í Álftamýrar- skóla. Um tíma áttum við leiksvæði saman í götunni, í boltaleikjum og þessháttar. Unglingsárin helltust yf- ir og hún vildi í menntaskóla en Kvennó varð ofan á. Eftir skóla fór hún að vinna á trésmíðaverkstæði og ætlaði á samning en fékk ekki, það þótti ekki við hæfi. Þá sótti hún um styrk til Grænlandsfarar og fékk. Að Grænlandsdvöl lokinni smellti hún sér í Loftskeytaskólann og í fram- haldi var það vinna. Og svo eignaðist hún dóttur og þá upplifði hún mót- læti sem einstæð móðir. Mætti litlum skilningi, það var ekki mikið um húrrahróp á heimilinu. Hún bjó í kjallaranum hjá afa og ömmu á Kjartansgötu og ég fékk inni þegar ég tók fyrstu sporin til sjálf- stæðis. Lengst af vann hún á ASÍ, mikið fyrir sérsamböndin og aðild- arfélög. Svo smellti hún sér í nám og lauk prófi sem klæðskeri frá Iðnskól- anum í Reykjavík. Hún leitaði út fyr- ir landsteina til að komast á samning og var lærlingur hjá Konunglega leikhúsinu í Köben. Kom svo heim, skraddarinn hugprúði. Langaði til að opna saumastofu en efnahagurinn leyfði það ekki og fyrir rest fór hún aftur til Kaupmannahafnar þar sem hún starfaði meðan starfsþrek entist. Þar úti kynntist hún Peter og flutti til hans út á Jótland þar sem hún tók þátt í að endurbyggja húsið þeirra og garðinn gerði hún að aldingarði. Það var einstaklega gott að koma til hennar, sama hvort það var í Kö- ben eða Nr. Vissing. Móttökur voru alltaf konunglegar og með ólíkindum hvað hægt var að töfra fram í mat og drykk þótt ekki væru til miklir aurar. Hún var ávallt til staðar ef þú þurftir eða vildir. Hver sá sem einu sinni varð vinur hennar átti vináttu henn- ar alla tíð. Hún fór ekki troðnar slóð- ir, kannski af því það stóð ekki til boða eða af því að hún var í eðli sínu frumkvöðull en ekki sporgöngumað- ur. Hún var hlý og góð manneskja sem var umhugað um sitt samferða- fólk og umhverfi. Henni þótti mikið vænt um sína og dáðist að dugnaði dótturinnar. Barnabörnin, Martína og Lúkas, voru henni ómetanlegir gimsteinar, sem hún hefur nú horfið frá allt of snemma. Að eigin ósk vildi hún dvelja við Faxaflóa þar sem við nú kveðjum hana. Elsku Ragnhildur mín, þakka þér samfylgdina. Megi góðar minningar ylja þínum nánustu um alla framtíð. Ingólfur (Ingi bróðir). Elsku Lagú mín. Ég á alltaf von á þér í heimsókn. Það er alveg kominn tími á að þú birtist í anddyrinu, blað- skellandi í selskinnskápu með sama gamla veskið. Það er svo langt síðan ég sá þig draga upp sígarettu og segja sögu meðan hún brann upp. Ég sakna þess að fylgjast með sígarett- unni sem þú hélst á milli vísifingurs og löngutangar, löngu búin að gleyma að hún væri þar því sagan var svo spennandi. Ég held ég hafi aldrei sagt þér hversu skemmtilegt mér fannst hljóðið sem heyrðist þeg- ar þú klóraðir þér í hvirflinum með baugfingri meðan gleymda sígarett- an hvíldi logandi milli snyrtilega naglalakkaðra fingra. Ég á von á því á hverri stundu að mamma segi að það sé kominn tími til að skreppa til Danmerkur að heimsækja Lagú. Mig er farið að lengja eftir öllum góða matnum sem þú eldar og mig langar að stússa eitt- hvað með þér. Manstu hvað var gam- an hjá okkur í fyrra? Bara þú og ég í bílnum á leiðinni í búðina eftir að hafa dundað okkur í garðinum allan daginn. Bohemian Rhapsody kom í útvarpinu og við sungum hástöfum. Ég vildi að ég gæti verið að eilífu síðsumars á Jótlandi með þér á ströndinni að mana mömmu út í ískalda vatnið. Eða að horfa á power- puff-pigene og gefa páfagauknum skinku eins og við gerðum