Bændablaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 32
14. tölublað 2009 Fimmtudagur 27. ágúst Næsta tölublað Bændablaðsins kemur út 10. september Á dögunum héldu Skólagarðar Reykjavíkur árlega uppskeru- hátíð sína en ríflega sexhundruð börn á aldrinum 8 til 12 ára hafa í sumar ræktað sitt eigið græn- meti, kryddjurtir og sumarblóm á vegum skólagarðanna. Ekki þarf að efa að það er búbót í því sem börnin hafa komið heim með færandi hendi. Sjö skólagarðar eru starfræktir í Reykjavík, í Gorvík við Strandveg, Kotmýri við Logafold, í Laugardal við Holtaveg, í Skerjafirði við Þorragötu, Bjarmalandi í Fossvogi, í Jaðarseli og í Árbæ við Rafstöðvarveg. Bændablaðið fór og fylgdist með uppskeruhátíðinni í Bjarmalandi og ræddi jafnframt við Auði Jónsdóttur yfirverkstjóra Skólagarðanna. Duglega rigndi á garðyrkjufólkið þegar blaðamaður mætti á svæðið en enginn lét það á sig fá. Stuttu seinna stytti líka upp og gerði prýðisveður. Mikil ásókn í skólagarðana Auður segir mikla ásókn hafa verið í skólagarðana í sumar. „Það var mik- ill áhugi og mikil ásókn í pláss hjá okkur og því miður tókst okkur ekki að anna allri eftirspurninni. Hvort það tekst næsta sumar er ekki hægt að segja til um á þessari stundu en ég vona það svo sannarlega. Börnin koma til með að búa að þessu alla ævi, að hafa lært að rækta sitt græn- meti hér.“ Skólagarðarnir útvega allt útsæði sem börnin þurfa og fær hvert barn átján fermetra garðpláss til sinna nota. Mikil fjölbreytni er í rækt- uninni en meðal þess sem börnin rækta eru kartöflur, radísur, kál- plöntur, garðablóðberg og sum- arblóm. Auður segir börnin hafa verið gríðarlega áhugasöm. „Þau eru búin að vera vakin og sofin yfir þessu. Sumarið hefur verið þurrt og börnin hafa hlaupið hér ferð í ferð með vökvunarkönnur og hafa gætt þessa eins og sjáaldurs augna sinna. Foreldrar hafa líka verið mjög duglegir að koma með börn- unum sínum og sinna þessu með þeim.“ Bændablaðið óskar börnunum hjá Skólagörðunum til hamingju með afrakstur sumarins. -fr Uppskeruhátíð Skólagarða Reykjavíkur Garðyrkjufólk framtíðarinnar lét ekki rigningu á sig fá Frú Lauga opnaði dyrnar að bændamarkaði sínum við Laugalæk 6 þann 7. ágúst sl. Frú Lauga er heiti sem þau Arnar Bjarnason og Rakel Halldórsdóttir hafa gefið verslun sinni, eða markaði, þar sem ætl- unin er að bjóða upp á búvöru, vín og sjávarafurðir sem borgar- búum hefur oft reynst örðugt að nálgast. Árstíðabundnar gæðavörur Arnar segir að hugmyndin hafi verið að komast í gott samband við framleiðendur með það í huga að geta boðið upp á ferskar og góðar vörur – með sérstaka áherslu vörur sem ekki sjást í hillum stórmark- aða. Hann segir að þau hafi farið hringferð um landið í sumar til að kynnast bændum og búvöru þeirra og almennt hafi þeim verið vel tekið. „Upplifun heimsókna var mjög jákvæð og greinilegt að margir bændur eru að byrjað eða eru með á prjónum ýmsa spenn- andi hluti, með endurvakningu gamalla hefða og nýjar hugmyndir. Grænmeti er í forgrunni hjá okkur í sumar, en með haustinu fáum við ýmsar vörur frá bændum sem þeir hafa annars verið að selja ferða- mönnum. Síðan koma berin, allar kjötafurðirnar sem tengjast slátur- tíð og auðvitað villibráðin. Hann segir mikilvægt að gott og traust samband myndist á milli framleið- enda, Frú Laugu og neytendanna. „Traust skiptir öllu máli varðandi gæði vöru og upplýsingar.“ Frú Lauga á rætur að rekja til fyr- irtækisins Víns og matar, sem þau Arnar og Rakel stofnuðu árið 2003 með innflutning á víni, ólífuolíu, hunangi, ediki ofl. að markmiði. „Eitthvert horn verður í búðinni með þá vöru og gefst fólki t.a.m. kostur á að smakka Vín vikunn- ar síðdegis á föstudögum.“ Arnar segir að þau hafi enn ekki farið út í neina framleiðslu sjálf en þau séu opin fyrir hugsanlegu samstarfi við bændur og fagmenn til þess að það geti hugsanlega gerst. Arnar segir að viðtökur borgar- búa hafi verið afar góðar og nóg verið að gera, en markaðurinn er opinn miðvikudaga og fimmtu- daga 12-18, föstudaga 12-19 og laugardaga 10-18. Frekari upplýs- ingar um vöruúrval er að finna á vef Frú Laugu, www.frulauga.is, auk þess sem þar er að finna upp- skriftir og fróðleik um vörurnar og matvælin sem eru í boði. - smh Frú Lauga við Laugalæk Bændamarkaður í borg

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.