Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2010, Page 222
220
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
p þar sem þessi hljóð hafa sameiginlega þætti ekki síður en sérhljóðarnir. Fjórða
kenningin, sú sem studd er í ritgerð minni, gengur út á það að það sé ekki sér-
hljóðinn sjálfur sem stuðlar heldur hljóðgapið eða tómið sem verður þegar orð
hefst ekki á samhljóða. Hljóðgapið sem myndast framan við sérhljóðann, þ.e. áður
en hann er myndaður, er í raun lágmarkshljómun. Atkvæði sem hefst ekki á sam-
hljóða getur þess vegna stuðlað við hvaða annað atkvæði sem hefst ekki á sam-
hljóða (sjá Tranter 1997:137; sjá ritgerð mína bls. 141). Ég hef fallist á þessa kenn-
ingu og finnst hún rökrétt og skynsamleg.
7. Það er alveg ljóst að reglur skáldskaparins fylgja ekki alltaf hljóðfræðilegri
nákvæmni. Þau framstöðuhljóð sem táknuð eru með h stuðla í reynd öll saman þó
svo að mörgum fræðimönnum beri saman um að þau hefjist ekki á h. Reyndar eru
skiptar skoðanir um þetta mál eins og ég hef rakið í ritgerðinni. En öll þessi hljóð
notast hvert með öðru í stuðlun í íslenskum kveðskap og hafa gert alla tíð. Öll þessi
hljóð hefjast á blæstri, missterkum og misjafnlega staðsettum. Greinilegastur verður
þessi blástur þar sem hann fer á undan sérhljóða enda eru málfræðingar almennt
sammála um að þar sé sjálfstætt fónem, /h/. I hinum tilvikunum er hann stundum
afar ógreinilegur en samt nægilega mikill til þess að bragkerfið skilgreinir hann sem
lágmarkshljómun, — og það sem meira er, bragkerfið skilgreinir þennan blástur sem
einn jafngildisflokk þó að hann komi fram á mismunandi stöðum. Þetta gerist ekki
með neitt annað hljóð (sjá þó um /g/ og /k/ á bls. 41—42 þar sem niðurstaðan er að
sumu leyti svipuð) en kallast hins vegar skemmtilega á við það sem m.a. kemur fram
hjá Kristjáni Arnasyni, að [h] sé „önghljóð án myndunarstaðar" (Kristján Árnason
2005:157; sjá ritgerð mína bls. 201). Hér gæti því verið um hljóðkerfislega stuðlun að
ræða. Hljóðkerfisleg stuðlun er fátíð í íslenskum kveðskap en hún er þó til, sbr. það
sem nefnt var hér að ofan, að uppgómmælt og framgómmæltg stuðla saman, svo og
uppgómmælt og framgómmælt k. Þá finnst mér líklegt að ritunin hafi haft þarna
einhver áhrif, þ.e. að stafsetningin eigi einhvern þátt í varðveislu þeirrar hefðar að
stuðla saman öll orð sem rituð eru með h í framstöðu.
8. Ástæður fyrir varðveislu stuðlasetningar hér á landi eru vafalaust margar og
fjölþættar. Hér mætti nefna einangrun landsins, samskipti við aðrar þjóðir voru
stopul og áhrif frá Evrópu lítil. Þetta helst í hendur við það að tungumálið hefur
varðveist lítið breytt eins og andmælandi hefur vikið að. Sú staðreynd að við leggj'
um enn áherslu á fyrsta atkvæði hvers orðs er ekki eina ástæðan fyrir þessari
óvenjulegu menningarvarðveislu en ég hygg þó að þetta eina atriði skipti miklu máli
í þessu samhengi. Þegar áherslan færist inn í orðin raskast bygging stuðlavirkisins
og þeir missa að einhverju leyti gildi sitt. Ég vil í lokin benda á að eins og við getum
leikið okkur með þá hugmynd að samfellan í tungumálinu hafi orðið til þess að
bragreglurnar varðveittust þá er heldur alls ekki ósennilegt að vísnahefðin, með
öllum sínum reglum um stuðlasetningu, margbrotið rím og taktfasta hrynjandi, hafi
átt þátt i því að tungumálið hélst að stærstum hluta óbreytt allan þennan tíma.