Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.1999, Blaðsíða 148
146 Árbók VFÍ/TFÍ 1998/99
Sumarið 1999 var einnig ráðist í að endurnýja slitlagið á flugbrautinni á Isafirði, sem var
orðið illa farið. Jafnframt var hafin endurbygging á flugbrautinni á Þingeyri, sem var byggð
af vanefnum og ekki undirbyggð með fullnægjandi hætti. Aætlunarflug lagðist af til
Þingeyrar árið 1997 og hefur flugvöllurinn frá þeim tíma verið skilgreindur sem varaþjónustu-
flugvöllur fyrir Isaijörð. Þannig má líta á þessa tvo flugvelli sem eitt flugvallarkerfi, enda
þjóna þeir sama markaðssvæði, sem er tengt saman með Vestfjarðagöngunum. Alls munu
þessar framkvæmdir kosta um 60 milljónir króna.
A Húsavík var á árinu 1998 ráðist í byggingu tækjageymslu og var henni lokið í júní
1999. Heildarkostnaður við þetta verk var um 30 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að hefja
enn einn áfanga í endurbyggingu flugstöðvarinnar á Akureyri haustið 1999. Um er að ræða
endurnýjun á brottfararsal og öðru rými í suðurhluta gömlu byggingarinnar, sem er loka-
áfangi í endumýjun á aðstöðu fyrir farþega og flugrekendur. Er þá enn eftir að klæða húsið
að utan og endurnýja flugturninn, sem hýsir flugumferðarstjórnina og tæknibúnað tengdan
henni. Stækkun og endurnýjun flugstöðvarinnar á Akureyri hefur nú staðið yfir í átta ár og
er gott dæmi um hvernig takmarkaðir fjármunir knýja menn til að teygja úr verkefnum, sem
æskilegt væri að vinna á mun skemmri tíma.
Sömu sögu er að segja um flugstöðina á Egilsstöðum, en þar hófst sjötti áfangi í endur-
byggingu flugstöðvarinnar á fyrri hluta ársins 1999. Þessi framkvæmd hefur nú staðið yfir
með hléum í tæpan áratug.
Endurbygging Reykjavíkurflugvallar: I lok ársins 1998 ákvað ríkisstjórnin að hefja skyldi
framkvæmdir við endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar á næsta ári. Um er að ræða
framkvæmd, sem skiptist í þrjá áfanga, sem verða unnir á jafnmörgum árum. Hún felst í að
endurnýja báðar aðalflugbrautir vallarins auk þess að endurbyggja hluta af núverandi flug-
hlöðum og gera akstursbraut meðfram norður-suður flugbraut. Þá verða öll flugbrautar- og
aðflugsljós flugvallarins endurnýjuð. Þetta verk er metið á rúmar 1.500 milljónir króna á
verðlagi ársins 1998.
Undirbúningur þessarar framkvæmdar hefur staðið yfir allt frá árinu 1994, þegar
rannsóknir hófust á ástandi flugvallarins. Gerðar hafa verið ítarlegar framkvæmdaráætlanir,
þar sem bornar hafa verið saman mismunandi leiðir til að endurbæta flugvöllinn, m.a. að
leggja malbik yfir núverandi llugbrautir eða endurbyggja þær frá grunni. Eftir vandlega
athugun komust flugmálayfirvöld að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegast væri að endur-
byggja flugbrautirnar, þótt sá kostur sé heldur dýrari en yfirlögn.
Frummat framkvæmdarinnar var lokið í byrjun ársins 1999 og lagt fram til skipu-
lagsstjóra ríkisins í apríl. Jafnframt var deiliskipulag flugvallarins tekið til meðferðar af
skipulagsyfirvöldum borgarinnar á sama tíma. Deiliskipulagið var samþykkt af borgarráði í
júní 1999, en þá hafði frummat framkvæmdarinnar hlotið samþykki skipulagsstjóra.
Meginhluti jarðvinnunnar, þar með talin uppbygging flugbrautanna, var boðinn út á
Evrópska efnahagssvæðinu í maí 1999. Alls bárust átta tilboð í verkið, þar af fjögur frá
innlendum aðilum, þrjú frá íslenskum og erlendum samvinnuaðilum og eitt frá erlendum
verktaka. Istak hf. átti lægsta tilboð í verkið, sem nam 77% af kostnaðaráætlun. Var gengið
frá samningum við verktakann í ágúst, sem hljóðar upp á 1.078 milljónir króna. Gert er ráð
fyrir að hefjast handa haustið 1999 með ýmsum undirbúningsframkvæmdum. Uppbyggingu
austur/vestur flugbrautarinnar hefst síðan vorið 2000 og verður lokið á því ári.