Bændablaðið - 29.03.2012, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 29.03.2012, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | fimmtudagur 29. mars 2012 Fátt er vinsælla umfjöllunarefni á Íslandi en veðrið. Páskahret er nokkuð sem afar margir ganga út frá sem ófrávíkjanlegri staðreynd, þó páskar falli aldrei á nákvæm- lega sama tíma frá ári til árs. Um miðjan mars kom smááhlaup sem ýmsir hafa verið að vona að túlka mætti sem snemmbúið páskahret og þar með sé óhætt að fara að fagna vorinu. Þó páskahretin eigi sér djúpar rætur í þjóðarsálinni er samt staðreynd að ekkert alvöru hret hefur komið um páska síðan 1996, samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands. Frægasta páskaveðrið var í dymbilviku 1963 og er það stund- um nefnt Hákonarhret eftir Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra en miklar skemmdir urðu á trjágróðri í veðrinu. Veðrið skall skyndilega á eftir miðjan dag á þriðjudegi, 9. apríl, með hörkufrosti og stormi eftir óvenjumilda tíð. Miklir mannskaðar urðu í hretinu, 18 menn fórust á sjó og fádæma skemmdir urðu á gróðri. Síðast varð manntjón af völd- um páskaveðurs 1994. Þá hafði snjóað mikið á Vestfjörðum annan dag páska 4. apríl. Á aðfaranótt þriðjudags 5. apríl, brustu snjóalög í fjallinu fyrir ofan Seljalandsdal, gamla skíðasvæði Ísfirðinga þar sem þúsundir manna höfðu verið á skíðum rúmum sólarhring áður. Varð af mikið flóð sem eyðilagði skíðamannvirki og rann fram af brún dalsins og niður í Tungudal. Fór það yfir og eyðilagði stærstan hluta sumarhúsabyggðar Ísfirðinga. Einn maður fórst í flóðinu en þrír aðrir einstaklingar, sem voru í húsum sem flóðið skall á, komust af við illan leik. Víðar varð þá tjón af snjóflóðum. 2011 var tiltölulega hlýtt þrátt fyrir kuldakast í fyrravor Árið 2011 var í heild hlýtt og veður- far þess verður að teljast hagstætt, þó víða væri kvartað yfir kulda langt fram á sumar. Mikið kuldakast um mestallt land síðari hluta maímán- aðar og í byrjun júní spillti þó ásýnd þess að nokkru, samkvæmt yfirliti og útlistun Trausta Jónssonar sér- fræðings í veðurfarsrannsóknum, sem birt eru á vefsíðu Veðurstofu Íslands. Þetta kast kom þó svo seint að afar erfitt er að kalla það páska- hret og var mun vægara suðvestan- lands heldur en í öðrum landshlut- um. Annað snarpt kuldakast gerði fyrri hluta desembermánaðar en olli ekki vandræðum. Óvenjuhlýtt var í apríl og nóvember. Ársmeðalhitinn í Reykjavík var 5,4 stig á síðasta ári. Hiti hefur nú verið yfir meðallagi í Reykjavík 16 ár í röð, 1,1 stig að þessu sinni. Árið var hið átjánda hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga árið 1870. Tíu mánuðir voru ofan meðal- lags í Reykjavík en tveir undir því, nóvember var hlýjastur að tiltölu en þá var hiti meira en 3 stig yfir meðallagi. Kaldast að tiltölu var í desember en þá var hiti 1,7 stigum undir meðallaginu. Í Stykkishólmi var meðalhiti ársins 2011 4,5 stig, 1,0 stig yfir meðallagi. Árið er það tuttugasta hlýjasta frá upphafi sam- felldra mælinga 1845. Á Akureyri var meðalhitinn 4,1 stig, 0,8 stig yfir meðallagi og var þetta 13. árið í röð sem hiti er yfir meðallagi. Árið er í 31. sæti hvað hlýindi varðar en sam- felldar mælingar hófust á Akureyri 1882. Sem sagt ekkert páskahret í fyrra, hvað sem verður á þessu ári. Síðasta alvöru páskahretið var 1996 Í gögnum Veðurstofu Íslands er að finna mikinn fróðleik um veðurfar á Íslandi gegnum tíðina, þar á meðal samantekt um helstu páskahretin frá 1850 til 1996. Listinn nær einfaldlega ekki lengra vegna þess að síðan hafa ekki komið nein afgerandi páskahret, að mati sérfræðinga Veðurstofunnar. 1850. Páskadagur 31. mars. Miklir kuldar á pálmahelginni og fram eftir dymbilviku, en batnaði síðan til muna. 1857. Páskadagur 12. apríl. Mjög kalt páskadagana (-11,6 stig á páskadagsmorgun í Stykkishólmi) eftir frostleysu fyrri hluta dymbilvikunnar. 1858. Páskadagur 4. apríl. Miklar frosthörkur í dymbilviku og bænadagana, en linaði snögg- lega á laugardag fyrir páska. 1859. Páskadagur 24. apríl. Linaði á páskadag eftir ótrúlegar frosthörkur vikurnar á undan. 1866. Páskadagur 1. apríl. Gríðarleg frost í dymbilviku og um páskana, en linaði á miðviku- dag eftir páska. 1867. Páskadagur 21. apríl. Miklir kuldar í dymbilviku og um páskana. 1874. Páskadagur 5. apríl. Mjög kaldur páskadagur (hiti -8,4) en minna frost dagana á undan og eftir. 