Milli mála - 26.04.2009, Page 17
Þótt geistleg menntun hafi enn um sinn verið ríkur þáttur í starfi lat-
ínuskólanna urðu engu að síður ákveðin þáttaskil þegar bein tengsl
kirkju og skóla rofnuðu. Flest bendir þó til að námsefni og kennslu-
aðferðir í latínu hafi áfram verið með svipuðu sniði. Lesefni í grísku
var hið sama og fyrr og voru kröfur í málinu taldar litlar.21
Starfsemi latínuskólanna byggðist á kirkjuskipaninni frá því um
siðaskipti og hélst hún lengi nánast óbreytt. Árið 1739 gaf einveld-
isstjórnin út tilskipun um dönsku latínuskólana í því skyni að færa
námið til nútímalegra horfs. Þess var m.a. krafist að nemendum
væri kennt á móðurmálinu dönsku og að þeir fengju auk þess sér-
staka kennslu í móðurmálinu, sögu og landafræði. Ekki gengu
þessar tilskipanir eftir og árið 1775 voru þær áréttaðar og undir-
strikað að nemendur ættu að hafa vald á máli forfeðranna og geta
bæði talað og ritað það rétt. Aukin þjóðernisvitund ýtti undir
dönskuvæðingu skólakerfisins og um aldamótin 1800 hafði staða
móðurmálsins styrkst verulega.22 Danskan hafði leyst latínuna af
hólmi sem kennslumál í Hafnarháskóla og kennslubækur á dönsku
urðu æ algengari. Fornmálin gegndu þó áfram veigamiklu hlut-
verki sem lykill að sameiginlegum menningararfi álfunnar og
latínan var enn um sinn helsta vísinda- og samskiptamál lærðra
manna.
Starfsemi latínuskólanna hér á landi byggðist á reglugerð frá
1743 en með bréfi til stiftsyfirvalda, dagsettu 16. júní 1806, frá Di-
rectionen for Universitetet og de Lærde Skoler23 var mælt fyrir um
að nýtt skipulag skyldi taka gildi fyrir Bessastaðaskóla. Skólanum
var að öðrum þræði ætlað að vera prestaskóli líkt og stólsskólarnir
voru áður en hlutverk hans skyldi nú jafnframt vera að búa skóla-
pilta undir háskólanám og lífið almennt. Í bréfi skólaráðsins er vísað
til meðfylgjandi fyrirmæla sem tóku til yfirkennara við dómkirkju-
skólann í Óðinsvéum og vörðuðu kennsluaðferðir og tilhögun
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
17
21 Sama rit, bls. 154–155.
22 Ole Feldbæk, „Skole og identitet 1789–1848. Lovgivning og lærebøger“, Dansk identitetshisto-
rie 2. Et yndigt land 1789–1848, ritstj. Ole Feldbæk, Kaupmannahöfn: C. Reitzels Forlag,
1991, bls. 259–324, hér bls. 259–260.
23 Hinn 3. júlí 1805 var Directionen for Universitetet og de Lærde Skoler sett á laggirnar og var
henni ætlað að fara með yfirstjórn latínuskólanna í danska ríkinu sem og Hafnarháskóla, sjá
nánar Hjalti Hugason, Bessastadaskolan. Et försök till prästskola på Island 1805–1846, Uppsala:
Svenska Kyrkohistoriska föreningen, 1983, bls. 50–53.
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 17