Saga - 2004, Blaðsíða 224
ekki úr því. Má benda á að ættir lögsögumanna þurftu ekki endilega að
vera valdaættir en lögsögumenn gátu verið skjólstæðingar valdamikilla
fjölskyldna sem tefldu þeim fram. Þannig er talið að Snorri Sturluson hafi
hugsanlega teflt fram Styrmi Kárasyni í starf lögsögumanns. Ályktanir um
völd og valdaættir út frá nöfnum einstakra lögsögumanna geta því verið
varasamar.
Helsta aðferð Gísla við að meta áhrif ritlistar í tengslum við lögsögu er
sú að grafast fyrir um hvaða lögsögumenn voru prestar eða nákomnir
kirkjunni og álykta út frá því um læsi þeirra og skriftarkunnáttu. Þetta er
erfitt þar sem vitneskja er takmörkuð en Gísli tjaldar því sem til er og beitir
stundum miklu hugviti. Hann kemst þó í nokkrar ógöngur á stundum,
einkum um ætt Gunnars spaka og sonar hans, Úlfheðins, og tveggja sonar-
sona, þeirra Hrafns og Gunnars, en þeir voru allir lögsögumenn. Gísli telur
að þeir hafi ekki haft ritlist á valdi sínu og þess vegna hafi ætt Gunnars
spaka orðið undir í lögmannskjöri og valdabaráttu við lok 12. aldar (bls.
93). Þó liggur fyrir að sonur Hrafns var Hallur á Grenjaðarstað, nefndur
kennimaður á einum stað. Hann var síðar ábóti á Munkaþverá, og sonur
hans var Eyjólfur á Grenjaðarstað, síðar ábóti í Saurbæ (d. 1212). Sagt er að
Guðmundur biskupsefni Arason hafi beðið Eyjólf prest um að taka við
biskupstilnefningu. Almennt er talið að þeir Hallur og Eyjólfur hafi verið
prestar eða vígðir menn en Gísli dregur fram líkur fyrir því að þeir feðgar
hafi ekki verið klerkar. Með því telur hann sig styrkja þá ályktun að Hrafn
lögsögumaður hafi ekki verið lærður, ætt þeirra langfeðga frá Gunnari
spaka hafi ekki verið lærdómsætt sem hafi haft ritmennt á valdi sínu. Vand-
inn er sá að íslenskir höfðingjar tóku oft vígslu og viðleitni við að greina
ólæsa og óskrifandi höfðingja og fyrirmenn frá hinum, eða lærða frá leik-
um, er varasöm í allri heimildafæðinni. Þótt Hallur hafi trúlega verið prest-
ur, þarf Hrafn faðir hans ekki að hafa verið það en um hann vitum við ekk-
ert. Engu að síður kann hann að hafa verið læs og skrifandi þar sem vel er
líklegt að til hafi verið höfðingjar á 12. öld sem voru eins og Snorri eða
Sturla Þórðarson, læsir og skrifandi þótt ekki væru vígðir.
Gísli hefur með umfjöllun sinni um lögsögumenn tekið til umræðu
mikilvægt en vanrækt efni. En þessi umræða er kannski mikilvægari fyrir
stjórnmálasögu en sögu munnlegrar hefðar? Það er erfitt að álykta um
munnlega hefð almennt út frá lagaþekkingu en þó má segja að líklegt sé að
lögfróðir hafi verið vel að sér á öðrum sviðum líka. En voru þeir endilega
sagnamenn þar með? Og hverju breytti ritlistin fyrir sagnamenn?
Í öðrum hluta (II) byrjar Gísli túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegr-
ar hefðar og tekst afar vel upp. Hann kannar mismun á frásögnum um
„sömu“ persónur í fleiri en einni Austfirðingasögu og á sama hátt á „sömu“
frásagnaratriðum. Þar sem náin tengsl eru á milli sagna, hafa fyrri fræði-
menn jafnan gripið til rittengsla sem skýringa en Gísla tekst ósjaldan að
sýna fram á að mun sennilegra sé að skýringin sé munnmæli. Eru skýr og
R I T D Ó M A R224
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 224