Bændablaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | fimmtudagur 27. ágúst 2009 Hann er handhafi menningar- verðlauna Norrænu bændasam- takanna, NBC, á þessu ári en sjálfur er hann afar hógvær um verk sín þó að málverkin og ljósmyndirnar standist verk- um margra fagmanna snúning. Jón Eiríksson, bóndi á Búrfelli í Miðfirði í Húnaþingi vestra, ræðir hér meðal annars um hunda myndir, heimspeki og ham ingjuna. Jón tekur á móti blaðamanni Bændablaðsins á hlaðinu í Búrfelli, við gamla vélaskemmu sem hafin er mikil tiltekt í því þar hyggst Jón gera sér vinnuaðstöðu og opna gallerí fyrir myndir sínar í nánustu framtíð. Það verður mikil umbylt- ing fyrir Jón því að herbergið sem hann málar í nú er um átta fermetr- ar að stærð, staðsett í fjósinu og ætlað varahlutum, en sjálft aðal- vinnurýmið sem hann hefur er ekki nema um fjórir fermetrar að stærð. Þetta er því sennilega með minnstu vinnustofum landsins. „Eitt sinn sagði við mig maður í gríni að ég þyrfti nú að fara að koma út úr skápnum. Jafnframt sagði útlendingur, sem kom hér eitt sinn, að taka þyrfti vinnuherbergið og varðveita það eins og það er því það væri sjálft listaverkið! Annars skissa ég inni í íbúðarhúsi og á auðvelt með að fá hugmyndir. Ég fyllti til að mynda tvær skissubæk- ur á dögunum af hundum og ætlaði upphaflega að gera 101 mynd en það breyttist þó fljótt. Það er svo margt eitthvað 101, eins og 101 Reykjavík og 101 dalmatíuhundur svo mér fannst það of klisjukennt,“ segir Jón brosandi en hann stefnir á að selja allar hundamyndirnar sem eina heild, eitt stórt listaverk. Heldur manni á jörðinni Jón er fæddur og uppalinn í ná- grenni Nóbelsskáldsins, að Selholti í Mosfellssveit, en móðuramma hans og afi voru í næsta nágrenni á bænum Seljabrekku. Hann var á sjöunda ári þegar hann kom að Búrfelli. „Ættfólk mitt hefur búið lengi hérna og ég er fjórði ættliður í föðurætt sem býr hér. Ég stundaði reyndar ýmis störf eftir háskóla- nám; var handlangari um tíma, vann í fiski, var ráðunautur og kennari en síðan skellti ég mér í búskap- inn. Fyrstu árin rak ég hér félagsbú með foreldrum mínum sem eru nú látin. Það er mjög skemmtilegt að vera bóndi þótt kaupið sé lágt, það er að segja tímakaupið. Þetta heldur manni á jörðinni og tengd- um við árstíðir og taktinn í lífinu; það fæðist lamb einn daginn en þann næsta þarf maður kannski að fella hest. Þetta er vinna með skepnur og landsins gæði sem er alltaf fjölbreytt. Maður þarf oft að reyna á sig og kemur þreyttur heim á kvöldin. Líf mannsins er svo stutt að það skiptir ekki máli hvað hann gerir í stóru samhengi. Það háir manninum hvað hann hugsar stutt. Síðan heldur maður að maður sé smá Bjartur í Sumarhúsum og að maður ráði alveg yfir sér þó að kerfið fylgist með manni vökulum augum,“ segir Jón glottandi. En ertu svolítill heimspekingur í þér? „Ég held að það sé heimspeki í mörgum bændum en ég er í listinni líka og þetta tengist. Það er ágætt að hafa örlitla sýniþörf en á móti er ég rólegur þó að myndirnar mínar seljist ekki. Hin hliðin á mér er að ég hef alltaf verið mjög pólitískur. Mér finnst að maður eigi að tala um samfélagið, rækta lýðræðið og hafa skoðanir á því sem gerist í því á hverjum tíma.“ Á haug af skissubókum Jón býr myndarbúi að Búrfelli með konu sinni, Sigurbjörgu Geirsdótt- ur, þremur börnum þeirra og einu barnabarni. Þau eru með um 100 nautgripi í mjólkur- og kjötfram- leiðslu, um 250 fjár á vetrarfóðr- um og slatta af hrossum og þótt búskapurinn taki mikinn tíma hjá Jóni, getur hann alltaf gefið sér tíma til að sinna listinni. „Ég gekk í gegnum barna- og héraðsskóla en þar er aldrei neitt kennt um myndlist, ekki einu sinni að nota blýant til teikning- ar. Litirnir eru eitthvert prógramm í hausnum á mér og þjálfun. Þetta byggist á ástríðunni að gera hluti og framkvæma, það er eins og með allt í lífinu, það snýst um hvað maður gerir, ekki hvað maður ætlar að