Bændablaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 13

Bændablaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 13
13 Bændablaðið | fimmtudagur 27. ágúst 2009 „Ég hef selt margar mynda minna af hrossum í almanök og bæklinga og bækur um hross. Ég fer hér í kring og mynda og þegar ég einblíni á hesta finnst mér ég oft ná góðum augnablikum í grað- hestahólfum. Ég er með nokkrar myndavélar og er alltaf með eina í traktornum með mér ef tveir hestar skyldu nú prjóna og bera við himin í fallegu sólarlagi. Þetta snýst allt um rétta árstíð og birtu; sem dæmi er hreint sauðfé sem er bústið og fallegt eftir sumarið nær öruggt og gott myndefni. En ég er ekki enn orðinn stafrænn og það helgast nú helst af því að hér er ekki almenni- legt tölvusamband og það yrði mér líka dýrt að fara yfir í stafræna tækni varðandi tækjakost, þá þyrfti ég að fá mér almennilega tölvu og dýra myndavél svo ég læt mér nægja það sem ég hef,“ segir Jón sem fékk brautargengi fyrir myndir sínar í Búnaðarblaðinu Frey: „Góð mynd er góð mynd og ég geri þetta af ástríðu. Ég byrjaði að selja myndir eftir að ég sendi inn nokkrar myndir í Búnaðarblaðið Frey og svo í dýraveggspjöld- in sem Bændasamtökin gefa út. Það er kostur fyrir mig að ég veit hvernig á að umgangast dýrin og get stokkið út á hlað þegar góð er birtan og tekið myndir við ákjósan- legar aðstæður. Það hjálpar mér en það er þónokkur vinna að taka góðar myndir af húsdýrum og eins getur það tekið mikinn tíma að taka fallegar sólarlagsmyndir. Stundum hef ég farið út kvöld eftir kvöld til að ná rétta sólarlagsaugnablikinu. Það er ákveðinn veiðiáhugi í þess- ari ástríðu, held ég, en veiðimenn og bændur eru miklir náttúruvernd- arsinnar.“ Komumst yfir þessi vandræði Um tíma var Jón virkur í félags- störfum bænda, var í forsvari fyrir kúabændur í sínu héraði (V-Hún.), sat í nautgriparæktarnefnd og stjórn RALA í um tíu ár, en þá fannst honum nóg komið og sagði skilið við þátttöku sína í félagsstörfum. „Mér fannst það mjög spenn- andi að mörgu leyti að vera í stjórn stofnunar og ég styð alla þá sem fara í félagsstörfin, það gefur manni aðra sýn. En ég var einhvern veginn allt í einu búinn að fá nóg og nennti ekki lengur að sitja inni við á fundum tímunum saman,“ útskýrir Jón og talið berst að Evrópusambandinu og þeirri vinnu sem fram undan er í átt til þess hvort Ísland fái inngöngu í Brussel eður ei: „Það er mikið bull í gangi varð- andi Evrópusambandsumræðuna og kreppuna. Ég öfunda þá ekki sem eru í hreinsunarstarfinu varð- andi það. Íslendingar munu lifa á fiski, landbúnaði, orku og ferða- mennsku en það þarf að sannfæra mig um það að ESB hjálpi þess- um atvinnugreinum. Ég hef ekki áhyggjur til langs tíma, það er allt til hér sem við þurfum að lifa á og ég hef trú á því að við komumst yfir þessi vandræði. Ég trúi ekki fyrr en búið er að sannfæra mig um að við getum lifað á einhverjum ESB-pakka að þessi aðild borgi sig. Ég, sem er með blandaðan búskap, sé ekki hamingjuna núna í því að fara þarna inn en ég útiloka held- ur ekki neitt. Ef við komumst inn spyr ég mig hvað þetta bandalag eigi að verða stórt og hver þróun þess verður um ókomna tíð en það er sennilega ekki hægt að svara því. Þessi myntvandi stillir okkur sem þjóð því miður rækilega upp við vegg.