Bændablaðið - 18.12.2007, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 18.12.2007, Blaðsíða 18
Bændablaðið | Þriðjudagur 18. desember 20071 Skriðan í Vaðbrekku Hólaútgáfan hefur á liðnum árum gefið út gamansögur af ýmsum starfsstéttum sem Guðjón Ingi Eiríksson forleggjari hefur safn- að saman. Í ár heitir safnið hins vegar Íslenskar gamansögur I og þar er að finna sögur af ýmsu fólki, ungu sem öldnu, skipt niður í nokkra bálka. Einn bálkurinn heitir Vaðbrekkumenn og segir þar af Aðalsteini Jónssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur og niðjum þeirra, en þeir eru margir þjóðþekktir, svo sem hagyrðingarnir Ragnar Ingi og Hákon Aðalsteinssynir. Síðasta sagan í bálkinum er af ætt- föðurnum sjálfum og er svohljóðandi: Þegar Aðalsteinn á Vaðbrekku var kominn á efri ár var hann ein­hverju sinni sendur suður til Reykjavíkur og lagður þar inn á sjúkrahús. Vistin á sjúkrahúsinu hófst með því, eins og venja er, að tekin var skýrsla af sjúklingnum. Var hann spurður spjörunum úr og meðal annars látinn rekja sjúkrasögu sína og tilgreina eitt og annað sem heilbrigðisstéttum þótti vissara að hafa heimildir um áður en haf­ ist yrði handa við að lækna manninn. Líklega hefur Aðalsteini þótt skýrslutakan heldur tilþrifalítil og eintóna. Svo mikið er víst að þegar þar kom að hjúkrunarkonan spurði hann hvað hann ætti mörg börn leit hann á hana hátíðlegur í bragði og svaraði: „Ég eignaðist tíu börn,“ sagði hann. „Það var reglulega skemmtilegt meðan á því stóð og ég meinti ekki með því annað en gott eitt. Þessi börn mín voru líka bráðskemmtileg, sérstaklega meðan þau voru lítil.“ Hér þagnaði hann augnablik. Það kom fát á hjúkrunarkonuna við þetta óvænta inngrip gamla mannsins og hún var ekki alveg viss um hvernig hún ætti að halda áfram. En það var bara alls ekki komið að henni. Aðalsteinn hafði ekki lokið máli sínu: „Þá óraði mig ekki fyrir því hvaða afleiðingar þetta átti eftir að hafa,“ sagði hann. „En svo fór allt af stað. Fyrr en varði fóru þessi börn mín að eiga börn í öllum landshlutum, jafnvel í útlöndum, og ég er löngu búinn að missa tölu á barnabörnunum.“ Hann leit alvarlegur framan í hjúkrunarkonuna, sem horfði á hann stóreyg og opinmynnt, og hélt áfram: „En þetta er nú ekkert hjá öðru meira. Hvað heldurðu að hafi gerst næst? Nú eru þessi barnabörn mín farin að hlaða niður börnum, út um allt.“ Hér reis Aðalsteinn upp við dogg og hvessti augun á viðmælanda sinn: „Og ég get alveg látið þig vita það,“ lauk hann máli sínu, „að ég er ekki orðinn neitt sérlega hress með það að hafa hleypt þessari skriðu af stað.“ Þórunn Sveinbjarnardóttir um- hverfisráðherra sagði á Alþingi í svarræðu sinni við fyrirspurn frá Siv Friðleifsdóttur um kort- lagningu vegarslóða á hálendinu að Landmælingar Íslands hefðu unnið að því í samvinnu við Vegagerð ríkisins í þónokkur ár að kortleggja vegarslóða í land- inu. Þetta væri auðvitað gríð- arlega stórt verkefni en vinnunni hefði miðað nokkuð vel áfram. Í upphafi þessa árs höfðu um 22 þúsund kílómetrar verið mældir og settir inn á landupplýsinga- kerfi stofnunarinnar