Milli mála - 26.04.2009, Blaðsíða 61
heimanmund með henni. Við krýningarathöfnina, þegar Filippus
Ágústus tók við ríkinu af föður sínum, hélt greifinn á hinu kon-
unglega sverði og þjónaði til borðs við hátíðarmálsverðinn sama
kvöld en í því fólst mikill virðingarvottur. Þegar Loðvík VII. var
allur versnuðu fljótt samskipti Filippusanna tveggja: Greifinn var
ráðríkur og upptekinn af eigin hagsmunum og hinn ungi konung-
ur lét stjórnmál og valdabaráttu ráða för í samskiptum sínum við
kennara sinn og lénsmann. Hafi Sagan um gralinn verið hugsuð sem
eins konar handbók eða leiðarvísir fyrir hinn unga konung má ætla
að riddarinn Gauvain, sem síðari hluti verksins fjallar um, hafi ver-
ið konunginum betri fyrirmynd en sá fávísi sveinn, Perceval, sem
er söguhetja fyrri hlutans.18 Sveinninn er þó mun minnisstæðari og
óvenjulegri sögupersóna í skáldverki af þessu tagi.
Í sögunni segir frá ungum pilti sem kveður móður sína með
það fyrir augum að fara til hirðar Artúrs konungs og gerast þar
riddari. Móðirin biður hann að fara hvergi, segist hafa misst föð-
ur hans og tvo eldri bræður í bardaga og megi ekki hugsa til þess
að sjá þann þriðja og seinasta fara sömu leið. Ungi maðurinn læt-
ur ekki segjast og þegar móðirin hefur lagt honum lífsreglurnar
ríður hann af stað en hún hnígur niður af sorg. Sveinninn kemur
til hirðar Artúrs konungs, fær þar góðar viðtökur og verður sér
snarlega úti um herklæði. Hann lærir svo riddaramennsku hjá
öðlingnum Gornemant sem fær honum einnig fín og fagurlituð
klæði í stað þess fábrotna fatnaðar sem móðir hans hafði saumað
og kennir honum, síðast en ekki síst, að gæta orða sinna. Þegar
Perceval getur fengið hönd – og ríki – hinnar fögru Blanchefleur
afþakkar hann og segist fyrst þurfa að vitja móður sinnar. Á leið
sinni kemur hann að á þar sem heldri maður situr í bát og dorg-
ar. Hann býður piltinum næturgistingu og þannig ratar hinn
nýbakaði riddari í kastala hins fótlama Fiskikonungs þar sem
ÁSDÍS R. MAGNÚSDÓTTIR
61
18 Rita Lejeune taldi að Filippus af Alsace hefði pantað verkið fyrir hinn unga prins, Filippus, með
það að leiðarljósi að hann gæti lært af því að fylgjast með Perceval; Rita Lejeune, „Encore la
date du Conte du graal de Chrétien de Troyes“, Bulletin Bibliographique de la Société Internationale
Arthurienne 9/1957, bls. 85–100, hér bls. 95. Ráð til konunga eða ýmiss konar konungsskugg-
sjár voru algengar á miðöldum. Ritið Policraticus (1159), eftir John frá Salesbury, var samið með
Hinrik II. Plantagenet í huga. Hann varð konungur Englands árið 1154. Í einum hluta norska
ritsins Konungs skuggsjá (1250–1260), þar sem talast við faðir og sonur, eru ýmsar ráðleggingar
til konunga.
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 61