Fréttatíminn - 23.05.2014, Síða 84
8 viðhald húsa Helgin 23.-25. maí 2014
Í fallegu rúmlega aldargömlu húsi við Grandaveg í Vesturbæ Reykjavíkur býr blaðamaður-
inn og rithöfundurinn Björn Þór
Sigbjörnsson ásamt fjölskyldu. Hús-
ið stóð áður við Laugaveg 63, rétt
ofar en Kjörgarður er nú. Árið 1984
var húsið flutt þaðan á Grandaveg.
Húsið sem stóð við hliðina á Lauga-
veginum, númer 61, var einnig flutt
þá á sama stað svo þrátt fyrir flutn-
inginn hafa húsin tvö alla tíð staðið
hlið við hlið.
Töluvert viðhald fylgir svo gömlu
húsi og kveðst Björn vera alveg
ómögulegur þegar kemur að smíð-
um og fær því yfirleitt fagmenn til
að sjá um endurbætur. Hann segir
þó æskilegt að eigendur svo gam-
alla húsa kunni eitthvað fyrir sér
með hamarinn. „Tengdapabbi er
mikill hagleiksmaður og hefur að-
stoðað okkur. Fyrri eigendur húss-
ins voru mjög natnir og áhugasamir
og gerðu sitt besta til að halda því
fallegu svo við höfum notið góðs af
því,“ segir hann.
Skráð byggingarár hússins er
1984 og því telst það aðeins þrjátíu
ára gamalt þrátt fyrir að vera í raun
yfir hundrað ára. Húsið er því ekki
friðað. Við endurbætur á húsinu
hafa Björn og Ástríður Þórðardótt-
ir, kona hans, verið trú uppruna
þess. „Við tökum því mjög alvarlega
að eiga svo gamalt hús og finnst
við verða að hafa það eins nálægt
upprunalegri mynd og hægt er. Allt
sem við höfum gert hefur fallið að
húsinu og lögum um friðuð hús.“
Alla hjúskapartíð á Grandavegi
Nú í vetur var skipt um alla glugga
í húsinu og á undanförnum árum
einnig um tröppur og palla auk
þess sem eitt og annað smálegt
hefur verið gert. Smiður sem þau
þekkja tók að sér að skipta um
gluggana en Björn hafði hugsað sér
að lakka þá sjálfur og bað smiðinn
um ráðleggingar. „Ég fékk nokkur
góð ráð, eins og til dæmis að ég
þyrfti að spartla í þá og nota olíu-
lakk. Svo ætlaði ég að dunda mér
við þetta í vor og sumar.“ Þær fyrir-
ætlanir urðu að engu því smiðurinn
hvíslaði því að Ástríði að Björn væri
ekki rétti maðurinn í verkið; betra
væri að fá faglærðan málara svo vel
myndi takast til. Skemmst er frá að
segja að Björn ætlar að hlýða því.
Þau Ástríður eru þó liðtæk í garð-
ræktinni og segir Björn í gaman-
sömum tón að aldrei hafi þurft að
kalla til sérfræðing í sláttinn eða
snyrtingu beða.
Björn og Ástríður keyptu húsið
fyrir tíu árum en þau bjuggu áður
í lítilli blokkaríbúð við Grandaveg-
inn. „Við skoðuðum nokkur hús í
hverfinu en þetta varð fyrir valinu.
Það var mjög stutt á milli svo við
gátum borið búslóðina þegar við
fluttum.“ Þau hafa því alla sína hjú-
skapartíð búið við Grandaveginn og
kunna því einstaklega vel. „Hérna
Fékk ekki að lakka gluggana sjálfur
Björn Þór Sigbjörnsson býr ásamt fjölskyldunni í yfir aldargömlu húsi við Grandaveg í Vesturbæ Reykjavíkur. Við endurbætur á húsinu hafa þau verið uppruna hússins trú en
láta fagfólk um smíðarnar. Björn ætlaði sjálfur að lakka gluggana í sumar en smiður hvíslaði því að konunni hans að betra væri að fá faglærðan málara svo vel tækist til.
neðar í götunni eru svo þjónustu-
íbúðir fyrir aldraða þannig að við
sjáum fyrir okkur að búa alla okkar
tíð hérna við Grandaveginn,“ segir
hann.
Valsmenn versli við KR-inga
Sonur þeirra hjóna, Sölvi, æfir
fótbolta með KR og segir Björn að
í seinni tíð sé nálægðin við Frosta-
skjól einn helsti kosturinn við að
búa á Grandavegi. „Þangað geng
ég oft til að fá loft í lungun. Mér
finnst líka gott að vera nálægt sjón-
um og í göngufæri við miðbæinn.“
Þegar húsið stóð við Laugaveg
voru þar reknar verslanir af ýmsu
tagi og af auglýsingum að dæma
voru það lágvöruverðsverslanir
því orðin ódýrt og billegt koma þar
oft fyrir. Síðar var veitingastofa í
húsinu, úrsmiður, blómaverslun
og raftækjaverslun sem eitt sinn
auglýsti í Valsblaðinu: „Valsmenn
verslið við KR-inga" og segir Björn
gaman að því, enda séu þau fjöl-
skyldan dyggir stuðningsmenn
KR.
Björn starfaði áður sem dag-
skrárgerðarmaður á Rás 2 og
blaðamaður hjá Fréttablaðinu.
Frá árinu 2011 hefur hann starfað
sjálfstætt við blaðamennsku og
ritstörf. Hann vinnur yfirleitt við
borðstofuborðið heima og þaðan er
útsýni yfir Lýsisreitinn og á haf út.
Á reitnum hafa undanfarna mán-
uði verið sprengingar vegna ný-
byggingar sem þar á að rísa. Björn
fann vel fyrir sprengingunum en
segir ekkert hafa skemmst. Þegar
blokkin rís nýtur sjávarútsýnisins
ekki lengur við. „Til stóð að byggja
blokkina fyrir hrun en það tafðist
svo við höfum notið útsýnisins
til hins ýtrasta í millitíðinni. Við
munum sakna þess en fylgjumst í
staðinn með mannlífinu sem eykst
í götunni með öllum nýju íbú-
unum.“
Dagný Hulda Erlendsdóttir
dagnyhulda@frettatiminn.is
Áður stóð húsið við Laugaveg 63 en var flutt á Grandaveg árið 1984. Þegar húsið stóð við Laugaveg voru þar reknar verslanir af ýmsu tagi, veitingastofa, blómaverslun og raftækjaverslun. Ljósmynd/Hari