1875. Páskadagur 28. mars. Góð hláka fram eftir dymbilviku, en kast kom á föstudaginn langa og laugardag með miklu frosti. Linaði aftur á páskadag. 1876. Páskadagur 16. apríl. Mikið og langvinnt hret gerði í kringum páska. Mikil hríðarsyrpa stóð frá 7. apríl, síðan dúraði heldur og veður á páskadag var allgott. Síðan skall á mikið hret, á sumardagsmorguninn fyrsta var hiti í Stykkishólmi -11,8 stig í norðaustanbálviðri. Mikið sandfok var á Rangárvöllum og í Skaftafellssýslum, með miklum skemmdum á túnum og engjum. Allmiklir fjárskaðar í Dölum um þetta leyti. 1877. Páskadagur 1. apríl. Mikil frost um páskana og hríðar- veður, einna verst á annan páska- dag. 1882. Páskadagur 9. apríl. Mikið hret hófst á páskadag en aðalhret vorsins 1882 tengist þó ekki páskunum heldur varð undir lok aprílmánaðar. 1883. Páskadagur 25. mars. Þetta ár voru páskarnir snemma og páskadagur 25. mars. Þann dag gekk í norðaustanillviðri með miklu frosti og stóð það til 1. apríl. Mikið og mannskætt brim gerði við suðurströndina 28. og 29. mars. 1885. Páskadagur 5. apríl. Mikið hret í dymbilvikunni, sér- staklega á miðvikudag. Linaði á laugardegi. 1888. Páskadagur 1. apríl. Mikið hret í dymbilvikunni, skall á með pálma, en batnaði mikið á páskadag (1. apríl). Kirkjan í Holti undir Eyjafjöllum brotnaði af grunni og færðist til, þá fuku einnig þrír bátar á svipuðum slóð- um, 11 menn fórust með áttæring frá Patreksfirði í sama veðri. Miklir fjárskaðar urðu í Bárðardal og Reykjadal í Þingeyjarsýslu. 1889. Páskadagur 21. apríl. Þá var allmikið hret, m.a. varð jörð alhvít í Reykjavík á annan páskadag. 1891. Páskadagur 29. mars. Mikið hret í dymbilvikunni, hefði vafalaust valdið vandræðum nú á tímum, tíð batnaði með öðrum páskadegi. 1901. Páskadagur 7. apríl. Hret stóð frá pálmasunnudegi (31. mars) fram yfir páska (7. apríl). Verst varð veðrið um páska- helgina. 1902. Páskadagur 30. mars. Mikið kuldakast mestallan síðari hluta marsmánaðar og fram til 5. apríl með miklu frosti, en aðal- illviðrið var fyrstu daga dymbil- viku. Þá rak hákarlaskip upp á Siglufirði í ofsaveðri á miðviku- degi. Breskur línuveiðari strand- aði við Bervík á Snæfellsnesi. 1903. Páskadagur 12. apríl. Páska bar upp á 12. apríl en daginn áður hófst allmikið en skammvinnt hret, þá fórst bátur frá Sandgerði. 1906. Páskadagur 15. apríl. Þótt hægt sé að tala um kuldakast um páskana voru aðalillviðrin í þessum óvenju illviðrasama mánuði viku áður og síðan í lok mánaðarins. 1907. Páskadagur 31. mars. Miklir umhleypingar og illviðri með mannsköðum í dymbil- vikunni, en ekki svo kalt. Óvisst hvort telja á sem páskahret. 1911. Páskadagur 16. apríl. Allmikið hret með hríðarbyl um mestallt land og miklu frosti um páska, stóð þó stutt, var verst frá föstudeginum langa og fram á páskadag. 1913. Páskadagur 23. mars. Allmikið frost alla dymbilvikuna, en veðurharka ekki mikil.Talsvert virðist hafa snjóað, jafnvel í Vestmannaeyjum. Gott veður á páskadag. 1914. Páskadagur 12. apríl. Vetrarveðrátta mestalla páska- helgina. 1915. Páskadagur 4. apríl. Mikið frost um miðja dymbil- viku, síðan hvassviðri með snjó- komu og síðar hláku. 1916. Páskadagur 23. apríl. Viðloðandi hretatíð í apríl, páskana bar upp á þann 23. og þá voru enn frost. Norðaustanillviðri var laugardag fyrir páska. Þá fórust níu á vélbát við Vestfirði. Fleiri bátar lentu í hrakningum. 1917. Páskadagur 8. apríl. Aftaka norðanveður með miklum sköðum víða um land hófst síð- degis laugardag fyrir páska (þann 7. apríl) og stóð linnulítið í marga daga. Miklir fjárskaðar, m.a. í Húnavatnssýslum, í Dýrafirði og Arnarfirði. Að minnsta kosti tveir urðu úti, kona við Valbjarnarvelli í Borgarfirði og maður við Borg í Arnarfirði. Sagt að enginn staur hafi verið óbrotinn í bæjar- símanum á Seyðisfirði. Skúta sökk þar á firðinum og önnur á Eskifirði. Vélbátar brotnuðu bæði á Eskifirði og Reyðarfirði. Í Reyðarfirði fauk hlaða og fjárskaðar urðu. Hlaða fauk í Mjóafirði. Bátar og hús skemmd- ust á Djúpavogi og þar í grennd. Skip fuku undir Eyjafjöllum og Páskahretin eru árviss fyrirbæri í hugum margra en gögn Veðurstofu Íslands sýna þó að mannshugurinn er ekki óskeikull: Ekkert afgerandi páskahret hefur komið á Íslandi síðan 1996 - Síðast varð manntjón í kjölfar páskaveðurs 1994, sem olli snjóflóðum á Seljalandsdal og í Tungudal við innanverðan Skutulsfjörð Myndir / HKr. - -

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.