Bændablaðið - 09.08.2012, Qupperneq 8

Bændablaðið - 09.08.2012, Qupperneq 8
Bændablaðið | Fimmtudagur 9. ágúst 20128 Von er á 28 skiptinemum á vegum skiptinemasamtakanna AFS hing- að til lands nú í ágúst og munu þeir dvelja á Íslandi næstu 10 mánuði eða fram í júní á næsta ári. Um helmingur skiptinemanna dvelur á höfuðborgarsvæðinu og hinn helmingurinn á landsbyggðinni og dreifast þeir vítt og breitt um landið. Skiptinemarnir eru frá 15 þjóðlöndum og á aldrinum 15 til 19 ára. Sólveig Ása B. Tryggvadóttir, deildarstjóri erlendra nema hjá AFS á Íslandi, segir að á vegum samtakanna sé nú unnið að því að endurvekja þann sið sem eitt sinn var að skiptinemar sem hingað koma fái tækifæri til að dvelja á sveitabæ og taka þátt í hefðbundnum landbúnaðarstörfum. „Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá skiptinema sem dvelja í höfuðborginni,“ segir Sólveig. Sveitadvöl var áður hluti af Íslandsdvöl skiptinemanna, þeir fóru gjarnan á sveitabæ í viku að vori og tóku þátt í störfum með bændum, gjarnan við sauðburð. Sólveig segir að þeir bændur sem áhuga hafa á að fá skiptinema í heimsókn til sín næsta vor megi gjarnan hafa samband við AFS skiptinemasamtökin á Íslandi. Tengsl við náttúru og dýr „Þetta var mjög vinsælt og skiptinem- unum þóttu þessar ferðir bæði góðar og gefandi, þeir lögðu fram sína vinnukrafta og tóku þátt í ýmsum störfum heima á bænum,“ segir hún. „Þeir fengu þannig tækifæri til að vera í nánum tengslum við náttúruna og dýrin og það var sérstaklega mikil- vægt fyrir þau ungmenni sem áttu sitt heimili í höfuðborginni.“ AFS skiptanemasamtökin á Íslandi eru alþjóðleg fræðslusamtök sem hafa sent íslensk ungmenni utan til skiptinemadvalar síðastliðin 52 ár. Að sama skapi hafa samtökin skapað vettvang fyrir erlenda skiptinema til að dvelja hér á landi í 10 mánuði í senn. Mikil reynsla og þekking hefur skapast innan samtakanna eftir ríflega hálfrar aldar starfsemi. AFS-samtökin eru starfrækt í yfir 50 löndum víðs vegar um heiminn en hingað til lands koma árlega 35 til 40 ungmenni, 15 til 19 ára gömul, og dvelja að jafnaði í 10 mánuði í senn. Kynnast landi og þjóð Sólveig segir að fyrst og fremst sé það áhugi á Íslandi, íslenskri menningu og tungu sem fái ungmennin til að yfirgefa heimahagana og kynna sér siði og venjur Íslendinga. „Markmið dvalarinnar er að kynnast landi og þjóð og hápunkturinn er svo auð- vitað þegar þessir krakkar hafa til- einkað sér menningu okkar og renna saman við innfædda,“ segir hún. /MÞÞ Skrá yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins Bændablaðið hefur áður sagt frá verkefninu Eyðibýli á Íslandi sem gengur út á að skrásetja og taka saman yfirlit um öll yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins. Hópur ungs fólks hefur unnið að því í tvö sumur að viða að upplýsingum en í fyrra kom út skýrsla með býlum á Suður- og Suðausturlandi. Í ár er kastljósinu beint að Vesturlandi og Norðausturlandi en hægt er að fylgjast með starfinu í Facebookhópnum „Eyðibýli á Íslandi“. Að sögn Steinunnar Eikar Egilsdóttur, verkefnisstjóra Eyðibýla á Íslandi, er stór hluti af þeim húsum sem eru skrásett yfirgefin hús á jörðum sem enn er búið á og eru í fullum