Milli mála - 26.04.2009, Page 139
Francisco Franco, lést árið 1975, eftir nær 40 ár á valdastóli, og við
tók tímabil sem lauk með valdatöku sósíalista árið 1982.24 Við
þessi umskipti voru leikstjórar eins og Saura, sem áður flokkaðist
sem andstæðingur stjórnarinnar, orðnir hliðhollir þeim sem um
valdataumana héldu. Rétt er að árétta að stjórn sósíalista hafði sín-
ar eigin hugmyndir um þróun spænskrar kvikmyndagerðar og
gerði umtalsverðar umbætur á stuðnings- og styrkjakerfi kvik-
myndaiðnaðarins. Stjórnin studdist við fyrirmyndir frá Frakklandi
og þegar Spænska kvikmyndaakademían var sett á laggirnar var
henni m.a. ætlað að leggja áherslu á gerð vandaðra sögulegra
mynda þar sem gert yrði upp við fortíðina og valdatíð Francos. Jón
Arason lýsir þessum tíma á eftirfarandi hátt: „Timburmenn Franco
tímabilsins fjara út á milli þess að Franco deyr og sósíalistar taka
við stjórnartaumunum og segja má að þjóðin hafi verið í ofneyslu
alsælunnar árin þarna á milli og ekki kunnað fótum sínum forráð“
(bls. 145). Með þessum orðum vísar hann til þess að nýfengið tján-
ingarfrelsi leiddi til mikilla umbrotatíma í menningar- og listalífi
á Spáni og bendir á að nú hafi spænskar kvikmyndir „[hlotið] al-
þjóðlega athygli í fyrsta sinn í langan tíma“ (bls. 146).
Um kvikmyndir þessa tímabils segir John Hopewell, í bók sinni
Out of the Past. Spanish Cinema after Franco (1986), að þær séu auð-
þekkjanlegar af sérstæðum efnistökum. Þær fjalli ítrekað um barn-
æskuna og ímyndunaraflið, um fjölskylduna og einmanakenndina og
um heimilið sem vettvang átaka. Það sem hann kallar „New Spanish
Comedy“ og haldið var á lofti af leikstjórum eins og Fernando Co-
lomo, Fernando Trueba og Francesc Bellmunt segir hann andsvar við
óánægjunni (sp. el desencanto) og jafnvel reiðinni sem kraumaði hvar-
vetna undir niðri í spænsku samfélagi.25 Fyrir liggur að á árunum
eftir 1975 og fram undir 1990 mótaðist kvikmyndagerð landsins af
nýfengnu frelsi, óheftu tjáningarfrelsi og tilraunastarfsemi á öllum
sviðum. Fram á sjónarsviðið kom ný kynslóð kvikmyndagerðar-
manna sem lítinn áhuga hafði á því að velta sér upp úr fortíðinni.
HÓLMFRÍÐUR GARÐARSDÓTTIR OG GUÐMUNDUR ERLINGSSON
139
24 Um kvikmyndaframleiðslu þessa tímabils sjá t.d. 4 años de cine Español (1983–86), ritstj.
Francisco Llinas, Madríd: IMAGFIC, 1987.
25 John Hopewell, Out of the Past. Spanish Cinema after Franco, London: bfi books, 1986, bls. 223.
26 http://www.clubcultura.com/clubcine/clubcineastas/almodovar/eng/homeeng.htm [sótt 6.
ágúst 2009].
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 139