Nýtt Helgafell - 31.12.1957, Page 9
SAGAN UM HANANN
151
en ekki flón og heigull sem er hræddur
við sérhvern skugga. Hvernig þorir þú
að játa í hennar áheyrn, sem þú elskar,
að til sé það sem geti gert þig hræddan?
Þú ert svo kjarklaus, að þú óttast drauma,
þetta sem ekkert er, og stafar helzt
af þembu og öðrum usla í meltingunni.
Mörgum er farið einsog þér, og æpa
af angist uppúr svefni; þeim er veitt
aðför með báli og brandi; villidýr
sem ætla að bíta þá og hrella, hundar,
blóðmannýg naut og púkar elta þá.
En Kató, hann sem var svo vitur maður,
segir að ekkert sé að marka drauma.
Víst er um það, að þér er fyrir beztu
að trúa mér og taka inn hægðalyf
þegar við fljúgum ofan; úrþví hér
er enginn lyfjasali, mun ég sjálf
sækja þér hollar jurtir útí garð;
þú tekur þær í tvo þrjá daga og hreinsast;
svo rýkur öll þín kveisa á bak og burt.“
„Elskan mín“, svarar hann, „ég þakka af
hjarta
þín hollu ráð. En fyrst þú nefndir Kató,
sem frægur var að vizku, en taldi þó
að ekki bæri að óttast vonda drauma,
þá skal ég segja þér, að fornar bækur
sýna mjög oft, að ýmsir lærdómsmenn
frægari en Kató halda hinu fram,
og byggja á eigin reynslu, að draumar
kunni
að vita á það sem verður, illt og gott
sem bíður okkar allra í þessu lífi.
Einn hinna mestu merkis-rithöfunda
sem um er getið, segir þannig sögu
af vinum tveim, sem tóku sér á hendur
pílagrímsferð, Þeir komu um kvöld til
borgar,
þar sem var slíkur fjöldi af gestum fyrir
í gistihúsum, að þeir urðu að skilja,
því ekkert hús gat hýst þá báða tvo.
Þeir létu ráðast hvað að höndum bæri,
og annar varð að hafast við í hlöðu,
en hinum tókst um síð að nátta sig
í gistihúsi; því að forlög þau
sem okkur stjórna, stilltu því svo til.
En það bar við, að sá sem inni svaf
þóttist í draumi heyra vin sinn hrópa
„Ó, ég verð myrtur nú á næturþeli,
nema þú komir óðar mér til hjálpar!“
Og ofsahræddur hrökk hann uppaf svefni;
en sem hann kennir vöku, hugsar hann:
Tóm hugarglöp! nei, ekki er mark að
draumum.
Hann snýr sér við og sofnar. Sama
draum
dreymir hann aftur; og í þriðja sinn;
þá var þar kominn vinur hans og mælti
„Nú var ég drepinn; sjáðu sár mín blæða!
Rístu upp í morgunsárið, hraða þér
til borgarhliðsins, þess sem veit í vestur;
Þú munt sjá taðvagn hlaðinn fara hjá,
en undir hlassi hans er lík mitt falið.
Hindraðu brottför hans! Ó! ég var myrtur
til fjár!“ — Og þessi dapri draumur rættist.
Hann fór með morgni að vitja vinar síns
í hlöðuna; þar var þá enginn annar
en gestgjafinn, sem gekk til hans og sagði
„Vinur þinn fór í dögun burt úr bænum,
hann lagði af stað um leið og tók að birta.“
Þá dettur honum draumurinn í hug,
og grunur vaknar, svo hann hraðar sér
til borgarhliðsins. Þá er einmitt þar
taðkerra full á förum útí sveit,
svo sem í draumnum sagði. Grunur hans
fékk stuðning, svo hann hrópar fullum
hálsi
„Hjálp! Vinur minn var myrtur þessa nótt!
Og blóði drifið lík hans liggur falið
í þessum vagni! Vinur minn var drepinn!“
Menn þustu að og veltu vagninum
og fundu líkið undir æki hans.
Já, hversu traust er forsjónin og réttvís!
Upp koma svik um síðir; ekkert morð
fær dulizt; einsog dæmin stöðugt sanna,
er dráp of grimmur glæpur til að leynast.
Það yfirvald sem átti hlut að máli
tók ekilinn og reyrði á kvalabekk
og píndi sárt, og síðan gestgjafann,
unz hundingjarnir viðurkenndu verk sitt
og voru báðir hengdir. Þarna sést
að réttast er að virða drauma vel.
Á þessa bók er önnur saga sögð,
af mönnum tveim sem halda vildu um haf