Milli mála - 26.04.2009, Side 58
lítt þekkt utan hins þrönga hóps miðalda- og bókmenntafræðinga
sem kynna sér ljóðsögur hans sem hluta af námi eða rannsóknar-
vinnu.
Nafnið Chrétien var sjaldgæft á ritunartíma Sögunnar um gralinn
en því bregður fyrir í þeim fimm riddarasögum sem hann er talinn
vera höfundur að og í þeirri fyrstu, Erec et Enide, kennir hann sig við
borgina Troyes í Champagne-héraði.12 Borgin Troyes blómstraði á
síðari hluta 12. aldar. Greifarnir í Champagne-héraði reistu þar
hallir og þarna voru haldnir stórir árstíðabundnir markaðir sem
drógu að kaupmenn og ferðafólk. Þetta var miðstöð viðskipta,
menntunar og menningar. Latnesk útgáfa nafnsins Chrétien –
Christianus – hefur fundist þar í skrá einni frá árinu 1173 í Saint-
Loup-klaustrinu og var sá Kristján kanóni.13 Hvort þetta er okkar
maður er óvíst en eins og flestallir ritfærir menn þessa tíma hafði
höfundur Sögunnar um gralinn í það minnsta hlotið klerklega
menntun. Á tímum trúbadúra kemur það ekki á óvart að ástin –
hin hæverska ást í sínum ólíku myndum – verði eitt af meginvið-
fangsefnum rómönsunnar. Talið er að Chrétien hafi skrifað sína
fyrstu riddarasögu um 1170. Þetta er sagan um hjónin Erec og
Enide og fjallar hún um það hvernig Erec tekst, með hjálp Enide,
að rækja riddaralegar skyldur sínar þrátt fyrir ofurást á eiginkonu
sinni. Í verkinu Cligès (frá um 1176) skrifar Chrétien eins konar
svar við sögunni um elskendurna Tristan og Ísold. Söguhetjurnar
Cligès og Fénice elska hvor aðra þótt Fénice sé gift eldri manni. Án
þess að vera eiginmanni sínum ótrú – eins og Ísold var sek um –
tekst henni að blekkja hann og gengur að eiga hinn unga Cligès í
sögulok. Í sögunni um ljónsriddarann Ívan veltir Chrétien því enn
fyrir sér hvernig best megi flétta saman riddaramennsku og ekta-
skap en um svipað leyti (1177–1181) semur hann einnig Lancelot
eða kerruriddarann að beiðni Maríu greifynju af Champagne sem
AÐ BÚA TIL SÖGU
58
12 Mikið hefur verið skrifað um Chrétien de Troyes og verk hans. Kynningu á höfundinum og því
umhverfi sem verk hans eru sprottin úr má til dæmis finna í verki Josephs J. Duggans, The
Romances of Chrétien de Troyes, New Haven og London: Yale University Press, 2001, bls. 1–46. Í
verki Douglasar Kellys, Chrétien de Troyes. An Analytic Bibliography. Supplement 1, London:
Tamesis, 2002 er svo að finna nánari upplýsingar um rannsóknir á verkum höfundarins. Nýlegt
yfirlit um verk Chrétiens: A Companion to Chrétien de Troyes, ritstj. Norris J. Lacy og Joan Tasker
Grimbert, Cambridge: D.S. Brewer, 2005. Sjá líka fróðlega umfjöllun Martins Aurells í riti
hans La Légende du roi Arthur. 550–1250, París: Perrin, 2007, bls. 253–366.
13 Sjá til dæmis Joseph J. Duggan, The Romances of Chrétien de Troyes, bls. 4.
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 58