gera. Þetta er mikið hugmyndir tengdar orðum hjá mér. Ég á haug af skissubókum um allt mögulegt svo að ef það slokknar einhvern tíma á hugmyndabankanum þá er nóg til. Ég hef átt ýmis tímabil í myndlistinni eins og fuglatímabil og svo kúatímabil og sem dæmi gerði ég eitt sinn portrettmynd af Halldóri Laxness sem ég gæti verið búinn að selja nokkrum sinnum,“ útskýrir Jón. Jón hefur aldrei lært mynd- list en að eigin sögn ætlaði hann að verða vísindamaður og tók BS-próf til búfræðikandídatsgráðu á Hvanneyri. Hann var þar í fimm ár og kláraði árið 1977 en byrjaði að mála fyrir alvöru sex árum síðar. „Ég er afar þakklátur og glaður yfir því að Norrænu bændasamtök- in taki eftir mínum störfum og að ég hljóti menningarverðlaun þeirra að þessu sinni. Það er mér mikil hvatning til áframhaldandi mynd- listar- og ljósmyndastarfs. Ég hef haldið sýningar hér og þar og oft hér í kringum mig, í Staðarskála og á Akureyri. Eitt sinn er ég sýndi landslagsmyndir teiknaðar með pastel á Akureyri fékk ég ritdóm í vikublaðinu Degi sem er mér minnisstæður en fyrirsögnin var „Djassað með pensli“. Það sem rís þó hæst á ferlinum var árið 2004 þegar Landsvirkjun keypti af mér 365 kúamyndir og setti upp sýn- ingu í Blöndustöð. Það var helj- armikil vinna sem Landsvirkjun sá að mestu um, ég þurfti ekki að gera annað en að mæta á opnunina og drekka kampavín.“ Hefur lært í gegnum bækur Jón málaði ekkert sem krakki, held- ur hafði hann meiri áhuga á búskap, sérstaklega hestum, og í dag finnst honum fátt betra en ferðalag á hrossum úti í náttúrunni í góðra vina hópi og þá er myndavélin gjarna með í för. „Ég hef haft áhuga á ljósmynd- un frá því að ég var ungur maður og hef alltaf haft áhuga á myndlist þótt ég hafi ekki ræktað hana fyrr en ég var orðinn fullorðinn. Ég hef lært mikið í gegnum bækur og gott finnst mér að liggja uppi í rúmi og mála, það er ákveðin slökun í því. Ég ferðaðist mikið hér áður og hafði gaman af því en komst svo að því að hamingjan er þar sem maður er. Ég sótti oft í söfn á ferðalögum, sem flestum finnst nú leiðinlegt, held ég. Ég man eitt sinn þegar ég var á listasafni á Spáni og sá mynd- ir eftir Salvador Dalí og Goya, þá var ég alveg gáttaður. Á þeim tíma var ég sjálfur ekki byrjaður að teikna. Eftir að ég uppgötvaði þessa æð var ég að hugsa um á tímabili að fara í myndlistarskóla. Ég hefði örugglega fengið góða þjálfun í skóla í módelteikningu og alls kyns myndlistartækni sem hefði eflaust komið sér vel en varð ekki úr,“ segir Jón og bætir jafnframt við: „En þetta tengist allt og við- fangsefni mín í myndheiminum tengjast náttúrlega bústörfunum; ef ég væri ekki bóndi hefði ég ekki gert þetta. Ég hefði örugglega ekki farið út í kúa- og hundamyndir ef ég væri búinn að sitja í Amsterdam og drekka rauðvín og marínerast þar um árabil. Mér finnst búskap- urinn skemmtilegur og ætli ég sé ekki vinnufíkill eins og flest- ir bændur. Þeir sem læra sjálfir myndlist eru ekki metnir og litið á þá sem amatöra og ég hef lítillega fundið fyrir því. Ég hef ekki beint orðið fyrir fordómum en það er greinileg goggunarröð í listaheim- inum og þeir sem hafa ekki lært lenda á botninum. Í tónlist er þessu ekki svona farið; það sem er gott er gott og látið þar við sitja, og eins er því farið í ljósmyndun.“ Góð mynd er góð mynd Jón lætur sér ekki myndlistina nægja líkt og áður er sagt heldur er hann iðinn við ljósmyndun og þar verða dýrin oftast fyrir valinu. Myndavélin er ávallt með í för, allt árið, og Jón hefur selt margar myndir sínar í ýmis verkefni. „Hamingjan er þar sem maður er“ Jón og barnabarn hans, Rúnar, fara yfir eina af fjölmörgu skissu- bókum listamannsins. Jón í fjögurra fermetra athafnarými sínu á vinnustofunni sem staðsett er í varahlutaherbergi í fjósinu. Þemað hjá Jóni um þessar mundir er hundar í alls kyns líki en hann hefur nú málað yfir 100 slíkar.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.