Freyr - 01.06.2000, Qupperneq 4
Ritstjórnargrein
Hinn fjarstaddi
hefur á röngu að standa
Mikil ólga ríkir í íslensku þjóðfélagi um
þessar mundir. Efnahagsleg uppsveifla hefur
staðið í á þriðja ár og gefið mögum færi á að
bæta sinn hag. Aðrir hafa hins vega orðið undir
í góðærinu. Má þar nefna þá sem verða að búa
við félagslega framfærslu, auk þess sem
uppsveiflan hefur fyrst og fremst verið bundin
við höfuðborgarsvæðið en landsbyggðinni hefur
blætt, bæði til sjávar og sveita.
Fram undir 1980 var það ráðandi stefna í
landbúnaði að bændur skyldu framleiða eins
mikið og þeir gætu og framkvæma og stækka bú
sín eftir mætti. Þá snerist dæmið við og settur
var kvóti á mjólkur- og kindakjötsframleiðslu
enda viðunandi markaðir ekki lengur fyrir hendi
fyrir óbreytta framleiðslu þessara afurða. Þar
með hófst þrautaganga íslenskra bænda, sem
stendur enn. Hún er ekkert sérstök fyrir okkur,
en er hin sama eða víða sárari í öðrum löndum.
Það er í mannlegu eðli að hver og einn leitist
við að tryggja hag sinn eða bjargi sínu skinni
þegar þrengir að. Viðbrögðin geta þá verið að
menn snúi bökum saman, eins og gert var þegar
verkamenn hófu kjarabaráttu sína með því að
stofna verkalýðsfélög fyrir um 100 árum. í
íslenskum landbúnaði nútímans birtist þetta í
því að afurðastöðvar í landbúnaði eru að
sameinast, bæði í mjólkur- og kjötiðnaði og í
úrvinnslu og sölu garðyrkjuafurða.
Viðbrögðin geta einnig verið gagnstæð, þ.e. að
leysa upp einingar, þar sem ólíkir og jafnvel
öndverðir hagsmunir hafa verið spyrtir saman.
Þar má nefna að rekstur mjólkursamlaga og
sláturhúsa á vegum kaupfélaga hefur verið
gerður sjálfstæður eða sameinaður öðrum
hliðstæðum rekstri. I þessu efni hrósa Sunn-
lendingar happi en frá upphafi hafa Sláturfélag
Suðurlands og Mjólkurbú Flóamanna verið
sjálfstæð fyrirtæki í eigu bænda og eru hvort um
sig öflug á sínu sviði.
Um langan aldur var Búnaðarfélag Islands
sameiginlegt baráttutæki alls landbúnaðar hér á
landi. Árið 1945 var Stéttarsamband bænda
stofnað til að hafa með höndum kjarabaráttu
bænda, þar sem óeðlilegt var talið að
félagsskapur, sem rekinn var fyrir almannafé,
stæði í kjarabaráttu fyrir félagsmenn sína. Á
síðustu áratugum hafa síðan verið stofnuð
sérstök félög eða samtök um allar greinar
landbúnaðarins og hafa umsvif þeirra farið
vaxandi. Jafnframt hefur þess gætt æ meira að
þær hafa margar hverjar, einkum hinar stærri,
talið hag sínum best borgið með því að taka
eigin mál sem mest í sínar hendur, frá
heildarsamtökunum, Bændasamtökum íslands.
Það sem hér er á ferð verður hvorki dæmt sem
„rétt“ eða „rangt“. Annað sjónarmiðið heldur á
lofti því sígilda viðhorfi að „sameinaðir
stöndum vér en sundraðir föllum vér“.
Fylgjendur hins viðhorfsins halda því hins vegar
fram að hver og ein búgrein standi best ef hún
hefur sjálf með höndum eigin mál.
Ljóst er að hagsmunir framleiðenda og
neytenda í kaupfélögum, sem reka bæði mat-
vöruverslanir og afurðastöðvar, eru svo
öndverðir að slíFur rekstur á erfitt uppdráttar.
Spurningin er hvort hagsmunir hinna einstöku
búgreina séu einnig svo öndverðir að best sé að
dregið verði verulega úr starfsemi sameiginlegs
félagsskapar þeirra, BÍ? Vissulega eru þar víða
ólíkir hagsmunir á ferð. Þeirri hugsun verður þó
ekki varist að hér ráði verulega um hinar miklu
þrengingar sem landbúnaðurinn allur gengur nú
í gegnum þar sem hver reynir að bjarga sínu
skinni. Hver búgrein finnur napurlega á eigin
skrokki vandamál sín og þrengingar en
heildarhagsmunir atvinnuvegarins eru
fjarlægari. Orðsnjall maður orðaði fyrirbærið
þannig: Hinn fjarstaddi hefur á röngu að standa.
M.E.
4 - FREYR 6/2000