búnytjum. Það sé því ekki svo að öll hús sem gert er grein fyrir í verkefninu séu á eyðibýlum eins og nafnið gefur til kynna. Meðfylgjandi mynd er af húsi á jörðinni Hlíðarhaga í Eyjafjarðarsveit. Hrúturinn Gráskeggur stendur þarna við forláta bíla af gerðunum Skoda Octavia og Dodge Desoto en sá fyrrnefndi ku vera gangfær. Í eldheitum umræðum á Facebook, þar sem þessi mynd birtist nýlega, kemur fram að hvorki bílarnir, húsið né hrúturinn séu til sölu! Verkefnið hefur hins vegar kveikt margar hugmyndir og án efa líta margir hýru auga á gamlar perlur til sveita – hvort sem um er að ræða bíla eða býli. /TB Fréttir Yfir 100 rósaáhugamenn frá Norðurlöndum voru staddir á Íslandi helgina 27.-29. júlí til að halda upp á Norrænu rósahelgina. Norræna rósafélagið verður 40 ára á næsta ári og var stofnað af rósafélögum í Danmörku, Svíþjóð, og Noregi. Finnska rósafélagið gerðist aðili um 20 árum síðar en Rósaklúbbur Garðyrkjufélags Íslands tók fyrst þátt í samstarfinu árið 2006. Rósahelgin er haldin annað hvert ár og fylgir formennska í Norræna rósafélaginu undirbúningi hennar. Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélags Íslands, er nú formað- ur félagsins en Samson B. Harðarson er formaður Rósaklúbbsins. Á ráðstefnu var sagt frá niður- stöðum af skipulegri leit í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi að gömlum og harðgerðum rósayrkjum sem vaxa villt og hafa orðið til fyrir náttúrlega víxlun milli tegunda eða fundist í gömlum og gleymdum görðum fyrri alda. Nokkur slík yrki hafa verið reynd hér á landi með góðum árangri. Þekktur danskur rósaframleiðandi, Knud Pedersen frá fyrirtækinu Rosenposten, sagði frá söfnun sinni á þyrnirósayrkjum og reynslu af ræktun þeirra, m.a. rósum af íslenskum uppruna. Rætt var á ráðstefnunni hvernig stuðla megi að auknum skiptum milli landanna á slíkum yrkjum sem víkka út mögu- leika á rósarækt við norðlæg skilyrði og hafa auk þess verulegt menn- ingarsögulegt gildi. Íslendingar búa við jaðarskilyrði til ræktunar rósa og ávaxtatrjáa og ættu að hafa mikið gagn af samstarfi á þessu sviði. Þá voru íslenskir rósagarðar skoðaðir. Farið var í Rósagarðinn í Laugardal og tilraunagarð Rósaklúbbsins í Höfðaskógi hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar. /smh Yfir 100 rósaáhuga- menn á Íslandi Von á 28 nýjum skiptinemum til landsins í ágúst Vilja gefa skiptinemum kost á sveitadvöl Hrúturinn Gráskeggur gætir gamalla minja á bænum Hlíðarhaga í Eyja- fjarðarsveit. Ljósmynd: Steinunn Eik Egilsdóttir Nora er frá Sviss og dvaldi hér á landi sem skiptinemi veturinn 2010 til 2011. Skiptinemasamtökin AFS á Íslandi hafa áhuga á að komast í samband við bændur sem myndu vilja hýsa skiptinema í eina viku næsta vor. Vaxandi áhugi fyrir hænsnahaldi í þéttbýli Tíu landnámshænur hafa hreiðrað um sig á Hlíð Vaxandi áhugi virðist vera fyrir því að halda hænur í þéttbýli, sú er að minnsta kosti raunin á Akureyri. Íbúar á dvalarheimilinu Hlíð þar í bæ tóku í notkun við hátíðlega athöfn nýjan hænsna- kofa á dögunum og gáfu honum nafnið Höllin. Íbúarnir halda 10 landnámshænur sem þegar eru farnar að verpa af miklum móð og leggja þannig fram afurðir sínar til heimilisins. Auk