Milli mála - 26.04.2009, Page 11
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
HÁSKÓLA ÍSLANDS
Frá fornum málum til nýrra
Um kennslu erlendra tungumála
á Íslandi í sögulegu ljósi
1. Inngangur
Kunnátta í erlendum tungumálum hefur löngum verið lykillÍslendinga að samskiptum við umheiminn. Álitið er að á
fyrstu öldunum eftir landnám hafi þeir getað notað tungu sína í
samskiptum við Norðmenn og suma aðra norræna menn en þegar
á þrettándu og fjórtándu öld hafi norræn tunga þróast í ólíkar átt-
ir.1 Síðan hafi öll samskipti við útlönd að meira eða minna leyti
byggst á kunnáttu í erlendum tungumálum. Sú kunnátta hefur
verið með ýmsu móti og er þar að mörgu að hyggja. Til dæmis
skiptir máli hvaða þjóðir Íslendingar hafa haft nánust tengsl við á
hverjum tíma og hvernig samskiptum við þær hefur verið háttað.
Áhrif útlendinga hér á landi varða hér einnig miklu en þau hafa
tekið á sig ólíkar myndir í aldanna rás. Helgi Þorláksson leiðir t.d.
rök að því að vegna umsvifa Þjóðverja hér á landi á sextándu öld
hafi kunnátta Íslendinga í þýsku verið umtalsverð á þeirri tíð og
dæmi séu um að menn hafi bæði lesið og skrifað lágþýsku.2 Með
11
1 Hreinn Benediktsson, „Upptök íslenzks máls“, Þættir um íslenzkt mál, ritstj. Halldór Halldórsson,
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1964, bls. 9–28, hér bls. 27–28; Veturliði Óskarsson,
Middelnedertyske låneord i islandsk diplomsprog frem til år 1500, ritstj. Finn Hansen og Jonna Louis-
Jensen, Kaupmannahöfn: C.A. Reitzels Forlag, 2003, bls. 33–34; Sigurður Pétursson, „Erlend
tungumál á Íslandi á 16. og 17. öld“, Skírnir 178 (haust)/2004, bls. 291–317, hér bls. 291.
2 Helgi Þorláksson, „Undir einveldi“, Saga Íslands VI, ritstj. Sigurður Líndal, Reykjavík: Hið
íslenzka bókmenntafélag, 2003, bls. 1–211, hér bls. 151.
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 11