Saga - 2004, Blaðsíða 226
Eiríkssögu. Undirritaður reyndi að skýra þessar breytingar með nýjum
áhuga ráðamanna í Noregi um 1300 á siglingum til lítt kunnra svæða og
nýrri eða bættri þekkingu á löndum og leiðum (sbr. ritið Approaches to Vín-
land). Hætt er við að slíkar breytingar hafi orðið á munnmælastigi og svo
aftur nýjar breytingar á ritmálsstigi. Elsta gerð Eiríkssögu er í Skálholtsbók
frá 15. öld og Grænlendingasaga er aðeins varðveitt í Flateyjarbók frá um
1387 og tækifæri til alls kyns breytinga voru mikil. Bein tilefni gáfust líka til
að breyta munnmælum, Eiríkur ufsi Gnúpsson er sagður hafa farið að leita
Vínlands 1121 en við vitum ekki um afdrif hans. Hins vegar sýnir vitnis-
burðurinn áhuga á Vínlandsferðum út frá áhugamálum um 1120. Við vit-
um að norrænir Grænlendingar voru á Marklandi 1347. Af þessum sökum
verður að gera ráð fyrir að áhugamál manna á 12., 13. og 14. öld og ný vitn-
eskja kunni að hafa mótað Eiríkssögu og Grænlendingasögu að einhverju
leyti, bæði á munnmælastigi og líka á ritmálsstigi, a.m.k. Eiríkssögu alveg
vafalaust á ritmálsstigi. Gísli hafnar þessum athugunum með þeim rökum
að ekki sé getið um Vínlandsferð norrænna manna á 13. og 14. öld (bls. 261,
sbr. Saga XL:2 (2002), bls. 262), sem er vissulega rétt. Engu að síður bendir
vitneskjan um Eirík ufsa og Marklandsferðina til að menn hafi spreytt sig á
ferðum vestur á bóginn. Um þetta höfum við Gísli rökrætt í bróðerni og
leyfum okkur að vera ósammála.
Sú viðleitni Gísla að reyna að finna gamlan sannsögulegan kjarna í Vín-
landssögunum um Vesturheim lýsir áræði hans og er virðingarverð þar
sem hann ber hann sem nákvæmast saman við vitnisburð fornleifafræð-
inga og náttúrufræðinga. En það er engin leið að ganga fram hjá þeim
möguleika að allar lýsingar hafi gjörbreyst í munnmælum og á ritmálsstigi.
Ég sakna því umfjöllunar Gísla um áhrif frá samtíma á munnmæli og ritað-
ar sögur um Vesturheimsferðir, ekki síst þar sem hann víkur að slíkum
áhrifum á munnmæli almennt í inngangi (bls. 5, sbr. líka bls. 318 um áhrif
áheyrenda).
Þá segir Gísli að sagnfræðingar hafni sögunum sem heimildum um
forna tíð og horfi mest til aldurs handrita (bls. 49) og enn fremur að menn
hljóti að vera hikandi að nota fornsögur sem heimildir þar sem þær séu lag-
aðar að þörfum samtíma (bls. 252). Mætti e.t.v. halda að ég væri sammála
hinu síðastnefnda en það er ekki svo. Það tengist því sem Gísli nefnir enn
fremur í fáum orðum, að mann- og félagsfræðingar noti Íslendingasögur til
að lýsa félagslegum veruleika á 12. og 13. öld (bls. 45). Eru sjálfsagt liðin um
20 ár eða meira síðan ýmsir sagnfræðingar fóru að tileinka sér félagssögu-
leg viðhorf í notkun sagnanna og hafa margir gert það með ágætum árangri
(sjá Nýja sögu 1986, bls. 87–96, sbr. Íslenskir sagnfræðingar (2002)). Ófáir sagn-
fræðingar, kannski allir, hafna sögunum sem heimildum um atburði og
persónur á elstu tíð en aðalatriðið er að margir telja sig hins vegar geta not-
að þær margar um félagslegan veruleika á 12. öld, t.d. um hegðunarmynst-
ur sem breyttust lítt í tímans rás (svo sem gjafaskipti og fæðardeilur). Það
R I T D Ó M A R226
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 226