Líf og list - 01.05.1952, Blaðsíða 17

Líf og list - 01.05.1952, Blaðsíða 17
ykkar er farin að þrá, því meira þykir til ykkar koma. Það er von, að þið séuð svona. Þetta hefur ykkur verið kennt, öllum, undantekningarlaust. All- ar aðrar kenningar eru hjal venjunnar, sem enginn ætlast til, að þið takið neitt mark á. Þið drekkið þessa kenningu um lífið með móðurmjólkinni. Þið andið henni að ykkur úr loítinu utan um ykkur. Hún seytlast fpn í ykkur úr hugum allra, sem þið eruð samvistum við. Sál ykkar sýgur hana í sig úr nærri því hverri einustu línu um lífið, sem þið les- ið í blöðum og bókum. Og þið, sem hafið ekki villzt út frá snúrunni, þið teljið ykkur örugga. Þið hlaðið utan um sál ykkar skjaldborg drambseminn- ar. Þið kastið þaðan grjóti á þá fáráðlinga, sem álpazt hafa afleiðis . .. eins og hann Bjarni minn .. . Já, hvað er kostur ? Hvað er ókostur ? . . . Guð veit það. Eg veit það ekki. (Úr „Sálin vaknar“ eftir Einar H. Kvaran). ★ MARlA OG ROBERT JORDAN Þau komu hægt gegnum lyngbreiður hásléttunn- ar og Robert Jordan fann hrjúfar lynghríslurnar strjúkast við fótleggi sína, fann þunga skammbyssu- slíðranna upp við mjöðm sér, fann sólina á höfði sér, fann goluna frá snæviþöktum fjallstindunum kalda og svalandi á baki sér og, í greip sér, hönd stúlkunnar heita og lifandi, fingur hennar samflétt- aða fingrum hans. Frá henni, frá lófa handar henn- ar upp við lófa handar hans, frá samtvinnuðum fingrum þeirra, og frá úlnlið hennar sem nam við úlnlið hans barst eithvað frá hendi hennar, fingrum og úlnlið yfir til handar hans sem var eins ferskt og fyrsti létti morgunandvarinn sem berst til manns af hafi og rétt aðeins gárar spegilsléttan vatnsflöt- inn, eins létt og dúnfjöður sé strokið yfir munn manns, eða lauf fallandi í stafalogni; svo létt að það fannst við minnstu snertingu fingra þeirra, en sem svo jókst og magnaðist og varð svo sterkt, svo á- stríðufyllt, svo knýjandi, svo sársaukablandið og óbærilegt við fastan þrýsting fingra þeirra og nána snertingu lófa og úlnliða, að það var eins og sterk- an straum legði upp handlegg hans sem fyllti ger- vallan líkama hans kvalafylltri, tærandi þrá. Með sólina skínandi á hár hennar, rafgult eins og hveiti- ax, og á gullinbrúna dúnmýkt andlitsins og ávala boglínu hálsins sveigði hann höfuð hennar aftur og hélt henni upp að sér og kyssti hana. Hann fann hríslirig fara um hana og hann þrýsti endilöngum líkama hennar fast að sér og fann brjóst hennar upp við brjóst sitt gegnum ullarskyrtur þeirra beggja. fann þau svo smá og stinn og hann seildist til með annarri hendinni og hneppti upp hnöppunum í skyrtu hennar og beygði sig niður og kyssti brjóst hennar og hún stóð skjálfandi, hallandi höfðinu aft- ur, annar handleggur hans utan um hana. Svo laut hún niður og þrýsti hökunni ofan að höfði hans og hann fann hendur hennar taka utan um höfuð sér og rugga því upp við sig. Hann rétti sig upp og með báða handleggina utan um hana hélt hann henni svo fast að hún hófst á loft í fangi hans, og hann fann hana skjálfa og svo voru varir hennar á hálsi hans, og hann setti hana niður og sagði, ,,Ó, María, ó, elsku María“. Svo sagði hann, ,,Hvar getum við verið ?“ Hún sagði ekkert en smeygði hendinni inn með skyrtulíningu hans og hann fann hana hneppa upp skyrtuhnöppunum og hún sagði, ,,Þig, líka. Eg vil kyssa, líka.“ ,,Nei, litli kiðlingur.“ ,,Jú. Jú. Allt eins og þú.“ ,,Nei. Það er ómögulegt." ,,Jæja, þá. ó, þá. Ó, þá. Ó." Svo var það lyktin af knosuðu lyngi og hrjúf snerting bældra stilkanna undir höfði hennar og björt sólin á lokuðum augum hennar og allt sitt líf mundi hann muna ávala boglínu háls hennar með höfuð hennar þrýst aftur á bak ofan í rætur lyngsins og varir hennar sem hreyfðust smálega og af sjálfu sér og bif augnahára hennar með augun fastlokuð gegn sólinni og gegn öllu, og fyrir hana var allt rautt, glórautt, gullinrautt af sólinni á lok- uðum augunum, og það var allt í þeim lit, allt saman, fyllingin, gagntekningin, fullnægingin, allt í þeim lit, allt í blindandi rófi þess litar. Fyrir hann var það dimmur gangur sem lá til aldrei-þar, svo til aldrei-þar, svo aftur til aldrei-þar, enn einu sinni til aldrei-þar, alltaf og eilíflega til aldrei-þar, þungt á olnbogunum á jörðunni til aldrei-þar, dimmt, aldrei neinn endir til aldrei-þar, haldið í horfinu jafnt og þétt og óaflátanlega og alltaf til óþekkts aldrei-þar, þetta sinn og aftur og enn til aldrei-þar, nú ekki til að afbera einu sinni enn í sífellu og til aldrei-þar, nú með öllu óbærilegt upp, og upp, upp og djúpt inn í aldrei-þar, og snögglega, gegnum- hríslandi, samrennandi, allt aldrei-þar horfið og tíminn algjörlega kyrr og þau voru þar bæði, rás tímans stöðvuð, og hann fann jörðina hreyfast og svífa burt undán þeim. [Upphaf þrettánda kaflans í „For Whom The Bell Tolls“ („Klukkan kallar") eftir Ernest Hemingway; Stefán Bjarman ísl.] LÍF og LIST 17

x

Líf og list

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Líf og list
https://timarit.is/publication/819

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.