Milli mála - 26.04.2009, Page 152
Þýska hugtakið Phraseologismus (einnig feste Wortverbindung eða
phraseologische Wortverbindung) kýs ég að kalla fast orðasamband á
íslensku og er það notað sem heildarheiti yfir þá þætti (þ. Kompo-
nenten) orðaforðans sem settir eru saman úr fleiri en einu orði. Frjálst
orðasamband (þ. freie Wortverbindung) er notað sem nokkurs konar
andstæða við fast orðasamband. Þar koma orðin fyrir í samhengi
sem ræðst af aðstæðum en eru ekki fasttengd öðrum orðum. Dæmi
um fast orðasamband er sie geht vor die Hunde (‘hún fer í hundana’)
en um frjálst orðasamband sie geht ins Kino (‘hún fer í bíó’).
Eins og fram hefur komið nefnist sú grein málvísindanna sem hef-
ur föst orðasambönd að viðfangsefni á þýsku Phraseologie. Þar er gerð-
ur greinarmunur á umfjöllun um orðasambönd í víðari merkingu
(þ. Phraseologie im weiteren Sinne) sem samsvarar því sem hér er kallað
fraseólógía og umfjöllun um orðasambönd í þrengri merkingu
sem nefna mætti orðtakafræði (þ. Phraseologie im engeren Sinne).3 Öll
föst orðasambönd samanstanda af fleiri en einu orði, eru fleiryrt, en
margir flokkar þeirra eru notaðir í málsamfélaginu líkt og um eitt
orð væri að ræða; orðasamböndin eru þá umskiptanleg við stök orð
með sambærilegri merkingu og notkun. Þegar orðasambönd í þrengri
merkingu eru annars vegar bætist við þetta einkenni ákveðinn þátt-
ur sem varðar merkinguna og verður nánar vikið að því í 2.2.
2.1 Fleiryrðiseðli fastra orðasambanda
Eins og áður segir eru föst orðasambönd fleiryrt, búa yfir fleiryrðis-
eðli (þ. Polylexikalität), sem merkir að þau eru samsett af a.m.k.
tveimur orðum. Um þennan eiginleika fastra orðasambanda eru
fræðimenn sammála þótt þá greini á um hvort í báðum tilfellum
þurfi að vera um inntaksorð (þ. Autosemantikon, Vollwort) að ræða
eða hvort annað orðið geti verið inntaksorð og hitt kerfisorð (þ.
Synsemantikon, Funktionswort).4
ORÐ TIL TAKS
152
3 Sjá Harald Burger, Phraseologie. Eine Einführung am Beispiel des Deutschen, Berlín: Erich Schmidt
Verlag, 3. útg., 2007, bls. 14–15.
4 Sama rit, bls. 15–16. Inntaksorð eru orð sem hafa merkingarlegt inntak (svo sem sagnorð,
nafnorð og lýsingarorð), kerfisorð hafa ekki eiginlegt merkingarlegt inntak en gegna málfræði-
legu hlutverki (þetta eru m.a. samtengingar, forsetningar og nafnháttarmerki).
Milli mála 26.4.2010 14:23 Page 152