Kjarninn - 29.08.2013, Qupperneq 84
5/05 kjarninn Exit
Einn maður, ein fjölskylda hrakin burt af landinu;
einn ryðgaður bílgarmur ruggandi eftir vegunum í
áttina til vesturhéraðanna. Ég missti jörðina mína,
ein dráttarvél tók allt landið mitt. Ég er einn og
ég er ringlaður og ráðalaus. Og eitt kvöldið tekur
fjölskyldan sér nætur stað í gildragi við veginn, og önn-
ur fjölskylda kemur og slær tjaldi sínu við hliðina á
hinni. Og fjölskyldufeðurnir setjast á hækjur sínar og
bera saman ráð sín, og kvenfólkið og börnin hlusta á.
Þú, sem hatar allar breytingar og óttast byltingar, hér
er vísirinn, hér er kímið. Haltu þessum tveimur klúk-
andi mönnum hvorum frá öðrum; fáðu þá til að hata
hvorn annan, fáðu þá til að óttast og gruna hvorn ann-
an. Hér eru ræturnar að því er þú óttast. Hér er upp-
hafið. Því að nú er ekki sagt lengur: „Ég missti landið
mitt“, frumið hefur klofnað og upp af klofningnum vex
hugtakið sem þú hatar – „Við misstum landið okkar.“
Hér er hættan, því tveir menn eru ekki eins ein-
mana og ráðþrota og einn maður. Og upp af þessu
fyrsta „við“ vex annað ennþá háskalegra hugtak: „Ég
á svolítinn mat“ að viðbættu „Ég á engan.“ Ef útkoman
úr þessari samlagningu verður „Við eigum dálítinn
mat,“ þá er kominn skriður á málið, þá hefur hreyfingin
fundið farveg sinn. Aðeins ofurlitla margföldun í viðbót,
og þetta land, þessi dráttarvél er landið okkar, dráttar-
vélin okkar.
Tveir menn klúka á hækjum sínum í gildragi við
veginn, maturinn kraumar í sameiginlegum potti
yfir litlu báli, kvenfólkið stendur þögult og alvarlegt,
og á bakvið þau hlusta börnin áfjáð á orð, sem hugir
þeirra drekka í sig, þó þau séu ofvaxin skilningi þeirra.
Kvöldið líður og dimman færist yfir. Litla barnið er
lasið. Hérna, taktu brekánið mitt. Það er úr ull. Það
var brekánið hennar mömmu minnar – vefðu litla
angann innan í það. Þetta er það, sem þið eigið að kasta
sprengjunum ykkar á. Því þetta er upphafið – fyrsta
sporið frá „ég“ yfir til „við“.
Brot Úr Bókinni
Þrúgur reiðinnar
eftir John Steinbeck