og núna í nóvembermánuði eru kílómetr- arnir orðnir 25 þúsund. ,,Landmælingar Íslands gerðu fyrr á þessu ári samning við Ferðaklúbbinn 4x4 um að GPS­ mæla fleiri slóða og fá aðgang að gögnum sem félagar ferðaklúbbs­ ins höfðu aflað í gegnum tíðina. Þar með bættust við 4 þúsund kílómetrar í þennan gagnagrunn. Nú er svo komið að vegslóðar á hálendinu og Suðvesturlandi hafa nánast allir verið kortlagðir. Aðrir hlutar landsins eru langt komn­ ir og talið er að enn eigi eftir að kortleggja einhver þúsund kíló­ metra til viðbótar,“ sagði Þórunn. Hún sagði að eins og fram hefði komið væri kortlagning forsenda þess að hægt yrði með markviss­ um hætti að taka á því alvarlega vandamáli sem utanvegaakst­ ur væri. Þeir slóðar sem nú hafa verið kortlagðir verða flokkaðir og skilgreindir og ákvörðun tekin um hverjum eigi að loka fyrir umferð og hverjir geti verið opnir tímabundið eða eftir atvikum eins og færð um þá leyfir. Þessi vinna þarf að fara fram í samráði við heimamenn með hliðsjón af land­ nýtingu svæðisins, náttúruvernd og útivist. „Miðhálendið er það svæði sem við viljum einblína á og ljúka fyrst vinnu við. Það þarf að gefa út kort og fræða almenning um hvaða vegir séu opnir og hverjir ekki og merkja þá skilmerkilega. Hins vegar er rétt að árétta að allur akstur utan vega er bannaður samkvæmt lögum. Á því leikur ekki vafi. Óvissan er hins vegar um það hvað sé vegur og hvað sé ekki vegur, hvað sé slóði og hvað sé ekki slóði. Akstur manna á slóðum utan almennra vega er á þeirra eigin ábyrgð. Slóðar geta orðið til vegna utanvegaaksturs eins farartækis og þótt ekki sé til heildstætt kort yfir flokkaða vegi enn þá þýðir það ekki að heim­ ilt sé að aka eftir slóðum eða hjólförum utan skilgreindra vega þar til kortlagningunni er lokið. Hugsanleg lokun slóða í framtíð­ inni með merkingum þýðir heldur ekki að aðrir ómerktir slóðar séu leyfilegir til aksturs. Tilgangur vinnunnar fram undan er að eyða vafa um hvar sé heimilt að aka og hvar vegir í náttúru landsins liggja og að vafaatriðin verði túlkuð náttúrunni í hag,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir. S.dór Nánast allir vegarslóðar á hálendinu og Suðvesturlandi hafa verið kortlagðir Út er kominn fróðlegur mynd- diskur fyrir alla unnendur íslenska hestsins. Um er að ræða verkefni sem Félag hrossabænda hefur unnið að undanfarin tvö ár og verður framhaldið. Þetta er mynd sem sýnir efsta dómstig kynbótahrossa fyrir hæfileika á myndrænan og aðgengilegan hátt. Myndin er þrískipt: Í fyrsta hluta birtist dómstigið sem texti á skján­ um. Þar er því lýst hvernig sýning á kynbótahrossi þarf að vera útfærð til að ná 9,5 – 10 í einkunn fyrir einhvern þeirra níu hæfileikaþátta sem dæmdir eru. Því næst birtast myndir af kynbótahrossum í sýn­ ingu þar sem áðurnefndur texti er lesinn og áhorfandinn getur skoðað hross sem hlotið hafa þessar tölur fyrir mismunandi hæfileikaþætti. Þessi hluti er 20 mínútur að lengd. Í öðrum hluta eru öll hross sem komu fyrir í fyrsta hluta sýnd á öllum gangtegundum og hæfi­ leikaeinkunnir þeirra brenndar inn á myndina, þannig að