Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.1994, Blaðsíða 5

Læknablaðið - 15.02.1994, Blaðsíða 5
LÆKNABLAÐIÐ 1994; 80: 49-56 49 Tómas Guðbjartsson, Guðmundur V. Einarsson, Jónas Magnússon NÝRNAFRUMUKRABBAMEIN Á ÍSLANDI 1971-1990: Stigun og lífshorfur - Klínísk rannsókn á 408 tilfellum ÁGRIP Nýgengi nýrnafrumukrabbameins er mjög hátt á Islandi. Ekki er þekkt á hvaða stigi sjúklingarnir greinast hér á landi né hvernig þeim reiðir af eftir greiningu. Erlendis greinast sífellt fleiri sjúklingar fyrir tilviljun með nýrnafrumukrabbamein, aðallega vegna vaxandi notkunar ómskoðana og tölvusneiðmynda við rannsóknir á kviðarholi. Tilgangur rannsóknar okkar var aðallega tvíþættur. Annars vegar að kanna lífshorfur sjúklinga með nýmafrumukrabbamein hér á landi og hins vegar að athuga hvort aukning hefði orðið á fjölda tilviljanagreindra æxla og kanna hugsanleg áhrif tilviljanagreiningar á lífshorfur. Afturskyggn klínísk rannsókn var gerð á öllum sjúklingum sem greindust á lífi með nýrnafrumukrabbamein á Islandi árin 1971 - 1990, alls 408 sjúklingum. Sérstaklega var athugað á hvaða stigi (Robson) sjúkdómsins sjúklingarnir greindust. Reiknaðar voru lífshorfur fyrir hvert stig og fjölbreytugreining notuð til að kanna forspárgildi ýmissa þátta fyrir lífshorfur sjúklinga. Einnig var athugað með hvaða hætti sjúklingar greindust fyrir tilviljun, stigun þeirra og áhrif á lífshorfur. Af 408 sjúklingum greindust 334 (82%) vegna sjúkdómseinkenna en 74 fyrir tilviljun (18%), 15% fyrri 10 ár rannsóknartímabilsins og 20% á þeim síðari. Á stigi I og II greindust 176 sjúklingar (43%) en 155 (38%) á stigi IV. Fimm ára lífshorfur voru 76% fyrir stig I en 11% fyrir stig IV. Hár aldur (p<0,001), lágur blóðrauði (p=0,004) og hækkað sökk við greiningu (p=0,004) drógu marktækt úr lífshorfum. Greiningarár hafði hins vegar ekki forspárgildi (p=0,466) fyrir lífshorfur. Frá handlækninga- og þvagfæraskurðdeild Landspltalans, læknadeild Háskóla íslands. Bréfaskipti, fyrirspurnir: Tómas Guðbjartsson, handlækningadeild Landspítalans, 101 Reykjavík. Þegar tekið hafði verið tillit til stigunar virtist ekki skipta máli hvað horfur snertir hvort sjúklingur greindist fyrir tilviljun eða ekki (p=0,383). Við ályktum að horfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein hérlendis séu sambærilegar við horfur sjúklinga í nágrannalöndum okkar. Sjúklingar sem greinast fyrir tilviljun hafa umtalsvert betri horfur en aðrir sjúklingar þvf æxli þeirra eru á lægri stigum við greiningu. Aukning á fjölda æxla sem greinast fyrir tilviljun hefur verið lítil. Lífshorfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein á Islandi hafa ekki batnað síðustu tvo áratugi. Til þess að bæta lífshorfur verður að greina sjúklingana fyrr og á lægri stigum. INNGANGUR Greining nýrnafrumukrabbameins*) getur verið erfið því að einkenni sjúkdómsins eru oft lítil eða engin. Við greiningu hafa allt að 40% sjúklinganna meinvörp (1). Forsenda lækningar hefur hingað til verið brottnám æxlis með skurðaðgerð. Þrátt fyrir nýjungar í lyfjameðferð hefur meðferð sjúklinga með meinvörp borið takmarkaðan árangur og má reikna með að innan við 10% sjúklinga með meinvörp lifi í fimm ár frá greiningu (2-6). Hins vegar má gera ráð fyrir að 60-80% sjúklinganna lifi í fimm ár ef sjúkdómurinn er staðbundinn og æxlið fjarlægt með aðgerð (2-8). Erlendar rannsóknir benda til þess að nú greinist fleiri nýrnafrumuæxli fyrir tilviljun en áður (I-2,6,9-11,12-15). Til dæmis hafa *) Til nýrnakrabbameina (carcinoma renis) teljast nýrnafrumukrabbamein, nýrnaskjóðuæxli og Wilmsæxli. í þessari grein er nýrnafrumukrabbamein eingöngu notað yfir adenocarcinoma renis = renal cell carcinoma en bleikfrumuæxli (oncocytoma) eru einnig talin með nýrnafrumukrabbameini.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.