þegar ég var lítil, áður en páfagaukurinn týnd- ist, þegar þú bjóst í Köben, áður en Lukas fæddist, þegar Martina sagð- ist ennþá vera baby, áður en þú kynntist Peter, þegar þú gafst mér föt sem þú varst hætt að nota, áður en ég þurfti að sætta mig við að ég fengi aldrei að sjá þig aftur. Verst finnst mér að ég fæ aldrei að segja þér hvað ég leit mikið upp til þín. Ég mun alltaf eiga von á þér í heimsókn. Laufey. Í húsinu númer 54 við Langholts- veg bjuggu tvær ungar fjölskyldur á sínum fyrstu búskaparárum. Það var þegar vatnsbíllinn keyrði enn um götuna og vökvaði hana í þurrki. Þarna voru hnýtt vináttubönd til lífs- tíðar. Til er mynd af Ragnhildi og Jóni bróður mínum að elta fyrstu snjókornin sín ársgömul úti í garði. Sjálf var ég þrem árum eldri og reyndari. Vináttutréð sem foreldrar okkar gróðursettu forðum daga tók vaxtar- kipp þegar við Ragnhildur urðum mæður. Þá var sem allt yrði nýtt og við kepptumst við að hittast með dæturnar. Theodóra, Sædís og Embla urðu þrístirni þar sem Sædís miðlaði málum milli systra og var drottningin í hópnum. Heima hjá henni var ótæmandi uppspretta skemmtunar. Galdraðir voru fram heilu grímubúningarnir úr nánast engu, farið í prinsessuleiki, saumað og föndrað, búið til jólakonfekt, bak- að og eldað best og síðast en ekki síst voru fléttaðar fastar fléttur og hárið greitt af þeirri list sem Ragnhildur ein kunni. Sú list náði hæstum hæð- um í hári Imbu litlu eftir að hún bættist í hópinn. Í hennar augum var heimsókn til Ragnhildar og Sædísar hápunktur allrar sælu og það gilti um okkur hinar líka. Svona var hún. Og er þó fátt eitt talið. Hún vélritaði ritgerðir og leið- rétti um leið með ógnarhraða, saum- aði gardínur og jólakjóla, prjónaði peysur, smíðaði hirslur, setti saman og tók sundur fataskápa, stundum oftar en einu sinni sama skápinn ef flutt var. Hún var ætíð mætt þegar mikið stóð til, hvar sem við bjuggum á landinu, gerði brauðtertur, skúraði gólf, skreytti veisluborð og greiddi fermingarstúlkum. Þó var hún á þessum árum einstæð móðir og vann oftast langan vinnudag. Seinna lét hún drauminn rætast og gerðist skraddari í Kaupmannahöfn. Það voru góð ár og ekki síður árin á Jót- landi. Ætíð hélt hún þeim hætti sín- um að vera bjargvættur og reddari, aldrei meir en á Kaupmannahafnar- árunum. Þekki ég marga sem eiga henni mikið að þakka frá þeim tíma. Þrátt fyrir að Ragnhildur virtist hafa ómældan tíma fyrir vini sína var fjölskyldan henni ætíð efst í huga. Þar kom Sædís fyrst, en fast á hæla hennar fylgdu systkini Ragnhildar sem hún bar ómælda umhyggju fyr- ir, enda elst. Hún var tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir þau öll. Hún fór ung að heiman og missti að mörgu leyti af glöðum æskuárum í systkinahópi, sem ég held að hafi mótað hana mjög. Á sama hátt var hún amma af ástríðu og gaf sig alla í það hlutverk. Peter kom inn í líf Ragnhildar fyr- ir nokkrum árum og höfðu þau skap- að sér sannan sælureit í fallegu jósku þorpi. Hún var auðvitað orðin pott- urinn og pannan í Nörra Vissing og óx allt og dafnaði í kringum hana þar. Það var því mikið áfall þegar hún fyr- ir nokkrum mánuðum greindist með alvarlegt krabbamein sem ekki varð ráðið við. Hún lést á heimili þeirra Peters þar sem Sædís hjúkraði henni af umhyggju og ástúð uns yfir lauk. Far vel, elsku vinkona. Þú hefðir sannarlega átt skilið að verða allra kerlinga elst, en um það var ekki spurt. Guðlaun fyrir allt. Kristín Magnúsdóttir. Ragnhildur var jafnaldra mín og hluti af tilveru