áhorf­ andinn getur farið yfir þá dóma sem umrædd hross fengu þegar þeim gekk best á Landsmótum. Á þennan hátt gefst áhorfandanum tækifæri til að meta eigin hæfileika sem brekkudómari samanborið við þá dóma sem hrossin hlutu í raun. Annar hluti er tæpar 90 mínútur að lengd. Síðasti hlutinn er svo stemn­ ings myndband með léttri tónlist og myndum af öllum þeim hross­ um sem fengu 9,5­10 á Landsmóti 2006 á Vindheimamelum. Þessi hluti er sjö mínútur. Myndin kemur út á íslensku og ensku og fæst í öllum hesta­ vöruverslunum og hlýtur þessi “Biblía brekkudómarans” að rata í jólapakka marga hestamanna um þessi jólin. Myndin er framleidd af Plús film í stjórn Sveins M. Sveinssonar og í samráði við Félag hrossabænda. HGG Félag hrossabænda og Plús film gefa út mynddisk: Ræktunarmarkmið á DVD diski Því var fagnað í samkomuhús- inu Héðinsminni í Akrahreppi í byrjun desember að fjórða bindi af Byggðasögu Skagafjarðar er komið út. Þetta bindi fjallar ein- mitt um Akrahrepp og er umfjöll- un um 96 býli í hreppnum og auk þess talsvert af fornbýlum. Einnig er litmynd af hverjum bæ og af núverandi ábúendum og ábúenda tal sem nær aftur til 1781. Gríðarlegur fróðleikur er í bók­ inni enda er hún sú umfangsmesta í þessari útgáfu til þessa,telur 567 blaðsíður og í henni eru yfir 800 myndir, kort og teikningar. Á samkomunni sem hreppsnefn Akrahrepps gekkst fyrir var lesið upp úr bókinni og ennfremur ,hljóð­ færaleikur,kórsöngur og ljóðalestur á dagskrá. ÖÞ Fjórða bindi Byggðasögu Skagafjarðar komið út Á myndinni eru Agnar H. Gunnarsson oddviti Akra- hrepps tv. og Hjalti Pálsson ritstjóri Byggðasögunnar með bókina. Jón Sigurðsson tv. bóndi á Stóru-Ökrum II keypti fyrsta eintakið af Byggðasögunni á útgáfufagnaði í Blönduhlíðinni á dögunum en Kári Gunnnarsson frá Flatartungu t.h. sá um að selja bókina. Fjölmenni fylgdist með dagskránni sem haldin var í samkomuhúsinu Héðinsminni í Akrahreppi. Myndir ÖÞ Nýlega var hafist handa við smíði tæplega 500 fermetra reið- skemmu, stálgrindarhúss, við Kaplaskjól á Grenivík en það er Hestamannafélagið Þráinn sem stendur fyrir því. Félagið sóttu um lóð fyrir reið­ skemmuna fyrir um ári, í nóvember 2006. Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir reiðvelli á lóðinni sem um var sótt og fór því í kjölfarið í gang mikið skipulagsferli sem lauk nú í haust. Nú er gert ráð fyrir þremur hesthúsum og reiðskemmu á svæðinu í stað reiðvallar. Reiðskemman mun eflaust verða mikil lyftistöng fyrir alla hestamennsku á svæðinu. Fyrir skömmu hófst einnig vinna við fram­ lengingu reiðvegar í Höfðanum. Í fyrrasumar var vígður nýr reiðvegur í hreppnum. Hann liggur austan í Höfðanum, frá Ósbrú að hesthúsahverfinu á Grenivík. Nú er haldið áfram frá hesthúsahverf­ inu, norður eftir Höfðanum og upp á Skælu. Framlenging reiðvegarins er kærkomin fyrir hestamenn sem og íbúa Grenivíkur því með til­ komu vegarins mun stórlega draga úr umferð ríðandi fólks um Víkina. Hafist handa við byggingu reiðskemmu á Grenivík Mikil lyftistöng fyrir reiðmennskuna á svæðinu

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.