Milli mála - 26.04.2009, Page 35
Nefndin segir viðskipti við Þjóðverja engin og þeir námsmenn,
sem óski kunnáttu í þýsku, geti aflað sér nauðsynlegrar þekkingar
í henni er þeir áður hafi lært dönsku. Því yrði boðið upp á nám í
þýsku í efsta bekk, þ.e. í tvö ár, þegar nemendur vissu hvaða veg
þeir ætluðu að feta. Ekki skal kenna latneskan stíl í öllum bekkj-
um þar sem hann þjóni nú þeim tilgangi einum að nemendur skilji
betur málið. Óþarft sé að kenna að rita á latínu þar sem hún sé ekki
lengur almennt vísindamál og flestallir vísindamenn riti á hinum
nýrri tungumálum. Þá skuli hebreska víkja alfarið fyrir nýju mál-
unum.66
Í júlí 1877 tók ný reglugjörð fyrir Lærða skólann gildi67 og var
hún nánast tekin orðrétt upp eftir tillögum nefndarinnar68. Sem
fyrr er í 3. gr. kveðið á um inntökuskilyrði í dönsku og latínu. Skv.
4. gr. urðu enska og franska nú skyldugreinar auk latínu, grísku,
þýsku og dönsku. Af nýju málunum var frönsku skipað í öndvegi.
Dregið var úr þýskukennslu og hebreska hvarf með öllu sem
skyldugrein.
Í 4. grein reglugerðarinnar er fjallað um einstakar námsgreinar
og í 10. grein um árspróf og aðalpróf. Dönsku átti nú aftur að
kenna í öllum bekkjum. Ensku skyldi kenna í fjóra vetur og áttu
skólapiltar að ná þeirri kunnáttu í málinu að þeir gætu skilið og
nokkurn veginn þýtt hverja enska bók almenns efnis í óbundinni
ræðu. Prófið skyldi einungis vera munnlegt og felast í þýðingu
tveggja texta í óbundinni ræðu í ólesnum rithöfundum. Frönsku
skyldi kenna í öllum bekkjum þannig að nemendur yrðu færir um
að þýða hverja frakkneska bók almenns efnis í óbundinni ræðu.
Prófið átti að vera munnlegt og sumpart reyna lærisveina í tiltekn-
um lesnum kafla sem væri a.m.k. 100 bls. að lengd í 8 blaða broti,
sumpart í ólesnum rithöfundi í óbundinni ræðu og í málfræði. Um
kennslu í þýsku segir einungis að hún skuli kennd í efsta bekk (2
vetur). Prófið skyldi vera munnlegt í lesnu efni. Latína skyldi
kennd í öllum bekkjum en gríska frá og með öðrum bekk og til
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
35
66 Sama rit, bls. 34–35.
67 „Auglýsing um reglugjörð fyrir hinn lærða skóla í Reykjavík“, Stjórnartíðindi 1877, A-deild,
bls. 20–32.
68 Kristinn Ármannsson, „2. Reglugerðir Reykjavíkurskóla, 2.3 Lærði skólinn 1877–1904“, Saga
Reykjavíkurskóla I, bls. 34–69, hér bls. 36–38.
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 35