minni alla tíð. Við vor- um á 4. ári þegar við fluttum í ný- byggða blokk inni í Laugarnesi sem feður okkar reistu ásamt félögum sínum. Þar var mannlíf fagurt og góð aðstaða fyrir ungviðið. En Ragnhild- ur hafði ekki mikinn tíma til leikja. Hún var elst systkina sinna og tók snemma að sér að annast þau og ábyrgjast. Mér fannst meiri þungi hvíla á henni en sanngjarnt væri en hún kvartaði ekki og alvaran skyggði ekki á glaðlyndi hennar og gaman- semi þegar því var að skipta. Uppá- tækjasemi hennar vakti aðdáun. Notaði alvöru egg og dropa í drullu- kökurnar. Meira en okkur hin hefði nokkurntíma dreymt um. Við geng- um báðar í Laugarlækjarskóla þang- að til í 11 ára bekk. Þá sprengdi systkinafjöld Ragnhildar utan af sér litlu blokkaríbúðina og þau fluttu úr hverfinu. Tveimur árum síðar urðum við skólasystur í Kvennó sem í þá tíð lagði áherslu á hefðbundið kvenlegt sýsl, samfara ströngu bóklegu námi. Það lék allt í höndunum á henni og henni sóttist námið vel. Seinna þegar hún þrælaði sér út sem einkaritari hjá ASÍ og ég hafði ennþá trú á póli- tík, hittumst við, við ýmis tækifæri og vissum alltaf u.þ.b. hvað hin var að bauka. Alla tíð greindum við heims- pólitíkina í gegnum sömu linsu og ég sakna þess að njóta ekki lengur rök- hyggju hennar varðandi valdataflið ógurlega. Svo fór hún í skraddaranámið og fékk samning hjá Konunglega leik- húsinu og dreif sig til Kaupmanna- hafnar. En þar sem Ragnhildur er ennþá minna gefin fyrir að sitja við skriftir en ég, frétti ég ekki mikið af hennar fyrr en dagur fagur rann … Þremur árum síðar. Ég hafði búið á Jótlandi í nokkra mánuði þegar danska nafnalöggjöfin kom til um- ræðu í Íslendingahópi og segist þar frá, að stúlka nokkur eigi von á barni og það sé sama hvort barnið verði piltur eða stúlka þá fái það kenni- nafnið Ragnhildardóttir eins og móð- irin. Ég varð öll eyru og spurði hvort um væri að ræða Ragnhildi Ingólfs- dóttur og það skipti engum togum, næstkomandi sunnudag var hún mætt til mín. Síðan liðu aldrei marg- ar vikur svo við heyrðum ekki hvor frá annarri og hjá henni hitti maður margan góðan landann og átti góðar stundir. Verksvit hennar og útsjónarsemi naut sín allra bezt eftir að hún fór að búa með Peter á Jótlandi. Hann er algjörlega af gamla skólanum en hún naut þess að gera góðan mat og þótti gaman að snúast í kringum hann þó henni fyndist hann stundum láta fötl- un sína hefta sig til framkvæmda. Því fátt var Ragnhildi jafn fjarri skapi og að láta sársauka og vanlíðan ráða ferðinni. Danir eru ekki svona miklir vinnuþjarkar. Vilja heldur hafa það huggulegt. Peter fannst eins og mér að hún færi ekki nógu vel með sig. Hann vildi allt fyrir hana gera og gaf henni frjálsar hendur til að breyta og bæta bæði úti og inni. Það var gaman að koma til þeirra og sjá hvernig framkvæmdum vatt fram. Og hún var alsæl. Sáði og uppskar. Hún var óhraust allan tímann en höfðings- skapur hennar og hjálpsemi bilaði aldrei. Ég þakka Ragnhildi sam- fylgdina og votta aðstandendum hennar samúð mína. Árný Birna Hilmarsdóttir. Ragnhildur Ingólfsdóttir ✝ Ástkær frænka okkar, SIGÞRÚÐUR GUÐBJARTSDÓTTIR, andaðist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni mánudaginn 18. október. Fyrir hönd aðstandenda, Halldóra Kristín Arthursdóttir, Íris Bryndís Guðnadóttir. MOSAIK Hamarshöfða 4 - 110 Reykjavík sími 587 1960 - www.mosaik.is Legsteinar og fylgihlutir Vönduð vinna og frágangur Yfir 40 ára reynsla Sendum myndalista

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.