þess að halda hænurnar tíu rækta íbú- arnir einnig eigið grænmeti í þar til gerðum beðum og grænmetis- kössum. Stórglæsilegt hænsnahús Mikill áhugi hefur verið meðal íbúa á Hlíð að takast á við þessa nýju búgrein og hafa menn fylgst grannt með gangi mála nú fyrr í sumar þegar verið var að reisa stór- glæsilegt hænsnahús í góðu skjóli milli bygginga. Bygging hænsna- hússins tengist svonefndri Eden- hugmyndafræði sem nýtt er á Hlíð en samkvæmt henni er áhersla lögð á fjölbreytt líf íbúa og að allir finni eitthvað við sitt hæfi. 6 varpkassar og hiti á veturna Vandað var til verka við byggingu Hallarinnar, húsið er einangrað með upphituðu útisvæði og er aðgengi fyrir fólk í hjólastólum gott, bæði utan- sem innandyra. Varpkassarnir eru 6 talsins, geymslusvæði er fyrir varpköggla og hey og yfir vetrar- mánuði er hitapera sett í gang í húsinu. Íbúarnir munu sjálfir sjá um umhirðu og deila með sér verkum Brit Bieltvedt framkvæmdastjóri gat þess við vígslu hússins að lík- lega væri það eitt flottasta hænsna- hús hér á landi. Hún segir að land- námshænurnar muni auðga líf íbúa, starfsfólks og gesta. Íbúarnir munu sjálfir sjá um umhirðu og deila þeir með sér verkum, hver deild innan heimilisins sér um eina viku í senn, safnar saman matarafgöngum, fóðrar hænurnar og hirðir eggin. Þau eru svo nýtt inni á heimilinu. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja lagði hönd á plóginn Sérstakir hvatamenn hænsnahússins eru Jóhann Thorarensen og Sigurvin Jónsson, betur þekktur sem uppi- standarinn Fíllinn. Auk þeirra hefur fjöldi fólks, fyrirtækja og samtaka komið að byggingu hússins og gefið efni og/eða vinnu sína. /MÞÞ Sérstakur umsjónarmaður og þar af leiðandi kóngur Hallarinnar er Sigurður Sigmarsson, kenndur við kjörbúðina Alaska sem starfrækt var á Akureyri á árum áður. Hér er hann að fóðra hænurnar á brauði. Glæsilegir gróðurkassar hafa verið útbúnir við Hlíð þar sem ræktað hefur verið í allt sumar. Brit Bieltvedt framkvæmdastjóri Hlíðar vonast til þess að landnáms- Fjóla er kampakát með afrakstur dagsins, 6 egg, en heimilismenn í þessum nýja búrekstri. Englandsferð fyrir ullaráhugafólk Eins og alþjóð veit hefur áhugi á ullarvörum og prjónaskap stóraukist á síðustu árum. Nú fréttist af erlendum ferðamönnum sem koma hingað gagngert til að kynna sér ullina og íslenskt handverk. En íslensku handverksfólki stendur líka til boða að heimsækja útlönd til að sækja sér fróðleik því fyrirtækin Culture & Craft og Iceland Traveller bjóða nú upp á pakkaferð á Festival of Knitting UNRAVEL sem er haldin í Farnham á Suður-Englandi laugardaginn 23. og sunnudaginn 24. febrúar 2013. Á hátíðinni má sjá ullarframleiðendur sem vinna ullina ýmist í höndum eða með vélum. Hönnuðir og handverksfólk sýna og selja eigið handverk en bæði stórir sem smáir framleiðendur koma saman á hátíðinni, selja framleiðslu sína og bjóða upp á sýnikennslu. Á sunnudeginum gefst tækifæri til að skoða búgarð með alpaca-sauðfé og kynnast ræktunaraðferðum, meðferð ullarinnar og fleiru. Nánari upplýsingar um ferðina má nálgast á www.cultureandcraft.com og á www. facebook.com/CultureAndCraft.ehf.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.