Saga - 2004, Blaðsíða 192
til að fanga hugblæ og andrúmsloft.“29 Sem dæmi um þetta nefnir
Hannes frásögn Halldórs Laxness af miðilsfundi í San Diego sem
hann hafi notað „mjög mikið, eftir að hafa tekið úr henni kiljönsk-
una og annað sem einkenndi stíl Halldórs.“30 Þannig telji hann sig
ekki vera að „stela texta“ frá skáldinu. „Ég er bara að reyna að grípa
andrúmsloftið og hugblæinn.“31 Með þessari miklu áherslu á þarf-
ir verksins og þjónustu við almenning réttlætir Hannes vinnubrögð
sín þar sem allt er í rauninni leyfilegt. Niðurstaðan er fræðilega
óverjandi.
Klippiverk
Bók Hannesar er mikil að vöxtum, 620 þéttskrifaðar blaðsíður með
nafnaskrá og eftirmála. Engin heimildaskrá fylgir en er boðuð í
þriðja bindi verksins. Myndir eru í bókinni en myndaskrá vantar.
Eins og fram kemur í titli bókarinnar fjallar hún um fyrstu þrjátíu
árin í ævi Halldórs Laxness,32 eins fremsta og frægasta rithöfundar
íslensku þjóðarinnar. Um sama efni hafa verið skrifaðar nokkrar
bækur áður og kemur það sér vel fyrir höfund þessarar bókar.33
Bókin skiptist í átta meginkafla eftir tímabilum í ævi skáldsins.
Hver þessara kafla greinist síðan í undirkafla þar sem hinum ýmsu
H E L G A K R E S S192
29 Sama heimild, dálkur 4.
30 Sama heimild, dálkur 5.
31 Sama heimild, dálkur 3.
32 Millinafnið Kiljan tók Halldór Laxness upp við kaþólska skírn sína í ársbyrj-
un 1923 og notaði það í höfundarnafni sínu til 1963 þegar hann lagði það nið-
ur frá og með Skáldatíma sem kom út það ár. Sjálfur valdi Halldór að sleppa
því úr höfundarnafni sínu og er það því ekki notað hér.
33 Grundvallarritið um ævi Halldórs Laxness á þessu tímabili er Peter Hallberg,
Vefarinn mikli. Um æskuskáldskap Halldórs Kiljans Laxness. I–II (Reykjavík,
1957–1960), Björn Th. Björnsson og Jón Eiríksson þýddu úr sænsku, Den store
vävaren. En studie i Laxness’ ungdomsdiktning (Stockholm, 1954). — Sjá einnig:
Peter Hallberg, Hús skáldsins. Um skáldverk Halldórs Laxness frá Sölku Völku til
Gerplu. I–II (Reykjavík, 1970–1971), Helgi J. Halldórsson þýddi úr sænsku,
Skaldens hus. Laxness’ diktning från Salka Valka till Gerpla (Stockholm, 1956). —
Peter Hallberg, Halldór Laxness, translated by Rory McTurk (New York, 1971).
— Erik Sønderholm, Halldór Laxness. En monografi (København, 1981). —
Ólafur Ragnarsson, Halldór Laxness — Líf í skáldskap (Reykjavík, 2002). — Hall-
dór Guðmundsson, „Loksins, loksins“. Vefarinn mikli frá Kasmír og upphaf ís-
lenskra nútímabókmennta (Reykjavík, 1987). — Halldór Guðmundsson, Halldór
Laxness. Leben und Werk (Göttingen, 2002).
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 192