“ Skuldlausir sofa ágætlega Líkt og áður sagði er Jón pólitískur maður að eðlisfari og hefur skoð- anir á þjóðmálunum og skautar þar ekki fram hjá efnahagskreppunni sem nú ríður yfir. „Það var verið að ræna spari- sjóðina innan frá og mér ofbauð þetta svo að ég setti mig í samband við Fjármálaeftirlitið, umboðs- mann Alþingis og fjölmiðla þegar sparisjóðurinn á Hvammstanga (þáverandi viðskiptabanki minn) varð fyrir græðgisvæðingunni. Það er skemmst frá því að segja að við- brögðin voru algjört sinnuleysi. Jú, ég gæti fengið mér lögfræðing en þetta væri alls staðar svona á hinu frjálsa markaðstorgi nútímans, ég væri með gamaldags hugsun um réttlæti og félagslega sameign. Þegar húsið er brunnið er nefnilega of seint að hringja í slökkviliðið. Fyrir kosningarnar síðast sagði ég stjórnmálamönnum hér að við þyrftum gott vegakerfi, nútíma tölvusamband, aðgang að heið- arlegu, þolinmóðu fjármagni með kristilegum vöxtum og láta okkur svo í friði. Ég veit ekki hvort þetta náði eyrum einhverra þeirra en ég vona það. Hér áður fyrr var hægt að fara í sparisjóðinn, kaupfélagið eða Stofnlánadeild landbúnaðarins til að fá lán en nú er enginn af þessum möguleikum fyrir hendi,“ segir Jón og bætir við: „Það finna allir fyrir þessari kreppu sem reka bú í dag, verðlag- ið hefur hækkað mikið en afkom- an að sama skapi ekki á móti. Eitt kjánaprik (innfluttur girðing- arstaur) kostar til dæmis orðið fast að 500 krónum stykkið! Það hægir á öllu, maður finnur fyrir því. En ég er svo gamaldags að ég hlust- aði ekki á ráðgjafa sem rómuðu myntkörfulánin og við sem skuld- um ekki sofum ágætlega í þessu ástandi. Það er merkilegt með þetta hrun að allt gáfaðasta fólkið í við- skiptaheiminum hafði búið til þetta vestræna frjálshyggjumódel en svo hrundi það. Ég er viss um að skúr- ingakonan í Seðlabankanum hefði fattað hrunið löngu áður en það kom og gert eitthvað í því ef hún hefði verið sett inn í þau mál.“ Lífið snýst um vinnu Af ofansögðu fer ekki milli mála að þjóðmálin eru Jóni hugleikin og talar hann um þau af álíka mik- illi ástríðu og listina. En honum er einnig hugleikið að heimurinn starfi saman sem ein heild til betr- umbóta í umhverfisfræðilegu sjón- armiði. „Varðandi umhverfismálin þarf heimsbyggðin að vakna og heimurinn sem heild verður að bera ábyrgð. Hvaða vit er í því að flytja salatblað frá Kaliforníu með júmbóþotu til Evrópu og þaðan til Keflavíkur þar sem það er flutt með flutningabíl í verslun og neyt- andinn hendir því svo kannski á endanum í ruslið á meðan íslensk- ir garðyrkjubændur borga of hátt verð fyrir raforkuna í þessu mikla og ríka orkulandi? Hvað kostar það fyrir umhverfið að æða með vöru fram og til baka? Það hefur að minnsta kosti ekkert með frjáls við- skipti að gera og þessu verður að breyta nú þegar,“ segir Jón ábúð- arfullur á svip. Listamaðurinn og bóndinn Jón Eiríksson nær að samhæfa marga ólíka þætti sem fáir geta leikið eftir og aðspurður um mikilvægi vinnu sinnar kemst hann, sem áður, afar vel að orði: „Mér finnst allt sem maður gerir jafn merkilegt og mikilvægt, hvort sem það er að moka skít eða mála fallegt portrett af hundi. Vinna er það sem lífið snýst um, svo kemst maður í langa fríið, það vitum við jú öll.“ ehg Ljósmyndir Jóns Eiríkssonar eru lesendum Bændablaðsins vel kunnar en Bændasamtökin varðveita myndasafn hans. Gott næmi fyrir myndefni, hárréttar tímasetningar og haganlegt samspil ljóss og skugga eru meðal ein- kenna ljósmyndarans. Mynd: Jón Eiríksson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.